16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

37. mál, hækkun á vörutolli

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gleymdi að minnast á brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Jeg get algerlega fallist á hana, enda er hún ekki nein efnisbreyting. En jeg get sagt það, að jeg er vanur þeirri málvenju, að hækkun um helming sje sama sem 100%. Á þinginu í fyrra voru líka samþykt lög, þar sem svona var að orði komist, og þetta stóð í stjórnarfrv. En jeg geri það ekki að neinu kappsmáli og skal ánægður greiða brtt. atkvæði mitt.

Hvað því viðvíkur, að hv. þm. Dala. (B. J.) er ekki með brtt. fjárhagsnefndar, þá kemur mjer það ekki á óvart. Það er margkunnugt, að hann fylgir þeirri stefnu, að leggja enga nýja skatta á þjóðina, heldur safna skuldum, meðan dýrtíðin stendur, til þess að niðjarnir borgi þær síðar. Fjárhagsnefndin er hjer á öðru máli. Hún vill reyna að komast hjá því, að arður góðu áranna, þegar þau koma, þurfi að ganga til þess að fylla upp í skörðin frá hörðu árunum. Jeg geri ráð fyrir, að þingmenn vilji stjórna fjármálunum á sömu leið fyrir hið opinbera eins og fyrir sjálfan sig, og í sínum eigin málum fylgja líklega flestir þeirri reglu, að reyna að komast af meðan hægt er, án þess að safna skuldum upp á ókominn tíma.

Jeg skil ekkert í því, að háttv. þm. Dala. (B. J) skuli geta verið með frv. stjórnarinnar, fyrst hann er svona eindregið á móti tillögum nefndarinnar. Eða finst háttv. þm. (B. J.) t. d. nokkru rjettara að hækka toll af trjeskóm, sem teljast til fatnaðar, úr 3 kr. 50 kg. upp í 6 kr., heldur en að hækka kornvörutoll úr 20 au. upp í 40 au. fyrir hver 50 kg.

Vjer verðum að fylgja þeirri meginreglu, að safna sem minstum skuldum, og því getum vjer náð, bæði með því að takmarka útgjöldin sem mest og auka tekjurnar. Og vjer verðum að gera hvorttveggja.