28.05.1918
Neðri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

69. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Pjetur Ottesen:

Í tilefni af því, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) mintist á launamálið yfirleitt, vildi jeg að eins segja örfá orð.

Hann kvað trauðla hægt að ganga fram hjá þeim launahækkanabeiðnum, sem fram eru komnar, og hallaðist, að því er mjer virtist, helst að því, að kosin væri sjerstök nefnd, til að íhuga og koma fram með tillögur um þetta mál.

En hjer verð jeg að vera allmjög á annari skoðun. Mönnum duldist ekki, þegar hæstv. stjórn á öndverðu þessu þingi lætur það vera sitt fyrsta verk að bera fram frv. um launahækkun handa nokkrum háttsettum embættismönnum, að það mundi draga dilk á eftir sjer, og það er þá líka að koma fram, að þessar spár muni rætast. Ýmsar stjettir embættismanna hafa þegar siglt í kjölfar stjórnarfrv. og farið fram á hækkun á launum sínum. Það leiðir líka af sjálfu sjer, hverjar afleiðingar það muni hafa að taka út úr launakerfinu flokk þeirra manna, sem eru að föstum launum til í hærri launaröð, og eru auk þess þann veg settir, að þeir njóta góðs af ýmsum aukabitlingum, sem þing og stjórn hefir upp á síðkastið verið töluvert örlát á, auk fleira sem að hrýtur.

Væri þessi leið tekin og sporið stigið jafnfult eins og stjórnin ætlast til, þá væri það að sjálfsögðu gjörsneitt öllu rjettlæti og sanngirni að ætla sjer að daufheyrast við kröfum þeirra embættis- og sýslunarmanna, sem lægra eru launaðir. Eins og menn vita, liggur það við borð að taka alt launamálið til yfirvegunar.

Það sje fjarri mjer að álasa stjórninni fyrir það að hafa ekki flutt alt launamálið inn á þetta þing; jeg lit svo á, að á þeim tímum, sem nú eru, sje ekki hægt að gera út um það mál neitt til frambúðar, eða eiga neitt við það á annan hátt en gert hefir verið með dýrtíðaruppbótinni.

En stjórninni hlaut að vera það fullljóst, að með því að fara svo að, sem gert hefir hún, þá var hún, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis, að draga alt launamálið inn á þingið, ekki í neinni röð eða reglu, heldur alt í bendu — ósamstætt og sundurlaust. Með þessu móti verður síðari villan argari hinni fyrri.

Jeg lít svo á, að launamálinu hefði átt að halda sem mest fyrir utan þetta aukaþing, en það er þessi ráðbreytni stjórnarinnar, sem því veldur, ef það tekst ekki. Um þetta frv., sem nú er fram komið, um hækkun á launum lækna, skal jeg ekkert segja út af fyrir sig að svo stöddu, en auðheyrt var það á hæstv. forsætisráðherra, að hann trúði ekki allsherjarnefnd fyrir málinu; hann fellst sjálfsagt á uppástungu hv. þm. S.-Þ. (P. J.), að beina málinu inn á nýja braut í þinginu, ef því mætti með því betur borgið vera. Með því móti skapast þinginu allvíðtækt verkefni, því nógu verður úr að moða nú, eftir að þingið hefir setið fullar 6 vikur, og það harla aðgerðalítið, enda lítt undirbúið af hálfu stjórnarinnar. Og satt að segja eru menn ekki enn þá farnir að sjá þá brýnu þörf, er var á því að kalla aukaþingið svona snemma saman, en síðar mun gefast kostur á að tala um það.