15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (1994)

115. mál, heildsala

Sveinn Ólafsson:

Líklega er ekki þörf á því að lengja umræðurnar nje tala frekar um málið en orðið er, en vegna þess, að jeg er einn af flm. till., þá vil jeg athuga ofurlítið sumt af mótmælum þeim, sem hafa komið fram.

Sumt af því, sem fram hefir komið í umræðunum, eru hnjaskyrði, sem ekkert erindi eiga inníumræðurnar, annað en fjarlægja hugann efninu. Svo var það um lestur hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um landsverslunina. Þessu öllu er óþarft að svara, og mörgu af því, sem fram hefir komið gegn till., hefir hv. þm. Ísaf. (M. T.) o. fl. svarað, svo óþarft er að taka það upp af nýju.

Eitt atriði var þó í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem hann lagði áherslu á og jeg get ekki stilt mig um að mótmæla. Það voru ummæli hans um, að till. væri borin fram í hugsunarleysi, án þarfa og að ástæðulausu. Ef til vill sjer hann hjer öðrum betur, en efast verð jeg um, að hann hafi hugsað þetta mál eða grenslast eftir hvötum flutningsmanna.

Ástæðurnar eru margar og mismunandi hjá hinum ýmsu þm., en hv. þm. er kunnugt, hvernig öllum viðskiftum hefir hagað kringum land síðustu árin. Nær daglega berast hingað skeyti í hópatali um að útvega ýmsar vörur, og á stórum svæðum í landinu eru margar vörur með öllu ófáanlegar. En þar sem þær svo loks fást, eru þær seldar feiknarverði. Vjer vitum, að gangráður eða „regulator“ viðskiftanna, samkepnin, starfar eigi sem áður í viðskiftalífinu.

Samkepni öll má heita þrotin, og með því móti verða viðskiftin ófrjáls, einokuð af þeim fáu, sem þessa eða hina vörutegund hafa. Ástandið er í sumum efnum engu betra en á dögum hinnar illræmdu ríkiseinokunar Dana á 17. og 18. öld.

Nefna má hjer til dæmis munntóbak. Jeg veit ekki með vissu hvað það kostar nú í innkaupi, en það mun þó ekki vera orðið svo dýrt, að ástæða sje til að selja 1 kíló á 25 krónur, svo sem hjer er nú gert. En eins og það er með þá vöru mun því og farið með fleiri. Það er því ástæðulaust að vera að deila um það, að það sje ekki nauðsyn á þessu, vegna þess, að viðskiftin sjeu og eigi að vera frjáls. Viðskiftin eru ekki frjáls lengur, og þess vegna eiga ekki við kenningar hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um frjálsu viðskiftin. Hjer þarf, eins og með öðrum þjóðum, verðlag að setja af ríkisvaldinu eða viðskiftin að vera í höndum þess. Reynslan hefir margsannað, að einstaklingunum má eigi treysta til þess, þar sem samkepni vantar.

Fleiri hv. þm. hafa blandað saman tveim ólíkum orðum í þessu sambandi. Það eru orðin einkasala og einokun. Að nota þau jöfnum höndum til að tákna sama hugtak er með öllu fráleitt, svo gerólík er þýðing þeirra. En reyndar nefnir till. hvorugt. Þar er að eins talað um heildsölu, og þá auðvitað jafnhliða öðrum heildsöluverslunum.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) gaf það berlega í skyn, að tilgangurinn með þessari till. væri sá, að koma á einokun nú eða framvegis. Þetta er ekki vingjarnleg tilgáta, enda hefir þetta aldrei verið ætlun flutnm. Nær hæfi hefði verið að benda á einkasölu, sem bæði er tíðkuð og viðurkend rjettmæt af stjórnum ríkjanna á þessum tímum; hitt er að villa mönnum sýn, að kalla þetta einokunartill., till., sem einmitt stefnir að því að ljetta af einokun. Við vitum allir, hve orðið „einokun“ lætur illa í eyrum og hversu dómur sögunnar um hana er.

Þótt jeg hafi horfið frá till. í hinni upphaflegu mynd, þá kemur það ekki af því, að jeg telji ekki fulla þörf á henni, en jeg tel að eins megi ná tilganginum með þeirri rökstuddu dagskrá, sem jeg og fleiri hv. þm. hafi borið fram, og að við berum hana fram er af því, að við væntum, að fleiri hv. þm. greiði henni atkvæði en þingsál., af því að búningur hennar er mildari.

Hnjóðs- og köpuryrðum hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hirði jeg ekki að svara. Hann var að tala um bíræfni og miður heiðarlegar hvatir, sem leitt hefði flm. till.; jeg fæst ekki um þessi orð hans og kljáist ekki við hann um þau. Hann vildi sýnilega leggja eitthvað inn fyrir sig hjá kaupmannastjettinni, og má vera, að hann á sínum tíma uppskeri eitthvað hjá henni fyrir hugulsemina. En óþarft var af honum að óvirða tillögumenn í orðum, og ólíklegt er, að kjósendur hans kunni honum þakkir fyrir frammistöðuna. Þeirra er eigi síður þörfin en annara, að tilraunir sjeu gerðar til að draga úr óvitaverði því, sem nú er á ýmsum vörum.

Eina fullyrðing kom hv. 1. þm. G.-K. (B.K.) með, sem jeg get ekki fallist á, en verð að líta svo á, sem óþarft hafi verið að koma fram með. Það var sú fullyrðing hans, að eigi sjeu til menn með nægilega þekkingu til að kaupa þurftarvörur handa landsversluninni, eða að til þess þyrfti heilan her sjerfræðinga. Jeg er viss um, að forstjórar landsverslunarinnar eru færir til þessa verks, og gætu líka fengið nauðsynlega aðstoð til innkaupa, ef þeir teldu þess þörf. En þótt till. væri samþykt, þá bindur hún ekki landsverslunina við einkasölu á þurftarvörum, en ætlar henni að starfa jafnhliða öðrum heildsölum að innflutningi vörunnar og dreifingu hennar um landið. Og þótt heildsala þessi væri eigi í stórum stíl, þá verður hún að álítast álíka nauðsynleg og heildsala landsins á matvöru.

Það er alþekt viðskiftalögmál, að þegar vörutegund er að eins til hjá fáum mönnum eða einum einstökum, þá hækkar hún í verði, og það langt fram úr hófi, oftast. Svo hefir orðið hjer, og munu síðar koma í ljós afleiðingar þeirra ókjaraviðskifta, í hnignun efnalegs sjálfstæðis alþýðu manna.

Þetta segi jeg ekki til ámælis kaupmönnum. þetta gildir á öllum sviðum viðskiftanna og meðan svo stendur á, að hver er sjálfum sjer næstur.

Jeg vænti því, að hv. þm. greiði atkv. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem jeg og fleiri hafa borið fram, því að með henni er tilgangi till. náð. Og þótt framkvæmdir um heildsölu landsverslunarinnar á fleiri vörum en hún hefir nú verði litlar að sinni, þá sýnir dagskrártill. stefnuna og brýnir fyrir stjórninni að hafa nánara eftirlit með útsöluverði á þurftarvöru og dreifingu hennar um landið.