18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg mintist á það hjer, þegar jeg skýrði fjárhag landsins fyrir háttv. deild, að frumvarp um almenna hjálp vegna dýrtíðarinnar væri á leiðinni. Jeg skal nú fara örfáum orðum um framkvæmd málsins nú í dýrtíðinni. En hins vegar vil jeg strax taka það fram, að jeg er reiðubúinn að gefa nefnd þeirri, sem væntanlega fjallar um þetta mál, allar þær upplýsingar, sem jeg get í tje látið, og sumar þeirra eru þannig lagaðar, að það er hægra að veita nefndinni þær. Eins og háttv. deild er kunnugt, var stjórninni heimilað með lögum í fyrsta lagi að veita lán, í öðru lagi að færa niður verð á kolum, og í þriðja lagi var henni heimilað að veita vinnu, þ. e. að láta vinna að ýmsum fyrirtækjum.

Að því er snertir fyrsta atriðið, lánveitinguna, var svo ráð fyrir gert, að veita mætti lán með mjög svo hagkvæmum kjörum sveitar- og bæjarfjelögum. Vil jeg láta þess getið, að mjög mörg sveitarfjelög báðu um þessi lán. Eins og kunnugt er, áttu sveitarfjelögin sjálf að dæma um, hvort um þörf væri að ræða. Þessar lánbeiðnir námu samtals um 2 milj. króna, og jeg er í engum vafa um, að beðið hefði verið um miklu meira, ef stjórnin hefði tekið þessar lánbeiðnir til greina, og fjárhagur landsins mundi nú hallari en hann er, ef stjórnarráðið hefði sjeð sjer fært að veita þessi lán. En það sá stjórnarráðið sjer ekki fært, enda gat landsstjórnin ekki útvegað lán til lengri tíma með góðum kjörum. Það hefði því verið ómögulegt að veita þessi lán til lengri tíma án mikils tjóns fyrir landssjóðinn. Og það hefði jafnvel verið sama, með hve góðum kjörum stjórnin hefði fengið lánið, það hefði altaf orðið mikið tjón fyrir landið. Niðurstaðan varð því sú, að stjórnin sá sjer ekki fært að veita þessi lán; en hins vegar var stjórninni það ljóst, að hún þyrfti að hafa opið auga fyrir því, hvar þörfin væri mest.

Þau bráðabirgðalán, sem stjórnin veitti, voru veitt með 51/2% vöxtum.

Þessi bráðabirgðalán voru veitt:

Reykjavíkurkaupstaður 30.11/ 1917 kr. 100.000,00

Ísafjarðarkaupstaður ’30.1. 1918 — 100.000,00

Vindhælishreppur,Húnavatnssýslu, 20.5. 1918 . — 10.000,00

Reykjavíkurkáupstaður 30.8. 1918 — 50.000,00

Samtals kr. 260.000,00

Enn fremur var heitið þessum lánum:

Grunnavíkurhreppur, Ísafjarðarsýslu kr. 5.000,00

Svalbarðshreppur, Þingeyjarsýsiu — 5.400,00

Stykkishólmur, Snæfellsnessýslu — 10.000,00

Álftavershreppur, Skaftafellssýslu — 5.000,00

Dalahreppur, Barðastr.sýslu — 7.000,00

Tálknafjarðarhr., Barðastrandarsýslu — 4.000,00

Samtals kr. 36.400,00

Skal jeg taka fram, að því er snertir Reykjavíkurbæ, að borgarstjóri skýrði frá, að hann gæti ekki fengið lán í bönkunum, svo að stjórnin sá sjer ekki annað fært en að veita þessi lán. Enn fremur vil jeg geta þess, að lánin voru að eins veitt með því móti, að hlutaðeigandi hreppar eða sveitarfjelög tækju að sjer að ábyrgjast lánin, og var ekkert lán veitt til lengri tíma en eins árs, en sum til styttri tíma, nefnilega til næstkomandi hausts. Jeg held, að jeg þurfi svo ekki að fara fleiri orðum um þessi lán.

Enn fremur þykir mjer rjett að geta þess, að sumstaðar hefir komið fram allmikil. óánægja um úthlutun kola og stjórninni kent um það; sjerstaklega hefir borið á þessu norður á Akureyri. Jeg tek þetta ekki fram vegna þess, að jeg viti ekki, að háttv. deild sje kunnugt um þetta, heldur til þess, að það sjáist í þingtíðindunum. Eins og kunnugt er, var leitað upplýsinga um kolaþörf bæja og sveita, og eftir þeim upplýsingum, sem fram komu, var farið með kolaúthlutunina. Bjargráðanefnd Ed. bað stjórnina um að útvega þessar upplýsingar hjá hlutaðeigandi bæjarfjelögum og sýslunefndum, og veit jeg, að stjórnin hefir farið eftir þeim við útbýtinguna, án þess að gera nokkrar breytingar.

Þá skal jeg víkja nokkuð að þriðja atriðinu, sem jeg mintist á að væri heimild fyrir í þeim lögum, sem nú gilda, þ. e. dýrtíðarhjálp með því að veita vinnu. Stjórnin hafði, í samráði við nefndina, athugað það, í hvaða fyrirtæki heppilegast væri að leggja vinnu, og í samráði við hana var byrjað veita vinnu til undirbúnings væntanlegum landsspítala; skipaði stjórnarráðið nefnd til að athuga málið, og vann hún ókeypis. Í þeirri nefnd voru:

Magnús Sigurðsson, bankastjóri, form,

Guðmundur Magnússon, prófessor,

Guðmundur Hannesson, prófessor,

Guðmundur Björnson, landlæknir,

Geir Zoëga, landsverkfræðingur,

Ingibjörg Bjarnason, skólastýra,

og Jens Eyjólfsson, byggingameistari.

Þessir menn leituðu fyrir sjer, hvar haganlegastur staður væri fyrir væntanlegan landsspítala, og bentu á lóð, sem liggur fyrir austan Kennaraskólann, og var vinnan byrjuð í sambandi við þessa lóð. Vil jeg geta þess, að ekki er enn lokið samningum milli landsstjórnarinnar og bæjarstjórnar Reykjavíkur um þessa lóð, en jeg vona, að það muni ekki standa fyrir, að þessi lóð fáist með sæmilegum kjörum, og þó að svo fari, að ekki komist á samningar um lóðina, þá hefir þó hið höggna grjót fult verð fyrir því. Jeg skal geta þess, að kostnaður við grjóttökuna hefir numið kr. 87.694,80, en til verkfærakaupa og skúrabygginga hefir verið varið 26280 kr., en um verkfærin er það að segja, að þau munu nú vera svo að segja í fullu verði. Auk þess hefir verið unnið að Hafnarfjarðarveginum, og hefir sá kostnaður numið 65.000 kr. En sú vinna hefir bæði verið til góðs fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð. Það verður ekki sagt með vissu, hve mikið tap hefir orðið á þessari vinnu, en hins vegar er því ekki að leyna, að þar, sem unnið hefir verið á mjög óheppilegum tíma, hlýtur tapið að verða nokkuð. Það er álit vegamálastjórans, að tapast muni alt að helmingur upphæðarinnar. Um hið tilhöggna grjótið vil jeg geta þess, að Jón Ísleifsson verkfræðingur telur, að verðmæti þess muni vera 38.000 kr. eða eitthvað nálægt því. Grjótið er vel tilhöggið, og hafa þegar komið fyrirspurnir í stjórnarráðið um það, hvort hægt væri að fá grjótið keypt.

Jeg held, satt að segja, að þótt tapið á þessari vinnu verði milli 70 og 80 þús. kr., þá sje ekki hægt annað að segja en að mikil nauðsyn hafi verið á að veita þessa vinnu.

Um frumvarp það, er hjer liggur fyrir, vil jeg láta þess getið, að stjórnin hefir felt úr því heimild til að veita lán, og enn fremur heimild til að færa niður verð á kolum. Aftur á móti stendur heimild í því til að veita atvinnu áfram. Auk þess er eitt nýmæli í frumvarpinu; þar stendur, að hvert sveitarfjelag megi verja upphæð, er þó ekki nemi meiru en 15 kr. á hvern mann í sveitarfjelaginu, til að afstýra verulegri neyð af dýrtíð og matvælaskorti, og að það eigi rjett til endurkröfu á greiðslu á einum þriðja hluta, úr landssjóði.

Ef nú yrði gengið út frá því, að öll sveitarfjelög notuðu sjer þennan rjett, mundi endurgreiðslan nema sem næst 400.000 kr. Stjórnin leit svo á, að með því að haga hjálpinni á þá leið, að sveitarfjelögin leggi fram 2/3 hluta, væri fengin trygging fyrir því, að ekki mundi beðið um styrk, nema því að eins, að full þörf væri á því.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið við þessa umr., en, eins og jeg tók fram við byrjun ræðu minnar, er jeg fús til að veita væntanlegri nefnd allar upplýsingar, sem jeg get.