15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

115. mál, heildsala

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er aðallega formhlið málsins, sem jeg vil vekja athygli á. Ef þessi áskorun ætti að þýða það, sem beinast liggur við að ætla eftir orðunum, þá virðist mjer tæplega rjett að láta hana fyrst koma fram í sameinuðu þingi. Það hefði verið miklu rjettara, að till. hefði fyrst komið fram í annari hvorri deildinni, og að hún hefði þar verið athuguð í nefnd. Þetta er svo þýðingarmikið mál, að ástæða hefði verið til að athuga það gaumgæfilega, í nefnd, en það er ekki hægt að gera, úr því tillagan kom fram í sameinuðu þingi.

Svo er enn annað, sem sýnist athugavert, og það er hvernig þessi áskorun er fram borin, að hún er fram borin í tillöguformi. Það þarf ekki að benda hv. flm. á, að það er ómögulegt að fara fram á það við stjórnina, að hún fari fram yfir þá heimild, sem gefin er í lögunum um þetta efni, en í þeim stendur, að það, sem meðal annars er farið fram á í tillögunni, skuli að eins gert ef brýn þörf krefur og „ef á þarf að halda“. En ef tillöguna ætti að skilja eftir orðunum, þá ætti að gera það án þess, að þessi skilyrði sjeu fyrir hendi. Þrátt fyrir það, þó að þessi tillaga yrði samþykt, stæði samt ákvæðið í lögunum, því það er ekki hægt að breyta lögum með þingsályktun.

Mjer heyrðist á ræðu hv. aðalflm. (M. T.), að það væri ekki beint tilætlunin að skipa stjórninni að taka einkasölu á þessum vörutegundum, en þá veit jeg ekki, hvaða þýðingu tillagan hefir. Það gæti verið hugsanlegt, að aðalflm. (M. T.) hafi viljað með tillögunni samþyktri svo sem ákveða það, að þörfin væri fyrir hendi. En það er þýðingarlaust, því stjórnin yrði þrátt fyrir það á eigin ábyrgð að skera úr því, hvort þörfin er fyrir hendi, í skilningi laganna. Hvernig sem á tillöguna er litið, þá er hún gersamlega þýðingarlaus. Lögin eru fyrir hendi, þeim verður að fylgja, og þrátt fyrir tillöguna má stjórnin ekki taka verslunina í sínar hendur, nema þörfin sje fyrir dyrum. þess vegna getur stjórnin ekki stuðst við neitt annað en lögin, sem til eru um þetta efni.