16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

37. mál, hækkun á vörutolli

Einar Arnórsson:

Jeg er sammála hæstv. fjármálaráðherra um það, að í 3. og 6. flokki sje og hljóti að vera margar vörutegundir, sem ekki eru taldar nauðsynjavörur. En þegar tollur er lagður á vörurnar saman, og eftir sama mælikvarða, bæði þær, sem eru nauð synjavörur, og hinar, sem eru ekki beint nauðsynjavörur, þá er verið að gera þetta gamla, sem kallað var að hengja bakara fyrir smið. Þær vörurnar, sem eru dýrari og síður nauðsynlegar, sleppa hjer um bil við tollinn, en hinar, sem þyngri eru, verða að bera nærri allan tollinn, þótt þær sjeu verðminni. En mjer er spurn: Hefði ekki verið vegur fyrir stjórnina að taka út úr þeim vörum, er falla undir 3. og 6. flokk, þær vörutegundir, sem eru mjög dýrar, en vigta lítið, og hækka tollinn aðallega á þeim? Mætti ef til vill segja, að það hefði orðið handahófsverk, en með nákvæmni og nægum tíma hefði þó sjálfsagt mátt leysa úr þessu atriði á viðunanlegan hátt.

Jeg skal taka til samanburðar danska tolllöggjöf. Hún er afarnákvæm og vel sundurliðuð, og mætti þar hafa gagn af og hafa hana til fyrirmyndar. Þar er t. d. að nokkru lagður verðtollur og að nokkru þyngdartollur á margar sömu vörutegundir. Jeg býst við, að allir hefðu sætt sig við, ef stjórnin hefði farið þá leið, að taka til hækkunar þær ákveðnu vörutegundir, sem reynslan sýnir að eru ekki bráðnauðsynlegar, en töluvert dýrar og gefa seljendum góðan arð, svo sem gull- og silfurvörur og jafnvel silki. Allir vita, að á gull- og silfurvörur er mikill kaupmannsgróði lagður og því gróðavegur að versla með þær. Og þeir, er kaupa þær, eru rjettir til að greiða hærra verð fyrir þær, því að það eru aðallega efnamennirnir. En fátækari hluti manna, og það er meiri hluti þjóðarinnar, það bið jeg menn að athuga, kaupa ekki þessar vörur, svo að nokkru nemi. Jeg skýt þessu að eins fram, hvort það væri ekki betra að taka þessi atriði til greina, þó að nú sjeu líkast til ekki tök á að kippa þessu í lag, með þeim tíma, sem nú er fyrir hendi.