15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (1977)

114. mál, laun tveggja kennara Flensborgarskólans

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki vel gert mjer að góðu þessar niðurstöður hv. fjárveitinganefndar, og allra síst brjef stjórnarráðsins, sem prentað er með nál. það getur verið rjett, að landsstjórnin hafi ekki nein afskifti af ráðningu eða afsetningu þessara manna. En Alþingi hefir talið sjer skylt að líta eftir kennurum landsins, hvort sem þeir eru starfsmenn landssjóðs eða ekki. Þetta hefir þingið sýnt með því að veita öllum föstum kennurum harðærisuppbót, án tillits til þess, hvort þeir væru ráðnir af landsstjórninni og fengju laun sín úr landssjóði eða ekki.

Nú er því þannig farið um þessa menn, að þeim hefir verið sagt upp stöðum sínum, ef til vill með nægilegum fyrirvara, en hvað stoðar það, þegar ekki er neina atvinnu að fá við kenslustörf. Auk þess ætti það að vera nóg fyrir landssjóð að fá þann ágóða, sem stafar af því, að skólinn verður ekki látinn starfa, þó kennurunum sjeu goldin launin. Það, sem styrkurinn nemur, umfram kennaralaunin, verður beinn ágóði fyrir landssjóð.

Jeg verð að benda hv. þm. á það, að þingið er að hverfa frá þeirri stefnu, sem það hefir tekið gagnvart kennurum, ef það neitar nú að veita þessum kennurum laun sín, þó skólinn starfi ekki. Annars er það mál svo ofureinfalt og liggur svo beint fyrir, að engum getur verið vandi að greiða því atkv., án þess fleiri orðum sje um það farið. Jeg ætla því að setjast niður að svo stöddu.