03.06.1918
Neðri deild: 38. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (2053)

12. mál, tekjuskattur og lóðargjöld í Reykjavík

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg ætla að eins að minnast á nokkur aðalatriði í ræðu hv. þm. S.-P. (P. J.).

Hv. þm. (P. J.) viðurkendi, að mikil vandkvæði væru á að undanþiggja arð hluthafa skatti. Hann benti á skattalögin. En þau eru glompótt. Því að þótt svo sje ákveðið í lögunum, að einvörðungu búsettir menn á Íslandi skuli greiða skatt, getur verið erfitt að gera greinarmun á, hverjir eru innlendir og hverjir útlendir hluthafar, og hræddur er jeg um, að skattaráð Reykjavíkur gæti komist í bobba með að skera úr því. En þá er síðasta ástæða mín, að eins og till. hv. þm. S.-P. (P. J.) er orðuð, er einstökum hlutafjelögum innan handar að komast undan skatti. Þau þurfa ekki annað en greiða allan beinan arð til hluthafanna, uns ekki er neitt eftir.

Hv. þm. S.-P. (P. J.) hugsar sjer þann veg, að nafngreindu hluthafarnir einir yrðu undanþegnir, en greiddur skattur af arði af handhafabrjefum. En auðvelt yrði að fara í kringum það. Þá gætu menn látið öll brjefin hljóða á nafn og greitt allan arðinn til hluthafa, svo að þá yrði engin fjelagseign til að leggja skattinn á. Hluthafarnir geta sjálfir verið búsettir utan Reykjavíkur, allir eða nokkrir, og gæti þá svo farið, að Reykjavík hefði ekkert gott af atvinnurekstri þeirra hjer.

Loks vil jeg gera þá athugasemd, að ef sú brtt. verður samþykt, sem hjer er á ferðinni, væri óskandi, að þeir greiddu atkvæði móti henni, sem eigi vilja gera kost Reykjavíkur verri. Því að frá sjónarmiði Reykjavíkur yrði slík samþykt tekjumissir. Nú hefir verið lagt útsvar á ýms hlutafjelög, t. d. fiskiveiðafjelög. En ef brtt. yrði samþ., mundi bærinn missa þennan tekjuskatt að miklum mun, og veit jeg ekki, hvar hann ætti að fá fylt að fullu skarðið, sem með því yrði höggið í tekjur hans.