18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (2038)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Bjarni Jónsson:

Jeg ætlaði að svara því, að þá væri gamla kerfið búið að heimska Íslendinga sjer í hag, ef almenningur er mótfallinn endurbótum á gömlu sleifarlagi. Þykir mjer þá skörin tekin að færast upp í bekkkinn.

Jeg furðaði mig ekki á því af ókunnugleika, að stjórnin leitaði til fræðslumálastjóra. Það sjest best á bæklingi hans, sem fylgir lagafrv., og ekki kemur þessum lögum við, frekar en öðrum lögum, er um fræðslumál fjalla. Þar er verið að segja frá ýmsu í Bandaríkjunum, sem ekki kemur við launum kennara. Þar er og getið um svör ýmissa manna úti um land, sem kosnir hafa verið í fræðslunefndir, og er það nefnt þjóðaratkvæði. En hræddur er jeg um, að utan þessarar „þjóðar“ sjeu einhverjir til, sem vilja ráða og þykjast hafa eins mikið vit á þessum efnum. Jeg hefi getið þessa vegna þess, að jeg furðaði mig á þessu langa skjali frá einum manni. Jeg hafði vænst þess, að stjórnin rannsakaði málið sjálf. En stjórnin fer öðruvísi að. Jeg þekki ekki þá venju, að maður, sem rannsakast á, rannsaki sig sjálfur. Og það á þá ekki frekar við um þennan mann, að hann rannsaki þetta fræðslulagakerfi, sem er hans eigið fóstur og hluti af honum sjálfum. Í þessari deild munu þeir margir, sem ákveðið hafa að láta ekki lengur drepa gáfur Íslendinga með heimskulegu fræðslukerfi, heldur fá endurbætur á því.

Jeg vildi nú gera þá fyrirspurn til hæstv. mentamálaráðh. Íslands, hvort hann ætli ekki að rannsaka þetta mál meira en orðið er og með öðrum hætti.