08.07.1918
Neðri deild: 65. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (1972)

114. mál, laun tveggja kennara Flensborgarskólans

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætla að eins að taka það fram, að jeg hefi aldrei sagt, að þessir menn ættu meiri kröfu til launa úr landssjóði. Hefði jeg álitið það, þá hefði jeg ekki komið með það í tillöguformi til þingsins, að heimilað væri að greiða þeim laun. Þeir hefðu þá ekki þurft annað en heimta sín laun af landsstjórninni: Jeg benti að eins á að þetta væri í samræmi við þá stefnu, sem þingið hefði áður tekið gagnvart launum kennara. Þess ber og að gæta, að með þessu er ekki verið að baka landssjóði nein ný útgjöld. Ef skólinn starfar, þá hefir landssjóður skuldbundið sig til að greiða honum 8.500 kr. styrk. Ef hann getur ekki starfað, þá yrðu útgjöldin til hans 2.300 kr., ef þingið vill sinna þessari till. Hjer getur því ekki verið að tala um neina hættu fyrir fjárhag landssjóðs. Þessi upphæð er miklu minni en sú, sem landssjóður hefir skuldbundið sig til að greiða skólanum. Að vísu yrði óvænti gróðinn sem landssjóður hefði af því, að skólinn starfaði ekki, þeim mun minni.

Það er alveg rjett, að málið kom til fjárveitinganefndarinnar, og hún skrifaði stjórninni, til að leita álits hennar um það, en fjekk ekkert svar frá henni. Nú má aftur vísa málinu til nefndarinnar, til þess að hún geti knúið fram þetta svar, með því að segja stjórninni, að nú sje komin fram þingsál.till. um málið, sem vísað hafi verið til nefndarinnar, og því verði hún að fá svar stjórnarinnar, svo hún geti stuðst við það í till. sínum í málinu.