16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

37. mál, hækkun á vörutolli

Bjarni Jónsson:

Með fyrri ræðu minni ætlaði jeg að eins að gera grein fyrir atkvæði mínu. Nefndin þurfti því ekki að andmæla. En jeg ræð það af orðum háttv. framsm. (M. G.), að nefndin er á öfugri skoðun um grundvöll tollamálsins við það, sem jeg hjelt fram og hefi oft haldið fram áður. Háttv. framsm. (M. G.) kvaðst ekki vilja safna skuldum, til þess að þurfa ekki að verja afurðum góðu áranna til þess að rjetta við hallann frá þeim hörðu. Hann sagði enn fremur, að hann vildi viðhafa sömu aðferð við meðferð opinberra fjármuna eins og við meðferð síns eigin fjár. Það má vel vera, að hann geti talað þannig, því að hann er sjálfsagt mesti reglu- og reiðumaður, eftir því sem honum farast orð hjer í deildinni. Jeg hefi ekki annað til þess að byggja á dóm minn um reglusemi hans, en jeg efast alls ekki um, að hann sje rjettur. Jeg efast því ekki um, að hann geti með góðri samvisku tekið meðferð sinna eigin fjármuna til fyrirmyndar fyrir fjárreiðu hins opinbera. En ekki væri það góð regla og yrði naumast affarasæl, ef allir settu sjer það, að fara eins með fje landssjóðs og sitt eigið. Jeg segi fyrir mig, að jeg fer miklu ver með mitt eigið fje en fje hins opinbera. Það má með rjettu bera mjer það á brýn, að jeg fari illa með mitt eigið fje. En hitt getur enginn með sanni sagt, að jeg fari illa með fje landssjóðs. Þótt jeg þyki eyðslusamur á þingi, þá er jeg aldrei eyðslusamur til annars en þess, að hjálpa mjög efnilegum mönnum til að komast áfram, sem annars mundu eyðileggjast, til margfalds tjóns fyrir land og þjóð.

Annars skal jeg geta þess, að hefði mínum tillögum verið farið fram síðan stríðið hófst, þá mundu hafa verið sparaðar miljónir, sem nú sjest ekkert eftir af. Jeg sje, að margir háttv. fjármálamenn í deildinni fara að brosa og hrista höfuðið. En það gæti skeð að það færi af þeim brosið, því að jeg get sannað það með þingtíðindunum, að svo er sem jeg segi.

Svo er þetta með málvenjuna. Ef jeg hitti dreng, sem er 10 ára, ef jeg er 5 ára, þá segi jeg að hann sje helmingi eldri. Eins ef jeg segi, að einhver sje helmingi hærri en jeg, þá á jeg við að hann sje tvær hæðir mínar. En málvenjan ruglast, þegar sagt er „um helming“; þá er ýmist átt við 100% eða 50%. Tillögumaður hefir því rjett fyrir sjer, en hins vegar er nefndin vitalaus.

Þess vegna hygg jeg það ekki óþarft að samþykkja brtt. á þgskj. 115. En hins vegar þykir mjer, sem nefndin sje vitalaus, þótt hún hafi sett hitt, sem er málvenja, þótt hún sje reikul á blettum.