15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (1985)

115. mál, heildsala

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vil taka það fram, sem að vísu þarf ekki að skýra, að nú þegar sjeu í gildi lög, og að enn fremur sjeu lög í vændum, sem fela í sjer fulla heimild fyrir landsstjórnina til þess að framkvæma það, sem í tillögunni stendur og reynslan bendir til, að nauðsynlegt verði, eftir því sem tímarnir líða og aðstaðan breytist við útlönd, bæði með að fá vörur og flytja þær til landsins.

Það er nú nærri ár síðan það kom til tals (að vísu ekki beint í þingsölunum, heldur utan þings), að landsverslunin tæki að sjer einkasölu á ýmsum matvörutegundum. Það var þá ekki undinn neinn bráður bugur að þessu, enda var þá ekki það, sem við gátum fengið af matvörum, svo skorðað sem nú, og svo var þá eigi sjeð, að landsverslunin hefði næga peninga til þess að taka upp svo stórfeld kaup. Nú hafa atvikin sjálf fært að því, að horfið var að þessu ráði, og sjerstaklega var undinn bráður bugur að þessu, er mönnum urðu kunnir samningamir við bandamenn. Þetta fjekk framgang, þegar nauðsynin lá svo að segja hverjum manni í augum uppi, og hefi jeg ekki orðið var við neina verulega óánægju út af þessum ráðstöfunum. Jeg hefi því hugsað mjer, að svona muni fara framvegis, er veruleg nauðsyn er fyrir hendi, og þá mun það ganga fram, sem ætlast er til með tillögunni, mótspyrnu- og hljóðalaust.

Það er að vísu annað, sem vakað hefir fyrir hv. flm. þessarar tillögu (M. T.), t. d. að úthlutunin á þessum vörum yrði látin koma sem jafnast niður á hin ýmsu hjeruð landsins, og svo annað það, að hafður yrði einhver hemill á verðinu. Nú er það kunnugt, að skipuð hefir verið svokölluð „innflutningsnefnd“, og er þetta tvent sjerstaklega verkefni þeirrar nefndar. Hún hefir nú þegar safnað að sjer skýrslum um það, sem flutt hefir verið inn af öllum þeim vörutegundum, sem nefndar eru í samningnum við bandamenn, og þó hún geti ekki enn sagt um það með vissu, hversu mikið er til af hverri sjerstakri vörutegund, þá mun þó vera óhætt að fela henni, í samráði við stjórnina, að hafa hemil á þessu og komast að fullkominni raun um vörubirgðirnar.

Það er nokkuð síðan þessi tillaga, sem hjer liggur fyrir, var lögð fram, og eðlilega hefir stjórnin athugað hana og óskað eftir yfirlýsingu frá forstjórum landsverslunarinnar um hana. Jeg hefi því miður ekki skriflega yfirlýsingu frá þeim við höndina, en jeg hygg, ef hv. þm. Ak. (M. K.) væri hjer viðstaddur, þá mundi hann votta, að jeg færi rjett með, er jeg segi, að allir forstjórarnir voru því mótfallnir, að svona löguð till. yrði samþ. af þinginu. Og jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að jeg sje ekki brýna þörf á, að svo feld áskorun verði samþ., því það er lakara að þurfa að ganga á bug við áskorun frá sameinuðu þingi heldur en ósk, er kæmi fram frá annari hvorri deildinni, svo að jeg verð að álíta, að ef þessi áskorun verður samþ. hjer, þá bindi hún um of hendurnar bæði á landsstjórn og landsverslun. Þar að auki er hægt að ná þessu takmarki eftir þeim lögum, sem í gildi eru, og ef nauðsyn er brýn fyrir hendi. Einn háttv. þingm. sagði, að þetta ætti að vera brýning til stjórnarinnar, og það er aldrei nema gott að brýna landsstjórnina. En mjer finst, að þessar umræður, og þá ekki síður ef rökstudda dagskráin verður samþykt, sje nægileg brýning. Hjer er einnig á eitt að líta, og það er, hvernig þetta horfir við einni fjölmennri stjett landsins — verslunarstjettinni. Eins og stendur, er útlit fyrir, að þeirri stjett þyki ekki þörf á meiri einkasölu en þegar á sjer stað. En jeg vil og verð að búast við því, að ef tíminn leiðir í ljós, að þörf er á að taka einkasölu á fleiri vörutegundum en þegar er gert, þá muni þessi stjett ekki rísa öndverð gegn því eða vera því mótfallin.

Jeg hefi heyrt það nokkrum sinnum, að stjórnin hafi verið kaupmönnum andvíg frá öndverðu, en jeg hefi aldrei heyrt, að færðar hafi verið nokkrar sönnur á slíkar staðhæfingar. Þvert á móti hefir stjórnin reynt að koma svo fram við kaupmenn, að með meiri sanni mætti segja, að hún hafi ekki viljað brjóta í bág við hagsmuni og óskir kaupmanna. Því að í raun og veru hefir verið mikil samvinna milli verslunarstjettarinnar og landsstjórnarinnar, og jeg tel það nauðsynlegt, að sú samvinna haldist áfram. Fyrir mjer hefir það vakað, að þó landsstjórnin eða landsverslunin neyddist til þess að taka einkasölu á fleiri vörutegundum, þá verði það ekki til þess að útiloka verslunarstjettina, því að jeg býst við, að hún mundi eftir sem áður taka á móti vörunni í geymsluhús sín, og noti sína starfsmenn við afhendingu og sölu vörunnar, gegn því, að fá nægilega þóknun fyrir unnið verk. Með því móti, og svo með því, að verslunarstjettin hafi sumar vörurnar frjálsar, þá er ekki verið að kippa fótunum undan þeirri stjett, heldur er miklu fremur verið að aðstoða hana, að svo miklu leyti, sem það brýtur ekki í bág við almenningsheill og þörf.

Jeg þykist ekki þurfa að færa frekari rök fyrir máli mínu, en vil að eins að endingu lýsa yfir því, fyrir landsstjórnarinnar hönd, og sem starfandi maður í atvinnumálaráðuneytinu, að jeg sje ekki brýna þörf fyrir þessari áskorun nú, en ef þörf krefur, mun henni verða gaumur gefinn.