10.06.1918
Neðri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

12. mál, tekjuskattur og lóðargjöld í Reykjavík

Frsm. (Einar Arnórsson):

Þar sem annar aðili þessa máls, ef svo má nefna, er óánægður með gerðir allsherjarnefndarinnar í málinu og með þær breytingar, sem gerðar voru á frv. við 2. umr. hjer í deildinni, og þó að svo megi virðast, sem ekki sjeu tök á að gera þeim aðilja til hæfis, þá mælist jeg til þess, fyrir hönd nefndarinnar, að málið verði tekið út af dagskrá að þessu sinni, svo að nefndin geti tekið það til nýrrar athugunar. Jeg lofa engu um það, að nýjar aðgerðir nefndarinnar verði til þess, að fleirum verði gert til hæfis en áður. Um það er ekki gott að segja fyrirfram, en nefndin óskar að ráða ráðum sínum á ný.