18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (2037)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ljet þess getið áður, að það mætti vel vera, að jeg legði ekki eins mikla áherslu á, að lög sjeu sett um laun barnakennara, eins og hitt, að bót sje ráðin á þeirri „miskunarlausu meðferð“, sem þeir hafa sætt. Hv. þm. Dala. (B. J.) þurfti því ekki nauðsynlega að segja neitt. (B. J.: Mátti jeg ekki vera stjórninni sammála?) Hinn hv. þm. (B. J.) virtist vilja láta það koma fram, að hann væri ekki sammála stjórninni.

Jeg ætla ekki að biðja afsökunar á því, að stjórnin leitaði til fræðslumálastjórans, því að það er beinlínis lögmælt, að hann skuli vera ráðunautur stjórnarinnar um fræðslumál. Það var því eðlilegt, að stjórnin leitaði til þess manns, sem hún á að leita til um slík mál. Jeg held því, að það sje af ókunnugleika, að hv. þm. Dala. (B. J.) furðar sig á þessu.

En um rannsóknina er það að segja, að henni er að vísu ekki lokið, en eftir svörum þeim að dæma, sem borist hafa fræðslumálastjóra frá þeim, sem fræðslu hafa með höndum, og eru henni kunnugastir úti um land, virðast varla líkur til, að breyting á skólaskyldunni fái alment fylgi.