18.04.1918
Neðri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (2042)

6. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Sigurður Stefánsson:

Jeg verð að líta svo á, að hæstv. stjórn hafi í þessu máli orðið á rjettan hátt við tilmælum Alþingis í fyrra. Það sjest þegar litið er á niðurlagsatriði þingsályktunarinnar. Þar kemur það ljóslega fram, að það, sem þinginu þykir mest liggja á, er það, að kennurunum sje einhver linkind sýnd, þeim á einhvern hátt hjálpað til að standast í baráttunni fyrir lífinu. En nú verð jeg að taka undir það með hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), að það er mikið álitamál, hvort þingið á nú að ráða þessu máli til fullkominna lykta með lögum.

Eins og hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) tók fram, stendur þetta launamál í mjög nánu sambandi við skipun á takmörkun fræðsluhjeraða. Virðist það því hjer rifið út úr rjettu sambandi við fræðslumálin. Ef þau verða svo tekin fyrir síðar til rannsóknar, og ef til vill gerðar miklar breytingar, þá getur svo farið, að þessi skipun á kjörum kennara, sem frv. gerir ráð fyrir, verði ekki í rjettu samræmi við önnur mál í kenslukerfinu. Hjer virðist því byrjað á öfugum enda.

En hjer hefir ekki verið tekið fram aðalatriðið, að eins og nú horfir við um fjárhagsástand þjóðarinnar, virðist alls ekki gerlegt að samþykkja lög, sem hafa í för með sjer ærið mikinn kostnaðarauka fyrir landssjóð. Og því um síður er rjettur tími til slíks nú, sem engar horfur eru á, að ástandið batni fyrst um sinn, heldur miklu fremur hið gagnstæða. Oss er það öllum kunnugt, að þingið í fyrra sá sjer ekki fært að halda uppi ýmsum kenslustofnunum, sem landið á að kosta, sökum dýrtíðar. Sömuleiðis er það kunnugt, að hjeraðsstjórnir víðs vegar um land hafa ekki haldið uppi kenslu í skólum sínum af sömu ástæðum. Og sem stendur eru miklar líkur til þess, að enn fleiri skólum og kenslustofnunum verði að loka næstkomandi vetur, sakir dýrtíðar og kolaskorts. Þegar nú svona er ástatt, finst mjer varhugavert fyrir þingið að semja lagabálk um laun kennara, sem það ef til vill sjer sjer ekki fært að nota í næstu framtíð, vegna vaxandi vandræða í landinu. Auk þess myndi það auðvitað valda óánægju úti um landið og í þessu árferði gera landsmönnum örðugra að halda uppi kenslu.

Enn má taka það fram, að þótt þingið í fyrra hafi ef til vill kveðið fullhart að, er það taldi kennara sæta miskunnarlausri meðferð, þá er nú ekki víst, nema enn stærri flokkur í landinu en kennarastjettin verði að sæta miskunnarlausri meðferð, af völdum ranglætis tímanna, og eiga að búa við enn aumari kjör, en kennarar hafa þó búið við fram á síðustu tíma. Því miður er fult útlit fyrir það sem stendur, og að því leyti hygg jeg, að þingið geti varið það, þó að það fari ekki þessa leið, sem stjórnin benti á. Fyrir mitt leyti verð jeg því að álíta, að þinginu verði ekki láð, þó að það fari varlega í að samþykkja launalagabálk fyrir kennara, er hefir mikinn aukinn kostnað í för með sjer.

Það er auðvitað, að þegar fjöldi kennaranna er ekki ráðinn nema frá ári til árs, þegar kensluatvinna þeirra bregst, þá er sá einn kostur eftir fyrir þá góðu menn að reyna að vinna fyrir sjer með einhverju öðru móti, og það eiga þeir líka að geta.

Þó að þetta frv. verði aldrei annað en bráðabirgðaákvæði, þá koma þó ákvæði þess talsvert í bág við það ástand, sem nú er í landinu, svo að það verður að álítast mjög athugavert að samþykkja það eins og það er.

Eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fyrir skömmu finst mjer fjárhagsástand landsins svo óttalegt, að jeg álít, að þingið verði að hugsa sig tvisvar um áður en það samþykkir nokkra útgjaldahækkun, en verði beinlínis að leggja áhersluna á það að halda lífinu í þjóðinni; þeim útgjöldum getur þingið ekki frestað, en jeg hygg, að það geti lagt það til með góðri samvisku um þau útgjöld, sem hjer er um að ræða, og ýms önnur.