03.06.1918
Neðri deild: 38. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (2051)

12. mál, tekjuskattur og lóðargjöld í Reykjavík

Frsm. (Einar Arnórsson):

Niðurlagið af þessari löngu ræðu hv. þm. S.-P. (P. J.) virtist vera mjög líkt í hans hugskoti eins og sagt er á öðrum stað: Og hann leit yfir alt, sem hann hafði gert, og sjá. Það var harla gott. En hv. þm. (P. J.) verður að virða til vorkunnar, þótt jeg leyfi mjer að ætla, að einhver missmíði sjeu á þessu verki, eins og flestum öðrum sköpunarverkum.

Hv. þm. (P. J.) byrjaði á nokkrum almennum athugasemdum, og var þá fyrst það, að á undan þessu frv. hefði þurft að ganga alment frv., um skattskyldu til bæjar- og sveitarfjelaga,en hv. þm. (P. J.) játaði það reyndar sjálfur, að það mundi verða óheppilegt fyrir Reykjavíkurbæ að bíða eftir slíkum lögum, og hefir hv. þm. (P. J.) þar rjett fyrir sjer, vegna þess, að slík lög fæðast sennilega aldrei. Það kemur til af því, að mjög misjafnlega er ástatt í Reykjavík og öðrum kaupstöðum landsins og sveitarfjelögum, þar sem t.d. eru 30—10 búendur, sem þekkja vel hver til annars, svo að þörfin í sveitum alment getur varla talist brýn til að gera breytingar á núverandi skipulagi. En í Reykjavík er alt öðru máli að gegna; þar eru allmargir gjaldendur, og það er víst með öllu ókleift fyrir niðurjöfnunarnefndina að jafna niður að eins eftir efnum og ástæðum, svo að í lagi sje; þetta játar líka niðurjöfnunarnefndin sjálf.

Hv. þm. (P. J.) hjelt því fram, að þetta frv. færi að ýmsu leyti í bága við anda eða bókstaf tilsvarandi laga; átti hv. þm. (P. J.) þar við tekjuskattslög nr. 23, 14. des. 1877. Það var sett nefnd hjer á árunum til þess að athuga skattalögin, og var hv. þm. (P. J.) einn í þeirri nefnd, en það fór svo óheppilega á þinginu 1913, að þeim frv., svo góð sem þau voru, var stútað hjer í Nd., ef jeg man rjett, svo að ekki er hægt að byggja á þeim, og það er líklega nokkuð erfitt að finna það skattafyrirkomulag, sem allir verða sammála um í öllum greinum.

Annars er það ekki vel heppilegt að jafna saman þessu tekjuskattsfrv. fyrir Reykjavík og tekjuskattsfrv. fyrir landssjóð. Í fyrsta lagi er það, að gjaldþegnar til landssjóðs eru gjaldskyldir hvar sem þeir eru á landinu, svo að þar þarf ekki að vera að synda á milli skers og báru með að jafna, sem best að hægt er, mismuninn milli einstakra sveitarfjelaga.

Jeg býst nú ekki við, að jeg geti rakið hverja einustu mótbáru í ræðu hv. þm. S.-Þ. (P. J.). (P. J.: Hún var ekki svo löng). Jæja, það var nálega klukkutíma ræða, en mjer þótti ekkert að því að hlusta á hana; þvert á móti.

Viðvíkjandi fjelögunum, sem hv. þm. (P. J.) var að tala um, gerði hann þá athugasemd, að það væri fordæmilegt að hafa stígandi skattstiga í fjelögum. Þá hefði hv. þm. (P. J.) átt, ef hann hefði viljað halda þessu nákvæmlega, að fara lengra í sínum brtt.; þá hefði hann sem sje líka átt að taka 2. lið í 3. gr., því að sá liður nær líka yfir fjelög t. d. ef 3—4 menn setja á stofn eitthvert fyrirtæki, þar sem hver ábyrgist að fullu einhverja atvinnu eða starfsemi, t. d. verslun, þá skilst mjer, að eftir þeirri grein megi leggja á þá verslun. En það er ekkert athugavert við það, vegna þess, að verslunin tapar ekki á því, því að þegar mennirnir vita, að á að leggja útsvar á þá, taka þeir það til greina við verðið, sem þeir setja á vöru sína. En um þá athugasemd, að gjaldstiginn væri hækkandi á fjelögum, er það að segja, að sú mótbára myndi líta tiltölulega vel út fyrst í stað, en þegar nánar er athugað, þá er ekki farið öðruvísi með þessi fjelög en hvern einstakan mann; jeg get nefnt eins gott dæmi því til sönnunar eins og hv. þm. S.-P. (P. J.). Setjum svo, að jeg leggi 100.000 kr. í eitthvert fyrirtæki, og hafi 10% í hreinan arð; það verða 10.000 kr., og svo borga jeg skatt af 10.000 kr. Nú leggur hv. þm. S.-P. (P. J.) kann ske ekki nema 50.000 kr. í annað fyrirtæki, en fær 20% í hreinan arð og borgar líka skatt af 10.000 krónum; það verður sama útkoman, en hans fyrirtæki gengur betur, og því borgar hann tiltölulega hærri skatt. Jeg er með þessu að sýna fram á, að ef hv. þm. (P. J.) vill vera fullkomlega rjettlátur og sjálfum sjer samkvæmur, þá verður að miða við hver stofninn er, sem fram er lagður; því verður nokkurn veginn sama, hvort það eru persónulegar tekjur eða ópersónulegar, ef nota má það orðalag. En eftir þessu dæmi ætti jeg, samkv. skoðun hv. þm. S.-P. (P. J.), að borga lægri skatt, vegna þess að mitt fyrirtæki hefir ekki gengið eins vel. — Jeg veit annars ekki, hvort jeg á að fara lengra út í þetta atriði, en það er í rauninni einsætt, að menn ættu að fara sömu leið í báðum tilfellunum, en það er sennilega ekki gerlegt fyrir framkvæmd þessara laga.

Hv. þm. (P. J.) benti á Danmörku í þessu efni; og má vera, að það sje rjett, sem hann segir um það land, en um Noreg er það ekki alls kostar rjett, því að þar veit jeg ekki betur en að í þeim bæja- og sveitaskattalögum, sem jeg hefi haft fyrir mjer, sje lík stefna og í þessu frv., að lagt sje á fjelög eins og einstaklinga, og eftir sömu reglum.

Hv. þm. (P. J.) sagði, að löggjafarvaldið mætti ekki leyfa sveitarfjelögum að fara lengra eða dýpra í vasa manna en það leyfði landssjóði að gera; með öðrum orðum, sveitarfjelögin ættu að hafa líkar reglur fyrir sjer og landssjóður. Jeg held, að þessu megi svara með því, að landssjóður sje engin fyrirmynd í þessu efni, eftir því, sem var að gerast á síðasta þingi og þessu þingi, en miðað við tekjuskattslögin frá 1877 þá gæti þetta sjálfsagt litið nógu laglega út.

Hv. þm. (P. J.) sagði, að hann hefði líka átt við nýjustu skattalögin; þá verð jeg að segja, að bæjarstjórn Reykjavíkur er ekki ámælisverð fyrir sitt frv., og nefndin ekki heldur, því að hún leggur einmitt til, að skattskyldan sje miklu vægari en til landssjóðs, eftir nýjustu lögum frá 1917. Landssjóður tekur 20% af 99.000, en nefndin vill ekki taka meira en 14%.

Í sambandi við þetta vil jeg leyfa mjer að minna hv. þm. (P. J.) á það, að bæði hann og aðrir þeir mörgu ágætismenn, sem setið hafa á Alþingi, bæði á undan og eftir, hafa ekki sjeð sjer fært, að fylgja fram þessu „principi“, sem hann talar um, því að alla leið frá því, að þetta fyrirkomulag komst á, hefir löggjafarvaldið gefið bæjar- og sveitarstjórnum stórum meira vald til að leggja á sína gjaldþegna en landssjóður hefir til að leggja á sína, því að eftir sveitarstjórnarlögunum, eins og þau voru samþykt síðast, — og meðal annara af hv. þm. S.-Þ. (P. J.),er sveitar-og bæjarstjórnum gefin svo að segja ótakmörkuð heimild til að fara í vasa þegna sinna, niðurjöfnun er gerð eftir efnum og ástæðum, það er að eins sanngirni á annan veginn, en nauðsyn á hinn veginn, því að sveitarstjórnir hafa sem sagt ótakmarkað vald í þessu efni. Þessi athugasemd, svo vel sem hún er meint hjá hv. þm. S.-P. (P. J.), kemur nokkuð seint; það hefði verið mjög æskilegt, að hann hefði athugað þetta fyr, ef hann hefði treyst sjer til að koma því í framkvæmd, meðal annars þegar sveitarstjórnarlögin frá 1915 voru sett. Skattaútreikning hv. þm. S.-P. (P. J.) get jeg ekki vel sagt um, því að ómögulegt er að hafa svar á reiðum höndum við öllum töludæmum, sem tekin eru, en þessa 21%, sem hann fjekk út, veit jeg ekki hvernig á að skilja, því að hámarksprósenta nefndarinnar er 15%. Ef á að hækka eða lækka færitöluna, þá má nokkuð gera það eftir eigin vild, en ef fara verður upp úr 1,40 eða niður fyrir 0,60, þarf samþykki stjórnarráðsins til þess; þar er ákveðinn hundraðshluti, sem má hækka hana um án heimildar stjórnarráðsins. Þetta verkar að þessu leyti til ekki ólíkt og nú er, því að ef bæjar- og sveitarstjórnir vilja hækka aukaútsvar frá því, sem meðaltalið hefir verið síðustu árin, þarf samþykki stjórnarráðsins til, en það er að eins sá munur, að hækkunin verður í ákveðnu hlutfalli hjer á öllum, en þegar niðurjöfnun er gerð, getur maður aldrei vitað, hvað á mann er lagt. Það dugir ekki fyrir hv. þm. S.-P. (P. J.) í þessu tilfellí að vinna með færitölu, því að þá er maður nokkuð í lausu lofti, því að hún getur bæði hækkað og lækkað skattinn.

Þá ætla jeg að líta á brtt. hv. þm. S.-P. (P. J.). Það er þá 1. brtt., við 3. gr., a-liður. Jeg býst nú við því, að það muni láta nærri um þá brtt., að hún geri hvorki til nje frá, sje þess vegna ekki efnisbreyting, heldur orðabreyting; en það, sem vakað hefir fyrir bæjarstjórninni, hygg jeg að hafi verið það, að til gætu verið þau fjelög og stofnanir, sem ekki kæmust undir 3. liðinn í greininni, og verði þess vegna að falla undir 2. tölulið, og svo sjeu menn eða stofnanir, sem eigi í annari stofnun, en það sjeu þeir menn, sem skattinn eigi að leggja á, og eigi þetta einmitt við hlutdeild í slíkri stofnun. T. d. ef kaupmaður, búsettur hjer í Reykjavík, fær annan mann til að skjóta inn fje í verslun sína, þá getur verslunin gengið undir eins manns nafni, en þeir ábyrgjast báðir fullkomlega. Það mun vera líkt um 3. töluliðinn, að brtt. við hann, b-liðurinn í brtt., skifti ekki miklu máli, því að efni til falla að eins í burtu þessar setningar: …. „og það eins þótt afrakstur sá, sem verða kann af starfseminni, sje eigi allur eða að hluta talinn fjelaginu sem slíku til tekna, samkvæmt fyrirkomulagi því, sem er á starfsemi þess og reikningsfærslu“.... Mjer skilst, að það, sem falli burt að efni til, út af fyrir sig skifti varla miklu máli, en það eru aðrar brtt., sem saman borið við þetta myndu vera miklu óaðgengilegri frá mínu sjónarmiði ætla jeg þá fyrst að víkja að 2. brtt., við 7. gr., c-liðinn, að sá liður því nær falli burtu. Mjer er í rauninni ekki ljóst, hvers vegna hv. þm. S.-P. (P. J.) vill láta þennan lið falla í burtu, úr því að hann hefir ekki gengið svo langt í brtt. sínum við 3. lið 3. greinar, að þau fjelög, sem þar eru nefnd, falli í burtu. Þar segir: Enn fremur framleiðslufjelög, samvinnufjelög, pöntunarfjelög og önnur slík fjelög, með heimilisfang í bænum, sem hafa þann tilgang, að starfa til efnahagsmuna fyrir fjelagana ....“. Þessi fjelög álítur hv. þm. (P. J.) að ekki eigi að mæla að öllu leyti undan sköttum, en úr því svo er, skil jeg ekki, hvers vegna hv. þm. (P. J.) vill 6. málsgr. í burtu, því að ákvæði hennar eru til þess að vernda slík fjelög dálítið frá fullkominni handahófsáleggingu, þar sem þau eru skattskyld; því finst mjer, að nær hefði verið að láta hana standa, en t. d. koma með brtt. um hundraðshlutann, 10%, síðast í málsgreininni, og ætlar nefndin að athuga, hvort ekki sje rjett að fella það ákvæði í burtu. En þegar maður lítur á aðrar brtt. hv. þm. (P. J.), þá fer maður að skilja betur í því, að hann vill láta þetta hverfa; það er brtt. á þingskj. 277, að c-liðurinn orðist þannig: „Um þau fjelög, sem heima eiga í bænum og nefnd eru í 3. gr. 3. lið, ber að draga frá tekjunum þá upphæð, sem greidd er í arð, af hlutdeildum fjelagsmanna“. Þessi breytingartillaga hefir það að geyma, að öll þau fjelög, sem eiga heima í bænum og nefnd eru í 3. gr. 3. lið, mega láta draga frá tekjunum þá upphæð, sem greidd er í arð til fjelagsmanna; það verða þá öll hlutafjelög, („aktíu“fjelög) og önnur fjelög með takmarkaðri ábyrgð; öll þessi fjelög eiga þá að eins að greiða skatt eftir till. af þeim tekjum, sem eftir verða þegar þau eru búin að greiða arðinn til fjelagsmanna. Þá er að líta á það, hver afleiðing af þessu yrði. Hún yrði sú, að svo gæti farið, að ekki eitt einasta hlutafjelag í þessum bæ yrði skylt að greiða skatt til hans. Um þessi hlutafjelög getur verið nokkuð misjafnt ástatt, eftir því hvernig þau eru; það mætti segja, að þar sem allir hluthafarnir eru búsettir hjer á landi, eða hjer í bænum, gerði þessi breyting ekkert til, en þessi athugasemd nær þó ekki vel því sanna, vegna þess að það er oft ómögulegt að vita, hverjir eiga hluti í fjelögunum. Eftir okkar lögum er að eins ein tegund hlutafjelaga, þar sem hlutabrjefin verða að hljóða á nafn, en öll önnur fjelög geta gefið út hlutabrjef án þess að þau hljóði á nafn, og þá þarf ekki að eins fjelagsstjórnin ekkert að vita um nöfnin, en hún getur ef til vill blátt áfram ekki gefið neinar upplýsingar, af þeirri ástæðu, að hún veit ekkert um eigendurna. En svo er líka annað atriði, og það getur skift afarmiklu hjer á landi. Það vita allir, að útlendingar eru farnir að reka ýmsa starfsemi viða á landinu, og skal jeg nefna rjett sem dæmi nokkra staði á Norður- og Vesturlandi, í Eyjafjarðarsýslu (Siglufjörð), Strandasýslu og Ísafjarðarsýslu; á þessum stöðum er stórkostlegur síldarútyegur, sem Norðmenn og Svíar standa fyrir; þeir gætu auðvitað komið sínum rekstri fyrir í hlutafjelagsformi; jafnvel einn maður getur stofnað hlutafjelag og átt alla hlutina sjálfur. Sama er að segja um Reykjavík; þar geta verið margir útlendir menn, sem eiga þar eignir. Ef þeir fara svo að mynda hlutafjelag, þá getur bærinn átt á hættu að missa algerlega þennan gjaldstofn.

Það er að vísu satt, að eigi er útilokað, að tvisvar verði lagt á sömu tekjur, ef skattur er lagður á tekjur hlutafjelags. En sjaldan mundi þessu þó vera að heilsa. Í framkvæmdinni er einsætt, að manni væri leyft að draga frá þann hlutann, er hann hefði greitt af á annan hátt, til sama skatteiganda, þar sem maður rekur atvinnu á öðrum stað, en er t. d. búsettur í Reykjavík, eða vice versa, er sanngjarnt, að frá sje dreginn skattur, er hann geldur þar af sömu atvinnu.

Þegar um tekjuskatt til landssjóðs er að ræða, eru ekki miklir erfiðleikar á að koma þessu í verk, því að einu gildir, hvar maðurinn er búsettur. Aftur á móti er þetta erfiðara þegar gjalda skal skattinn til sveitar, því að skattgreiðandi getur verið búsettur utan sveitarinnar, sem skatturinn á að renna til. En vitanlega á sá staður rjett til skattsins, sem hin skattskylda atvinna er rekin á. Það er sanngjarnt, að hann njóti góðs af atvinnurekstrinum. Því að hvers vegna hafði atvinnurekandinn valið þennan stað? Auðvitað af því, að hann áleit hann hentugan til slíks atvinnurekstrar. Og er þá ekki sanngjarnt, að staður þessi njóti góðs af því, að hann er heppilegur til atvinnurekstrarins? Brtt. er því af þessum ástæðum ófær.

En ein breytingin er enn ótalin, sem ríður baggamuninn. Hún er sú, að frá tekjunum beri að draga þá upphæð, sem greidd er í arð, af hlutdeildum fjelagsmanna. Eftir þessu ákvæði þarf ekkert fjelag að vera skattskylt; því að þeim er innan handar að greiða allan arð til hluthafanna. Og þó að fjelagsmenn fái allan arð, geta þeir eftir krókaleiðum myndað varasjóð. Þeim mundi ekki verða skotaskuld að gera allan fjelagsarðinn að eigin arði sínum. Þegar fjelagar hafa fengið allan arðinn, er ekkert eftir til að leggja á. Þeir geta verið útlendingar, sem aldrei hafa verið hjer, eða enginn veit um þá o. s. frv. En ef fjelagsskapurinn stendur sig vel, kemur í sama stað niður, hvort hann hefir varasjóð eða ekki.

*Virðist einhverju slept (?: hjá ræðuritara, Þórb. Þ.), og ekki unt að*leiðrjetta til hlítar. E. A.

Þá kem jeg að 2. brtt., b-lið. Þar er svo ákveðið, að „samkvæmt kröfu skattgreiðanda ber enn fremur að draga frá þann hluta teknanna, sem aflað er í öðru bæjar- eða sveitarfjelagi og hann sannar, að hann greiði af löglegt útsvar þar.“

Jeg skal játa, að bak við þessa brtt. felst töluverð sanngirni. En þegar gætt er að nánar, er hætt við, að Reykjavík mundi bera töluvert skarðan hlut, ef brtt. þessi yrði samþ. óbreytt. Þess ber að gæta, að ef þetta ákvæði næði fram að ganga, mundu gjaldendur reyna að láta líta svo út, að langmestan hluta tekna sinna hefðu þeir aflað annarsstaðar en hjer. Og eins og kunnugt er, hafa bæjar- eða sveitarfjelög misþungar byrðar að bera, og sumstaðar eru útsvör hverfandi lág, í samanburði við það, sem hjer gerist. Er því auðsætt, að þessir menn mundu sleppa miklu betur en aðrir borgarar bæjarins, sem enga atvinnu rækju utan þessa bæjar. En þó tel jeg sanngjarnt, að tekin sjeu til greina útsvör annarsstaðar. Þess vegna datt nefndinni í hug, að þeir reiknuðu aukaútsvör sem rekstrarkostnað af þeirri atvinnu, sem þeir reka annarsstaðar. Enda er ekki neitt hugsunarrangt í því. Því að þeir verða að borga aukaútsvar á þessum stað, fyrir að reka atvinnuna þar, og geta gert ráð fyrir því, er þeir gera áætlun yfir rekstrarkostnaðinn.

Enginn má samt skilja orð mín svo, að jeg telji frv. þetta óaðfinnanlegt, enda hefði nefndin viljað hafa það lengur til íhugunar, en þótti hins vegar rjett að afgreiða það nú og láta það koma til umr. hjer í hv. deild.

Hv. þm. S. P. (P. J.) skýrir ekki alveg rjett frá um skattatill. í bæjum og sveitum í Noregi. (P. J.: Jeg mismælti mig). Þá er best að sleppa því.

Jeg skal enda mál mitt á að geta þess, að þó að nefndin hafi ekki getað fallist á brtt. hv. þm. S. P. (P. J.), eins og þær eru orðaðar, og telji sumar þeirra ótækar, þá er ekki þar með sagt, að hún vilji ekki athuga málið betur, meðal annars, hvort eigi sje ástæða til að færa niður hundraðstöluna í 6. málsgr. 7. gr., og ef til vill fleira, sem varhugavert kynni að vera.