08.07.1918
Neðri deild: 65. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

114. mál, laun tveggja kennara Flensborgarskólans

Matthías Ólafsson:

Það er alveg rjett, sem hv. þm. Stranda. (M. P.) tók fram, að þetta mál hefir legið fyrir fjárveitinganefndinni, en hún taldi sjer ekki skylt að taka neina ákvörðun um það fyr en fengið væri álit stjórnarinnar. Mönnum mun varla blandast hugur um það, að landssjóður sje ekki skyldur að greiða þessi laun. Og jeg fyrir mitt leyti verð að álíta, að landssjóður eigi fullerfitt með að fullnægja þeim útgjöldum, sem hann ber brýn skylda til að hafa. Jeg veit, að, fjárveitinganefndin, eða að minsta kosti meiri hl. hennar, litur þessum augum á málið. Það er því varla til neins að vísa málinu til hennar.

Hvað snertir samræmið milli þessara manna og skólastjórans á Eiðum, þá er ólíku saman að jafna. Það var beinlínis eftir ráðstöfunum þingsins, sem sá maður misti stöðu sína. Því bar þess vegna að sjá honum farborða, meðan hann gat ekki útvegað sjer aðra atvinnu En hjer er um „privat“stofnun að ræða, sem þingið hefir engin umráð yfir. Það var því bein skylda þingsins að greiða Eiðaskólastjóranum biðlaun, en þessir menn koma þinginu ekkert við.

Jeg kannast fyllilega við það, að það er hart fyrir þessa menn að vera kastað þannig út á klakann. En það er þinginu svo óviðkomandi, sem frekast getur verið. Alveg eins óviðkomandi eins og ef einhver verslun segði þjónum sínum upp stöðum þeirra og ljeti þá standa uppi atvinnulausa. Þó þessi skóli sje styrktur af landsfje, þá er hann samt alveg óháður landsstjórninni, og hún getur engu ráðið um, hvernig honum er hagað. Það er því ekki fyrir hennar aðgerðir, sem kenslan er lögð niður við skólann.

Jeg veit ekki heldur, hve sjálfsagt það er, að þessir kennarar fái biðlaun. Mjer er kunnugt um það, að öðrum þeirra að minsta kosti stendur til boða kennarastaða, lágt launuð staða að vísu, eins og allar kennarastöður eru, en þó svo að vel væri við henni lítandi, þegar ekki er völ á öðru. Að vísu er sú staða á öðrum stað, og það má berja því að vont sje fyrir manninn að fara að rífa sig upp, þar sem hann er búsettur í Hafnarfirði. En jeg get ekki annað sjeð en að landssjóður hafi þó fulla afsökun gagnvart þessum. manni.

Mennirnir hafa fulla rjettlætiskröfu til launa, gagnvart þeirri stjórnarnefnd skólans, sem setur þá nú út á klakann. En gagnvart landssjóði geta þeir ekki haft neina kröfu. Hins vegar er þeim vorkunn, þó þeir leiti þangað, þegar þeir fá enga áheyrn hjá þeim, sem skyldur hafa gagnvart þeim.