16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

37. mál, hækkun á vörutolli

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eftir frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir, að ekki skuli hækka vörutoll nema á tveimur flokkum vörutollslaganna, sem sje 3. flokki og 6. flokki. í 3. flokki eru vefnaðarvörur og fatnaður, en í 6. flokki eru allar vörur, sem ekki eru heimfærðar undir neinn hinna flokkanna. Stjórnin ætlast að eins til, að tollurinn á vörum, sem teljast undir þessa 2 flokka, sje tvöfaldaður, en tollurinn af öllum öðrum vörutegundum látinn halda sjer. Fjárhagsnefnd hefir lagt til, að vörutollurinn verði tvöfaldaður á öllum vörutegundum. Til þessa færir nefndin tvær ástæður. önnur er sú, sem oft hefir verið nefnd hjer í deildinni, að landssjóði er þörf á miklum tekjum. Í öðru lagi telur nefndin verða betra samræmi í vörutollslögunum í heild sinni, ef tollurinn er hækkaður á öllum vörutegundum jafnt. Ef nokkurt vit og samræmi hefir verið í vörutollslögunum í byrjun, þá verður því best haldið með því, að hækka tollinn jafnt á öllum vörutegundum, og með því fást drjúgum mun meiri tekjur í landssjóðinn.

Flokkar þeir, sem hækkunartillögur nefndarinnar ná til, eru: 1. flokkur. Í honum eru kornvörur allar og ýmsar aðrar nauðsynjavörur, eins og t. d. steinolía, sóda og sement. 2. flokkur. Í honum er járn og allskonar járnvörur, ýmiskonar verkfæri o. fl. 4. flokkur, kol og salt, og 5. flokkur, timbur og bátar.

Það kann nú að þykja hart aðgöngu að fara að auka toll á allra nauðsynlegustu vörutegundum, eins og t. d. kornvöru. Jeg skal viðurkenna það, að fljótt á litið virðist það óeðlilegur gjaldstofn. En þegar þess er gætt, að þessi hækkun, sem um er að ræða, er ekki nema 10 aurar á hver 100 pund, þá er það auðsætt, að ekki munar miklu á verðinu, þegar það er orðið eins hátt og það er nú. Ef það er borið saman við tollinn á vefnaðarvörum, þá er það auðsætt, að hann er hlutfallslega miklu hærri en á kornvörum. Svipað er að segja um kol og salt. Það munar ekki mikið um það, þótt verðið á smálestinni verði 1 kr. meira á kolunum, þegar það er orðið á 4. hundrað kr., eða 50 aurum hærra á saltsmálestinni, þegar hún kostar um eða yfir 300 krónur. Timbur eru allar líkur til að lítið verði flutt af, og því hafi hækkun á því lítið að segja. Svo framarlega sem póstgjöld verða ekki hækkuð, er líklegt, að vefnaðarvörur verði mikið sendar í pósti frá útlöndum, því að með því móti fá kaupmenn slíka vöru með minni tolli en frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir. En eftir till. nefndarinnar getur þetta ekki komið fyrir, þar sem allur tollur er tvöfaldaður og þá einnig póstbögglatollurinn. Jeg verð því að telja till. nefndarinnar stórum betri en till. stjórnarinnar, og hinar fyrnefndu till. hafa þann stóra kost, að með þeim fást meiri tekjur, og eftir hinum fram komnu skýrslum um fjárhaginn er síst vanþörf á því.