06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

112. mál, gistihússauki í Borgarnesi

Hákon Kristófersson:

Jeg vil ekki gera lítið úr því, að mikil þörf sje á gistihúsi í Borgarnesi, sú hlið málsins er mjer ekki kunn, en þó það mætti með rökum sanna, þá mun slík þörf miklu viðar. Það segir sig því sjálft, að ef þingið ætlar að fara að ganga inn á þá braut að lána einstökum mönnum fje úr landssjóði til þess að byggja gistihús, mundi fjöldinn allur af beiðnum streyma að á næstunni, líklega þó ekki á þetta þing, af því maður vonar, að það sje bráðum búið, heldur það næsta og næstu, og jeg get ekki sjeð, ef þessi tillaga verður samþ., að mögulegt sje, sanngirnis vegna, að neita öðrum þeim fjárbeiðnum, sem kunna að koma og færu í líka átt, því að ef þetta er heimilað, þá er því slegið föstu, að hjer er gefið fordæmi. Nú, hvorki ræða hv. flm. (B. J.) nje aðrar upplýsingar um þetta, sem lítið liggur fyrir af, hafa gefið neinar bendingar um það, að lán eða styrks hafi verið leitað frá sýslufjelaginu, en sú leið hefir verið farin í öðrum bygðarlögum, og jeg sje ekki annað en það væri einmitt beinasta leiðin; það segir sig líka sjálft að það mundu helst vera nærliggjandi hjeruð, er helst mundu nota þetta væntanlega gistihús, og því stæði það þeim næst að styrkja að því. Jeg segi helst, af því að það mundu verða hjeruðin sem lægju í nánd við Borgarnes, en síður hjeruðin úti um land. Þar af leiðandi get jeg ekki sjeð, að slík málaleitun, sem þessi, eða sem fer í þessa átt, eigi nokkurt erindi inn á þingið, og get ómögulega fallist á, að það sje rjett að taka upp á að hafa landssjóð sem „privat“ lánsstofnun; hitt er alt annars eðlis, þótt hreppar eða sýslufjelög leiti til landssjóðs til að koma fram bjargráðafyrirtækjum, sem annars myndu alveg stöðvast, og mikið tjón myndi af hljótast. Þar ber landssjóð skylda til að hlaupa undir baggann, ef hjeruðin sjálf geta ekki risið undir honum. Jeg sje því ekki betur en að þetta mál hefði verið best komið í sýslunefnd Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, og að þau stjórnarvöld hefðu átt að hafa ljósasta hvöt til þess að hjálpa fyrirtækinu. Jeg get ekki litið öðruvísi á, eins og jeg hefi tekið fram, eins og fjárhag landssjóðs er háttað, en að nú geti hann ekki hlaupið undir bagga með þessari eða annari líkri lánbeiðslu, því að jeg held að það sje ómótmælanlegt, að hann hafi ekki einu sinni fje til að koma fram bjargráðafyrirtækjum, þó í smáum stíl sjeu, og því síður þetta, sem jeg get ekki kallað bjargráðafyrirtæki, þó að mjer þyki það mjög leitt að þurfa að leggja á móti málinu, þar sem þektur maður á í hlut, en jeg býst við, að sú skoðun verði ofan á í þessari hv. deild, og þá á málið ekkert erindi til 2. umr., en það hefði getað hugsast með því móti, að þingið hefði nýlega verið komið saman og hefði ekkert haft að gera, að það hefði þá verið tekið til umr.

Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir tekið þetta mál til flutnings, og jeg þykist viss um, að það sje góðgirni ein, sem hefir hvatt hann til þess, og þykir mjer leitt, að jeg get ekki fylgst með honum. Jeg tek það fram, að það væri æskilegt, að fjárhagnum væri þannig háttað, að bæði þessi og aðrar fjárbeiðslur gætu náð fram að ganga, en jeg verð að benda á það, að svo framarlega, sem við göngum inn á þessa braut, getum við með engu móti snúið aftur af henni — en það er mjer kunnugt um, að sýslufjelög hafa hlaupið undir bagga með mönnum um þetta, og því gerlegt fyrir manninn að snúa sjer þangað.