18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (2034)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Þórarinn Jónsson:

Það er sjálfsagt gott, að þetta mál er fram komið; en það getur samt verið álitamál, hvort, eins og nú stendur á, sje rjett að láta málið ganga fram. Eins og hv. deild er kunnugt, var þetta mál til umr. á síðasta þingi, og var þar vitanlega einnig talað um þetta atriði, launahækkunina, en jafnframt var það álitið nauðsynlegt, að ýmsar breytingar á fræðslulögunum yrðu gerðar samfara því. Mjer virðist þess vegna athugavert að láta málið ganga fram, eins og nú er ástatt. Í fyrsta lagi er alt útlit fyrir, að mörgum skólum verði eigi haldið áfram næsta vetur; í öðru lagi er það, eins og dýrtíðin kreppir að sveitum lands þessa, ekki líklegt, að sveitarsjóðir verði færir um að bæta á sig miklum útgjöldum, og í þriðja lagi er það álitið, að takmörk fræðsluhjeraðanna sjeu ekki haganlega ákveðin, eins og nú stendur. Er því þrent, sem mælir á móti þessu frv. Eftir tillögu fræðslumálastj.að dæma, álítur hann, að heppilegt sje, að hreppar sjeu færðir saman, og getur þetta í sjálfu sjer verið mjög heppilegt, og því verður naumast talið rjett að gera þetta frv. þegar að lögum, án þess að sjeð verði við afleiðingum þess; því það getur hæglega komið fyrir, að kennarar segi starfi sínu lausu, til þess að fá stjórnarráðsveitingu fyrir stöðunni. Og þó það yrði ákveðið við veitinguna, að þeir yrðu að sætta sig við breytingar þær, sem kynnu að verða gerðar á fræðsluhjeruðunum, þá myndu þó ýmsir verða óánægðir. Gæti þannig komið los á kennarana, sem telja verður mjög óheppilegt. Jeg hygg þessvegna, að nauðsynlegt sje að ákveða stærð og takmörkun fræðsluhjeraðanna og aðrar þær breytingar á fræðslulögunum, sem nauðsynlegar þykja, áður en þetta frumvarp er samþykt.