28.05.1918
Neðri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2075)

69. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla mjer að eins að gera örstutta athugasemd út af ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.). Það var alls ekki af því, að jeg vantreysti hv. allsherjanefnd að fara vel með málið, að jeg vildi ekki láta það fara til hennar, heldur af því, að jeg fellst á skoðun hv. þm. S.-Þ. (P. J.) um að taka málið alment fyrir, en ekki láta að eins einstök frv. en suma liði þess ganga fram. Það er vitanlegt, að til fjárveitinganefndar eru komin ýms erindi um launabætur, og nú væri heppilegt að finna einhvern máta til þess, að hv. deild gæti falið þeirri nefnd málið alment.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) var að tala um, að best mundi vera að setja sjerstaka nefnd í málið, en jeg álít rjettara að vísa því til fjárveitinganefndar, því þó hún hafi mikið að gera á reglulegum þingum, þar sem hún hefir þá útgjaldahlið fjárlaganna til meðferðar, þá hefir hún ekki neitt sjerstaklega mikið að gera á aukaþingum, þó hún sje kosin, því þá gætir þessara mála svo lítið.

Annars vil jeg segja hv. þm. Borgf. (P. O.), að þessi krafa læknanna stendur á engan hátt í sambandi við launakröfur annara embættismanna, heldur standa þessi tilmæli í sambandi við kröfuna um dýrtíðaruppbótina, því þeir hafa alls ekki sömu dýrtíðaruppbót og aðrir embættismenn, og því vilja þeir, sem rjett er, fá þessa dýrtíðaruppbót á tekjum sínum. Þetta er því hreinn misskilningur hjá hv. þm. Borgf. (P. O.).

Þetta frv. er ekki komið fram eftir kröfu lækna, heldur mun þetta frv. vera borið fram af nokkrum mönnum, sem voru óánægðir út af hinni mjög svo óheppilegu meðferð, er frv., sem borið var fram eftir tilmælum Læknafjelagsins, varð fyrir í þessari hv. deild, og nú hefir flutningsmönnunum þótt þetta sjálfsögð bragarbót frá hv. deild.