15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (1983)

115. mál, heildsala

Flm. (Magnús Torfason):

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefir þessi till., sem jeg ásamt 11 öðrum hv. þm. hefi leyft mjer að bera fram, sætt allmiklum mótmælum, ekki að eins hjeðan úr bæ, heldur og utan af landi. Það hafa sem sje borist hingað pöntuð mótmæli utan af landi. Jeg get ekki annað sagt en að þetta hafi farið að vonum því að þingsályktunartill., ef hún nær fram að ganga og hæstv. stjórn framkvæmir hana, myndi koma talsvert við hagsmuni einstakra manna. Slíkt er óhjákvæmilegt. Þess vegna verð jeg að fara fleiri orðum en jeg hafði hugsað mjer um tildrög till. og tilgang hennar.

Till. er um þurftarvörur, vörur, sem menn þurfa til almennra lífsþæginda, án þess að þær sje bráðnauðsynlegar til þess að draga fram lífið. Nú hefir verið alltilfinnanlegur skortur á þessum vörum, meðan kaupmenn hafa getað ráðið yfir skiprúmi í skipum Eimskipafjelags Íslands. Geta menn ráðið það af verðinu, þegar t. d. kg. af sóda kostar á aðra krónu, eða munntóbak 25 kr. kg. þetta okurverð sýnir, að skorturinn er tilfinnanlegur. Þó finna menn minst til hans hjer í bæ. Skorturinn er og hefir verið enn tilfinnanlegri úti um land. Á Ísafirði er mjer t. d. kunnugt um, að skortur hefir verið á hverri vörutegundinni á fætur annari.

Það hefir ekki verið unt að fá steinolíuofna, lampa, diska, bolla, skálar, og mætti lengi halda áfram að telja þær vörur upp, sem ófáanlegar hafa verið. Búðirnar hafa verið snauðar og tómar. Og enn verra hefir ástandið verið annarsstaðar í útkjálkahjeruðum. Allar siglingar landsins eru til Reykjavíkur. Reykvíkingar gleypa alt, og það, sem við úti um landið fáum, eru að eins örfáir molar af borðum þeirra.

Eins og jeg tók fram, hafa skip Eimskipafjelagsins verið notuð til þess að flytja vörur þessar. Heildsalarnir hafa ekki þurft að gera annað en að eins panta vörurnar, eða í mesta lagi að skreppa utan um leið, sjer til skemtunar og gamans.

En nú hefi jeg fengið upplýsingar hjá landsversluninni um það, að framvegis muni skip þau ekki flytja nema örlítið af slíkum vörum; farmrýmið er ekki nema rúmlega fyrir nauðsynjavörur.

Það er því skiljanlegt, að úr því nú er skortur á vörum þessum, meðan þær fást fluttar á skipum Eimskipafjelagsins, þá hlýtur sá skortur að aukast að miklum mun, þegar heildsalarnir verða sjálfir að fara að útvega sjer skipakost.

Þá má líka benda á það, að tilfinnanlegur skortur hefir verið á ýmsum nauðsynjavörum, sem landsverslunin hefir ekki skift sjer af. Nægir þar að benda á timbur, sem skort hefir mjög um land alt. Enda hefir hjer á þingi verið samþ. þingsál. um, að landsverslunin sjái um útvegun á timbri til bátagerða o. fl. Jeg er því ekki í neinum efa um það, að ef landsverslunin lætur ekki til sín taka mál þetta, þá lendir í blávandræðum úti um land alt.

Fyrsti og aðaltilgangur till. er því sá, að landsverslunin drepi í skörðin; bæti við þar, sem skortur er á vörunum, og þar stendur hún vel að vígi. Innflutningsnefndin fær skýrslur um allar þær vörur, sem pantaðar eru og líkindi eru til að fáist til landsins, og er þá hægurinn á að sjá, á hvaða vörum muni verða skortur, og haga innkaupum þar eftir.

Það er sýnilegt, að fylsta þörf er á að dreifa vörunum sem best út um landið, en sú þörf vex vitanlega með skortinum. Hins vegar ekkert líklegra en heildsalarnir láti vini sína og kunningja sitja fyrir vörukaupum. Það verða því að eins stöku kaupmenn, sem vörurnar fá, aðrir fá ekkert.

Af því sjest, að brýn nauðsyn ber til þess, að vörunum sje betur dreift, en það getur ekki orðið nema því að eins, að landsverslunin hafi eitthvað í pokahorninu til þess að drepa í skörðin. Hjer er því um nauðsyn að ræða, sem skylt er að bæta úr.

Þá yrði ein afleiðingin af till. sú, að verðlagi yrði haldið niðri. Það hafa að vísu verið samþ. hjer á þingi lög um álag á vörum, og ættu þau að verka, að minsta kosti meðan sár skortur er ekki orðinn á vöru. En þegar svo er komið, hætta menn oftast að spyrja hvað varan kosti, en kaupa hana við hvaða verði sem er, ef hún að eins fæst.

Og það er nú ekki síður hjer að kæra menn fyrir lagabrot, og margur mun líta svo á, ef einhver gerir honum þann greiða að selja honum lítt fáanlega vöru, þótt við okurverði sje, þá beri hann drengskaparskylda til að þegja yfir því, þótt á honum sje níðst með ólöglegu okurverði. Menn vilja heldur láta níðast á sjer en gera sig seka í neinu, sem getur orkað tvímælis um drengskapinn.

Till. miðar því beint til þess að fyrirbyggja slíkt okur og að almenningur yrði þannig soginn út.

Eins og við vitum, er landsverslunin ekki annað en landskaupfjelag; en nú er reynsla kaupfjelaganna sú, að þau gátu ekki staðist meðan þau versluðu ekki með annað en nauðsynjavörur. Það er líka eðlilegt, því að þá stóðu kaupmennirnir betur að vígi í samkepninni; þeir höfðu hinar vörurnar, arðvænlegustu vörurnar, til að leggja á, og þurftu því ekki að taka gróðann af nauðsynjavörunum.

Nú er það gefinn hlutur, að eigi landsverslunin að geta staðist, þá verður hún í þessu að haga sjer eins og kaupmennirnir. Hún verður því að taka að sjer sölu á öðru en nauðsynjavörum.

Nú hefir gróði kaupmanna verið afsakaður með því, að þeir verði að búa sig undir verðfall, sem verða muni að stríðslokum. Þetta er að vísu aldrei nema rjett og sanngjarnt, en þá verður landsverslunin líka að fara eins að og safna í sarpinn, og henni er þess miklu frekari þörf en kaupmönnum, því að þeir geta altaf hætt verslun er þeir vilja, ef þeir sjá sitt óvænna, og hlaupið frá öllu, en landsverslunin er skyld til að sjá landinu fyrir vörubirgðum, og getur því ekki hætt.

Eins og nú er, hlýtur landsverslunin að tapa fje, hjá því verður ekki komist. En þessi stefna, að hún taki að sjer heildsölu á þurftarvörum, ætti að vera vegur til að græða fje.

Því hefir verið skotið fram, að landsverslunin hafi aldrei gert annað en spenna upp vöruverðið. En slíkt er á engum rökum bygt, það er blátt áfram full ósannindi. Kaupmenn hafa ekki, að öðru jöfnu, selt ódýrar, nema þá af gömlum vörum, og það hefir komið fyrir að eins. En þótt eitthvað hafi gengið skrykkjótt fyrir landsversluninni í fyrstu, stendur nú öðruvísi á.

Síðan núverandi forstjórar tóku við landsversluninni hefir hún engar ákúrur fengið. Menn hafa ekki einu sinni dirfst að vega að þeim mönnum. Það er því öðru máli að gegna nú, en áður. Og jeg fyrir mitt leyti ber svo fult traust til landsverslunarinnar, að jeg hefi örugga von um, að hún geti haldið vel á spilum sínum.

Eins og menn vita, var gengið svo frá lögunum um almennu dýrtíðarhjálpina, að þau eru einkis virði, ef ekki verri en ekkert. Jeg fyrir mitt leyti hefði heldur kosið, að þau hefðu aldrei verið samin.

En nú ætti það, sem till. fer fram á, að gera landsversluninni það mögulegt að leggja minna á nauðsynjavörur þær, sem fátæklingarnir geta ekki án verið.

Því hefur verið haldið fram, að landsverslunin hafi lagt óþarflega mikið á vörur sínar, þar sem hún hafi grætt 800.000 kr. síðastliðið ár. Jeg lít nú samt svo á, að gróðinn hafi alls ekki mátt minni vera.

En með því að taka að sjer sölu á þurftarvörum getur landsverslunin tekið þennan gróða af þeim vörutegundum, sem fátæklingar þarfnast síður, og þá um leið lækkað álagið á nauðsynjavörunum og grætt nokkuð samt.

Þá má benda á það, að með þessu móti verður eftirlitið með vöruverði miklu ljettara, því þótt sett hafi verið lög um takmarkað álag, þá býst jeg við, að eftirlitið verði mjög erfitt.

En sje verslunin í höndum þeirra, sem sjá eiga um eftirlitið, þá eiga þeir auðvitað miklu hægra með að setja sig inn í viðskiftin erlendis. Enda hefir vel fróður maður í þeim sökum sagt mjer, að ómögulegt sje að fylgjast með markaðsverði, nema maður versli sjálfur. Það er því enginn vafi, að eftirlitið mundi verða miklu ljettara með þessu móti.

Mótspyrna sú, sem till. hefir fengið, styrkir mig líka í þeirri skoðun. Það er bersýnilegt, að menn hafa geig, og hann ekki alllítinn, af eftirlitinu, og það er eðlilegt, því hjer er um eftirlit í framkvæmdinni að ræða.

Það hefir verið hrópað út um land, að hjer ætti að koma á einokun á þessum vörum. Það hefir mjer aldrei dottið í hug og ekki heldur neinum flm. Slíku er heldur ekki hægt að koma á með þingsályktun. Til þess hefði þurft lög.

Við höfum lög, sem taka fram skilyrðin fyrir því, að einokun verði komið á. Í lögum nr. 5, 1. febr. 1917, í 4. lið 2. gr., stendur svo hljóðandi ákvæði: „Landsstjórninni heimilast, ef þörf gerist ....“ „Loks að taka í sínar hendur alla verslun á útlendum vörutegundum eða innlendum, ef þörf gerist.“

En það er einmitt hvergi nefnt á nafn í till., að landsverslunin eigi að taka að sjer alla verslun á neinni vörutegund.

En orðin „ef þörf gerist“ þýða það, að landsverslunin getur þá fyrst tekið að sjer alla verslun á vörum, þegar hún fæst ekki, eða sama sem ekki, með öðru móti.

Þannig hafa lögin líka verið framkvæmd. Má þar benda á einkasölu landsstjórnarinnar á korni, kolum, steinolíu og salti o. s. frv.

En hins ber líka að gæta, að orðin „ef þörf gerist“ eru svo rík, að stjórnina ber skylda til að láta þetta ekki undir höfuð leggjast, og sú skylda er svo alvarleg, að sú stjórn, sem ekki fullnægir henni, hún á sjer engan tilverurjett.

Það hefir verið talað um, að tóbak mundi vera góð verslunarvara fyrir landsverslunina, og einstöku þm. hafa talað um, að rjett mundi að veita stjórninni lagaheimild fyrir einokun á tóbaki.

En það komst aldrei nema til orða, sökum þess, að þeir menn höfðu ekki næga verslunarþekkingu til að dæma um, hvort skilyrði væru fyrir hendi til þess, því þau eru mörg, þótt auðvelt sýnist að versla með slíka vöru.

Jeg hefi heyrt, að menn hafa hneykslast stórum á orðunum: „Alþingi skorar á stjórnina að taka í sínar hendur ....“ En þessi orð eru tekin upp úr lögunum frá 1. febr. 1907, sem jeg hefi áður minst á, að eins er slept orðinu: „allri“, svo að hjer er ekki eins langt farið. Í till. er talað um, að stjórnin taki að sjer heildsölu á almennum þurftarvörum, og í greinargerðinni er enn þá linara að orði komist. Þar er talað um, að stjórnin taki einnig að sjer innkaup á vörum o. s. frv.

Þetta sýnir ljóslega, að hjer er ekki um neina einokun að ræða. Og jeg er sannfærður um, að engum óvitlausum lögfræðingi getur komið til hugar að skilja það svo.

Með öðrum orðum, mótstaðan úti um land, er bygð á helberum misskilningi. Hún er blátt áfram sjóðandi vitleysa!

Orðin „að taka í sínar hendur“ eru hins vegar með vilja viðhöfð, til þess að stjórnin geti ekki tekið það svo, sem verið sje að draga úr henni að taka til einokunar, ef þörf gerist. — Annars þýðir orðatiltækið „að taka í sínar hendur“ ekki annað en byrja.

Og einmitt þess vegna er þingsál.till. komin fram.

Hjer mótar fyrir alveg nýrri stefnu, og jeg áleit sjálfsagt, að stjórnin fengi að vita vilja þingsins um hana.

Eins og allir vita, hefir mótstaðan gegn landsversluninni verið mikil; hún hefir verið talin goðgá, og yfirleitt hafa kaupmenn, einkum þeir stærri, hatað hana og hata enn þann dag í dag. Og þessi mótstaða hefir orðið til stórtjóns fyrir land og lýð. Af sömu rótum er allur sá ofsi runninn, sem nú er hlaupinn í kaupmenn út af till. þessari. Heildsalarnir eiga hjer að missa spón úr askinum sínum, og ærast við. Það er ekki svo að skilja, að heildsalarnir eigi hjer allir óskilið mál; sumir þeirra eru ágætismenn, og meðal þeirra á jeg vini, sem mjer eru kærir og jeg ber fylstu virðingu fyrir. Enda sagði einn þeirra við mig fyrir skömmu, er till. þessi barst í tal milli okkar: „Þetta átti að vera gert fyrir löngu!“ En því miður eru fæstir svona hreinskilnir.

Mjer þykir leitt að þurfa að stiga á nokkurs manns tá, og vildi gjarnan, að hægt væri að komast hjá því, en því miður er það ekki hægt. En huggunin er sú, að heildsalarnir eru orðnir allbólgnir af stríðsgróðanum. Þess vegna læt jeg það líka ekki á mig fá, þó að þeir missi einhvers í. Vjer hljótum alt af að taka landsins gagn fram yfir nauðsyn fárra manna.

Loks skal jeg víkja fám orðum að áskorunum kaupmanna úti um land. Vitaskuld eru þær áskoranir út í loftið, því kaupmenn úti um land gátu ekkert vitað um tilganginn með tillögunni. Enginn einasti heildsali hefir látið svo lítið að tala við mig um málið, heldur hefir verið gasprað um það á kaupmannafundum hjer í bænum, og þaðan munu svo frjettirnar hafa borist út um landið. Má geta nærri, hve nærri því rjetta þær hafa verið, eins og líka áskoranirnar bera með sjer. Sannleikurinn er sá, að þessi tillaga er kaupmönnum úti um land til stórkostlegs hagnaðar. Með henni er girt fyrir óforsvaranlega álagningu á vöruna og um leið trygt, að vörur dreifist víðar og berist fljótar til kaupmanna en áður, og milliliðalaust. Mjer er ekki ókunnugt um, að heildsalarnir vilja nú helst kúga bæði þing og stjórn og hafa gert tilraunir til að fá þingmenn til að bregðast skyldum sínum gegn landinu, sakir hagsmuna einstakra manna. (Forseti: Þessi ummæli eru vítaverð). Hvort sú tilraun tekst á eftir að sýna sig, en jeg hefi fylstu von um, að hún takist aldrei, — hvorki fyr nje síðar.