28.05.1918
Neðri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2069)

69. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla ekki að ræða frv. þetta verulega nú. En jeg vildi láta þess getið, að jeg er ekki alveg sannfærður um, að hyggilegt sje að tengja þetta mál alt of mikið við aðrar launakröfur, sem fyrir þinginu liggja. Hitt álít jeg rjett, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, að ekki sje heppilegt að láta mál þessi hrekjast milli nefnda, því að svo gæti auðveldlega farið, að skyld mál lentu í óskyldum nefndum. En á hinn bóginn er jeg ekki viss um, að heppilegt sje að setja þetta mál í sjerstaka nefnd. Ef ætti að athuga launamálið á viðtækari grundvelli, er fjárveitinganefnd sjálfkjörin til þeirrar starfsemi. Hún hefir ekki svo mikil verkefni fyrir höndum á aukaþingi. Og mjer finst rjettast, að þessu frv. sje vísað til hennar; þó ekki þess vegna, að nauðsynlegt sje að tengja þetta mál við önnur launamál, heldur af því, að málið heyrir þessari nefnd til, eins og nú horfir við.

Þessu vildi jeg skjóta til formanns hv. fjárveitinganefndar og hv. deildar, hvort eigi fyndist vel til hlýða, að nefndin taki þetta mál til íhugunar. Mjer sýnist fara langbest á því.