28.05.1918
Neðri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (2072)

69. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Einar Jónsson:

Þegar þetta mál var hjer til umræðu í annari mynd, greiddi jeg atkvæði á móti því, og skal jeg nú gera grein fyrir ástæðum mínum fyrir því.

Jeg var mótfallinn taxtahækkuninni, þótt jeg viðurkendi hins vegar, að laun lækna væru of lág. Nú er farið fram á að hækka hin föstu laun læknanna. Og jeg treysti mjer ekki til að standa í móti þeirri kröfu. Jeg var á móti taxtahækkuninni vegna þess, að mjer virtist hrapalleg ósanngirni í henni fólgin. Veikir menn eiga örðugra uppdráttar en heilbrigðir, og þótt ríkir menn veikist, þá veikir það efnahag þeirra. En hins vegar er fátæklingnum fremur hætt við sjúkdómum, en efnamanninum. Þar að auki hefði hækkun þessi komið þyngst niður á þeim, er fjarst búa lækninum.

Sumir veigra sjer við að bæta launakjör einstakrar stjettar, því að fleiri stjettir muni þá gera sömu kröfuna. Þetta getur rjett verið. En jeg vil segja, að mest sje þörfin meðal læknanna. Því að læknir með 1.500 kr. árslaunum er ver settur en menn með 4.000—8.000 kr. launum. Læknar mega varla nokkurn tíma um frjálst höfuð strjúka. Að því leyti er mikill munur á kjörum þeirra og t. d. presta, sem varla gera annað en að semja eina ræðu vikulega og fara í kirkjuna á helgum. En læknar eru rifnir upp um miðja nótt, hvernig sem á stendur. Þegar þess er þar að auki gætt, að vel má lifa án prests, en læknir er hreint og beint ómissandi, ætti mönnum að skiljast betur, hversu meiri kröfu læknarnir eiga til bættra launakjara, því að það er, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) tók rjettilega fram, þegar hitt frv. var til umr., hart að drepa sinn eigin lífgjafa.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) kvað aðrar stjettir mundu koma á eftir, ef þessari væri gerð úrlausn. Jeg býst við, að hann hafi munað eftir skyldleika sínum í yfirdóminum, er hann sagði þetta. Mjer virðist, að eigi sje hægt að synja þessari kröfu læknanna, þar sem þeir eru svo að segja eina stjettin, sem vjer getum ekki án verið. Hjer var ýmsum mentastofnunum lokað í vetur, og verður ekki betur sjeð en að hægt sje að lifa án þeirra eða kennaranna, sem að þeim standa, t. d. háskólakennaranna o. fl. En það er ekki hægt að lifa án lækna.

Talað hefir verið um að kjósa sjerstaka nefnd í málið. En jeg er því mótfallinn. Hjer getur hver maður farið eftir sannfæringu sinni nefndarlaust.

Þá finst mjer og smámunasemi að vilja hækka launin um að eins 500 kr., og mun jeg greiða atkv. móti þeirri brtt.

Jeg tók eftir því. hjá hv. þm. S.-:. (P. J.) og þótti leiðinlegt að heyra það af hans vörum, að hann gæti ekki sveigt lund sína í þessu máli. Þetta segir sá maður, sem altaf segist vilja vera sannleikans megin, og jeg hefi ekki reynt hann að öðru en því, að hann segði altaf satt, það jeg man.

En hvernig getur hann þá sagt það nú, að hann geti ekki sveigt lund sína, þegar um það tvent er að velja, að sveigja hana að rjettu máli, eða halda fram því, sem rangt er og ekki samkvæmt því sanna og rjetta. Hjer er ekki um annað að gera, en að ganga inn á þessa braut, ef ekki á verra af að hljótast, og jeg tek það enn fram, að laun læknanna á að hækka með gjaldi úr landssjóði, en ekki með því að hækka taxtann. Jeg mun því greiða atkv. með þessu frv.