08.07.1918
Neðri deild: 65. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

114. mál, laun tveggja kennara Flensborgarskólans

Gísli Sveinsson:

Jeg vil styðja það, að þessari tillögu verði vísað til síðari umræðu. En mjer þætti vel við eiga, að fjárveitinganefnd athugaði málið nokkuð nánar, og geri jeg það að tillögu minni, að því verði til hennar vísað. En áður en till. fer til nefndar vildi jeg spyrja hv. flm. (B. J.), hvort nú þegar sje búið að segja þessum mönnum upp stöðu þeirra, og ef svo væri, hvort ekki sjeu líkur til, að uppsögnin verði tekin aftur. Það stendur sem sje í brjefinu, sem prentað er hjer sem greinargerð, „að allar líkur sjeu, til þess, að skólinn starfi ekki á komandi vetri,“ og því mætti gera ráð fyrir, að skólinn mundi ef til vill starfa, og uppsögnin því ekki endanleg. Þetta vil jeg fá fyllilega upplýst, og gæti það komið fyrir nefndina. Svo er hægt að gera ráð fyrir, hvað gera skuli, eða yfir höfuð, hvort nokkuð skuli að gert. Jeg er nú á því, að nokkur siðferðileg skylda hvíli á landssjóði að sjá þessum mönnum að einhverju leyti farborða næstkomandi vetur, ef þeir missa atvinnu sína með þessum hætti, en lagaleg skylda hvílir engin á honum. Það stendur nú í tillögunni, að þeir skuli fá þessi laun, hvort sem skólinn starfar eða ekki. (B. J.: Það er að eins ónákvæmt orðalag). Jæja, þá verður að laga það.

Jeg hefi annars, eins og jeg hefi getið, ekkert á móti tillögunni, ef það kemur upp, að mönnunum er í raun og veru sagt upp starfi sínu.

Jeg vil láta þess getið í sambandi við þetta mál og út af því, að ef stjórn skólans ætlar að hegða sjer þannig, að varpa út á gaddinn föstum kennurum sínum, og þykjast með því fría sig undan öllum skyldum til að launa þeim, svo að reynt sje með því að láta þá lenda á landssjóði, þá mun jeg og vafalaust fleiri þingmenn beitast fyrir því, að þessi skóli verði aldrei framar styrktur úr landssjóði, eða, ef hann þannig legst niður, endurreistur.

Jeg get og lýst yfir því fyrir mitt leyti, að jeg álít, að skólinn sje með öllu óþarfur, við hliðina á Reykjavík og Reykjavíkurskólunum, því að þar er ekkert það kent, sem ekki er kent í skólum hjer í bænum. Jeg hefi sagt þetta af því, að jeg vil láta það berast út til rjettra hlutaðeigenda, að slík rödd, hafi gert vart við sig hjer. Og mega þeir nú hegða sjer hjer eftir.