15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (2101)

96. mál, verðlag á vörum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Þegar stofnað var til verðlagsnefndarinnar 1915, eða stjórninni með lögum gefin heimild til þess að skipa nefnd til þess að ákveða verðlag á vörum, mun það aðallega hafa verið haft fyrir augum, að á þann hátt mundi ef til vill vera hægt að koma í veg fyrir, að kaupmenn legðu óhæfilega á vörur sínar, eða okruðu á þeim.

Það bryddaði þegar í stríðsbyrjun töluvert á því, að kaupmenn myndu í fullum mæli nota, sjer til hagsmuna, viðskiftaröskun þá, sem ófriðurinn olli.

Vörubirgðir þær, sem kaupmenn áttu þegar stríðið skall á, settu þeir, sumir hverjir að minsta kosti, mjög upp og mörkuðu þar með greinilega þá stefnu, sem þeir ætluðu að fylgja meðan siglingateppan hjeldist og samkeppnin þar af leiðandi væri lömuð eða útilokuð.

Það var því engin furða, þó gripið væri þegar í öndverðu til einhverra ráða, sem líkleg þættu til að geta haldið aftur af þessum ófögnuði. Með þetta aðallega, ef ekki eingöngu, fyrir augum mun verðlagsnefndinni hafa verið hleypt af stokkunum. En hvað hefir svo verðlagsnefndin gert í þessum efnum ? Mjer vitanlega mun það, ef nokkuð er, nauðalítið vera. Að minsta kosti mun það starf, sem opinbert sje, ekki hafa borið neinn raunverulegan árangur.

Það getur vel verið, að nefndin hafi safnað einhverjum skýrslum og gert einhverja útreikninga, en að það hafi haft nokkra verulega þýðingu eða borið nokkurn sýnilegan árangur, það er mönnum alls ekki kunnugt um. Það getur vel verið, að nefndin hafi ekki haft nóg vald eða myndugleika til þess að hafa áhrif á verðlag aðfluttrar vöru, þannig að stöðva sölu á vörum, þangað til nefndin hefði rannsakað innkaupsverð vörunnar og flutningskostnað, og ákveða svo álagninguna að fengnum þeim upplýsingum. En hafi svo verið, átti nefndin að tjá stjórninni og þá þinginu þessi vandkvæði á því, að hún gæti nokkuð það aðhafst í þessu efni, sem gagn væri í. Mjer vitanlega hefir nefndin ekkert gert í þessa átt, heldur látið reka á reiðanum. Að minsta kosti kom ekki neitt fram á síðasta þingi í þá átt, að auka vald verðlagsnefndar. Þá varð verðlagsnefndin, eða aðgerðir hennar, hámarksverð á smjöri — sem jeg síðar kem að — að umtalsefni, á síðasta þingi.

Af hverju sem það nú er, þá hefir verðlagsnefndin ekki komið að neinum notum í því, sem átti að vera aðalstarf hennar, að hefta óþarfa og óhæfilega álagningu á aðfluttri vöru.

En nú er svo komið, að það er óþarft að hafa sjerstaka nefnd í þessu augnamiði, þó einhvers gagns hefði mátt vænta af starfi hennar, þar sem allir aðdrættir til landsins á nauðsynjavörum eru nú þegar að komast og komnir í hendur landsverslunarinnar.

Með því móti er alt eftirlit með sölu á þessum vörutegundum háð íhlutun stjórnarinnar, sem ákveður kaupsýslumönnum hæfilegan verslunarhagnað.

Þá skal jeg snúa mjer að afskiftum verðlagsnefndarinnar af innlendri framleiðslu, eða drepa lítillega á það. Í því efni hefir verðlagsnefndin færst töluvert í aukana. Það hafa frá því fyrsta, að verðlagsnefndin lagðist á þá sveif, verið mjög skiftar skoðanir manna um það, hversu ráðlegt það væri eða hyggilegt að setja hámarksverð á innlenda framleiðslu, eða yfir höfuð hlutast til um frjáls viðskifti manna með þær afurðir. Þessar raddir hafa ekki einasta heyrst frá hálfu framleiðenda, heldur einnig úr hóp kauptúna- og kaupstaðabúa.

Það ber svo margs að gæta þegar á að fara að ákveða verð framleiðsluvöru. Það útheimtir nákvæma þekkingu á framleiðslukostnaðinum, og það er ekki að búast við því, að þeir menn, sem ekki fást við búskap og ekki þekkja út og inn alt það strit og stríð, örðugleika og kostnað, sem það hefir í för með sjer að reka búskapinn, geti hnitmiðað verðið svo niður, að rjettlátt sje.

Eins er það, ef framleiðslan fullnægir ekki eftirspurninni; þá er hámarksverðið þýðingarlaust, því þá versla menn saman í pukri og skeyta hvorki um boð nje bann í þeim efnum. Þetta segi jeg einkum hvað smjör og mjólkurframleiðslu snertir, því það hvorttveggja hefir verðlagsnefndin sett hámarksverð á.

Í sambandi við hámarksverð á smjöri, sem nefndin setti á í febr. 1917, má minna á það, að sumarið 1916 var eitthvert hið mesta óþurkasumar hjer á Suðurlandi, svo töður nær ónýttust víðast hvar. Eins og af líkum má ráða, voru kýr nær gagnslausar um veturinn og því til byrði eigendunum. Hámarksverð það, sem nefndin setti á smjörið í þetta sinn, sýndi það greinilega, að nefndin hefir ekki tekið tillit til þessa, svo sem vera bar, og veldur því það, sem jeg mintist á áður, að þess hefir ekki verið gætt, þegar nefndin var skipuð, að sjá fyrir því, að bóndi sæti í nefndinni. Það bendir einnig til þess, sem jeg mintist á í upphafi, að það mun aldrei hafa verið tilætlunin, að setja verðlagsnefndina til höfuðs innlendri framleiðslu.

Fyrstu afskifti verðlagsnefndar af innlendri framleiðslu munu hafa verið þau, að verðlagsnefndin setti, 1915, hámarksverð á mjólk í Reykjavík. Það hámarksverð afnam verðlagsnefndin svo sjálf litlu síðar.

1916 fer hún aftur af stað, með hámarksverð á mjólk hjer í Reykjavík. Það hafði þau áhrif, að mjólkurframleiðendur ætluðu að draga sig til baka með framleiðsluna og hætta mjólkursölunni. Til þess að firra bæinn vandræðum skarst þáverandi ráðherra, hr. Einar Arnórsson, í leikinn, afnam hámarksverðið og komst að samningum við mjólkurframleiðendur um ákveðið verð á mjólkinni, og alt komst í samt lag aftur. — Eftir þessi afrek sagði nefndin öll af sjer.

Var þá um tíma engin verðlagsnefnd. Stóð það þar til að afloknu aukaþingi 1916—17, að sú stjórn, sem þá tók við, skipaði nýja menn í nefndina, og var hámarksverð á smjöri, sem jeg hefi áður minst á, hennar fyrsta verk. það hámarksverð er nú löngu afnumið, og braut stjórnin það fyrst með því að gera samning við rjómabú austur í Árnessýslu og kaupa smjör af þeim hærra verði en hámarksverðið leyfði.

Auk þess, sem jeg hefi nú minst á, hefir verið sett hámarksverð á nýjan fisk, egg, kartöflur, hangikjöt og kæfu og ef til vill fleira.

Um hámarksverðið á nýjum fiski er það að segja, að eftir því, sem jeg hefi haft fregnir af, mun það ef til vill hafa komið að einhverju liði fyrir Reykjavíkurbæ, og veldur því auðvitað einkum og helst það dæmalausa sleifarlag, sem hjer er á fisksölu. Á öðrum stöðum á landinu varð það til þess að hleypa verðinu upp, og sumir lögreglustjórar sem sáu það fyrir, að svo mundi fara, drógu það í lengstu lög að birta auglýsinguna, til þess að afstýra þessu.

Svo var það einnig um smjörið, að hámarksverðið varð til þess að hleypa verðinu upp í ýmsum öðrum landshlutum, einkum Norðurlandi.

Hámarksverðið á eggjum varð aldrei nema á pappírnum; það hefir algerlega verið fótum troðið. Sömu forlögum hefir hámarksverð á kartöflum lotið. Það hámarksverð valt um sjálft sig; að minsta kosti voru auglýstar hjer í blöðum höfuðstaðarins, hvað eftir annað, frosnar kartöflur, sem voru seldar hærra verði en verðlagsnefnd leyfði að selja nýjar kartöflur að haustinu til, og er mjer ekki kunnugt um, að komið hafi verið í veg fyrir sölu þeirra, og hefi jeg ekki heyrt, að neinn hafi verið dreginn fyrir lög og dóm út af sölu á frosnum kartöflum yfir hámarksverði; að minsta kosti voru auglýsingarnar ekki heftar.

Þá er hámarksverðið á kæfu og hangikjöti. Þar er tiltekið í opnustórri reglugerð, hvað margar % af vatni og salti megi vera í hverju um sig, og flokkað eftir því. Jeg ætla mjer ekki að hætta mjer lifandisögn lengra út í þann prósentureikning, en margbreytni reglugerðarinnar um sölu á þessum vörum er ein nóg til þess að gera þessa hámarksverðsviðleitni alveg þýðingarlausa. Ef ætti að fylgja reglugerðinni, þyrfti hver einasti munnbiti af hangikjöti eða kæfu að ganga í gegnum efnarannsóknarstofuna. Þá væri það fyrst trygt, að fólkið keypti ekki vatn og salt hærra verði en verðlagsnefndin vildi vera láta.

Reynslan hefir nú, held jeg, fyllilega sýnt það, að þeir menn hafa sjeð jafnlangt nefi sínu og haft rjett fyrir sjer, sem töldu óhyggilega að farið að setja hámarksverð á innlenda framleiðslu. Reynslan hefir líka sýnt það, að þau afskifti hafa engan veginn náð tilgangi sínum, en aftur sumstaðar annarsstaðar haft gagnstæð áhrif því, sem tilætlunin var.

Það verður því ekki sjeð, að það sje neinn skaði skeður, þó þessi nefnd sje lögð á hilluna. Það er hvort sem er nóg eftir af nefndum, þó þessi sje lögð niður, og sannarlega er heill og velferð landsins vel borgið, ef það er aðalatriðið að hafa margar nefndir.

Þá hefi jeg leitað mjer upplýsinga um það, hvað þessi nefnd hefir kostað frá byrjun. Upphaflega var það víst meiningin, að þeir, sem skipaðir voru í þessa nefnd, ætluðu ekkert að taka fyrir starf sitt. Það sjest á því, að fyrstu árin er enginn kostnaður tilfærður, nema ritfangakostnaður, sem nemur um 300 kr.

Eftir að fyrri nefndarmennirnir höfðu sagt af sjer og nýju nefndarmennirnir eru skipaðir, sem tóku þegar borgun fyrir starfa sinn, þá rísa gömlu nefndarmennirnir upp og koma með reikning eftir á, sem nemur 2.680 kr. Sá reikningur er borgaður út á árinu 1917. Árið 1917 hefir verðlagsnefndin, sem nú situr, tekið 7.200 kr.

Jeg spurðist fyrir um það í stjórnarráðinu, hvernig borgun til verðlagsnefndarmanna væri hagað, við hvað borgun þeirra væri miðuð. Það gat jeg engar upplýsingar fengið um; viðkomandi skrifstofa hafði enga hugmynd um það.

Það hafði enginn reikningur verið gefinn. Venjan væri sem sje sú, að formaður nefndarinnar óskaði eftir að fá sjer þessa og þessa upphæð útborgaða, og það væri gert.

Til verðlagsnefndarinnar er þá búið að greiða 10.180 kr. Jeg verð að telja það mjög óviðeigandi og blátt áfram óreglu að krefjast ekki skýrra reikninga yfir allar útborganir af opinberu fje.

Hv. stjórn ætti nú að vera búin að fá fulla reynslu fyrir því, að hleypa mönnum ekki upp á það krambúðarloft, að geta hafið svo og svo mikið fje út úr landssjóði, án þess að leggja fram nokkra reikninga, eða með því að leggja fram reikninga eftir á.

Aðferð sú, sem sendimaður stjórnarinnar til Ameríku, Jón Sivertsen, hefir haft, ætti að vera bending — og það áþreifanleg bending.

Jeg hefi það fyrir satt, að honum hafi verið borgaðar út um 60 þús kr., en þar með mun kröfu hans trauðla fullnægt. Svona til sýnis og smekkbætis vil jeg tilfæra hjer einn lið úr þessum reikningi hans. Það er fæði og þjórfje o. fl., sem ekkert er sundurliðað í reikningnum, heldur alt í einu lagi. Það nemur í 296 daga 16.102 kr., eða kr. 54,40 á dag. Það hefir ekki verið neinn dýrtíðarbragur á borðhaldinu því, góðir menn. Það tekur því svo sem ekki að minnast á það, innan um þessa tugi þúsunda, að á reikningnum er tilfærður sumarfatnaður á 510 kr. Landið hefir víst átt að klæða ræðismanninn.

Jeg verð að segja það, að þegar svona reikningar eru borgaðir út óátalið og umyrðalaust, þá er ekki neitt óeðlilegt, þó að þeir, sem skifti hafa við landsstjórnina, freistist til að gefa feita reikninga.

Jeg tala ekki um þetta í því sambandi, að mjer komi til hugar að væna verðlagsnefndina um ásælni í garð landssjóðs. En stjórnin á að hafa hreina reikninga við starfsmenn þess opinbera og þessar nefndir, sem hún er að hrúga í kringum sig, og borga ekkert út nema eftir reikningi, og semja á þann hátt, að þeir komi ekki með ósanngjarna bakreikninga.

Til samanburðar við kostnað af dvöl Jóns Sivertsens í Ameríku má benda á það, að þegar þeir Ó. Johnson og Sveinn Björnsson voru sendir vestur um haf, í fyrsta sinn sem erindrekar voru þangað sendir, þá kostaði dvöl þeirra beggja í 49 daga 3.471 kr.; og lögðu þeir fram sundurliðaða reikninga yfir hvað eina.

Sagt er, að kostnaðurinn við sendiför Fr. Nansens, fulltrúa Norðmanna, sem dvaldi 1½ ár í Ameríku, hafi verið að eins 30.000 kr., eða hálfu minna en dvöl Jóns Sívertsens í 10 mánuði.

Jeg ætla svo ekki að fara að þessu sinni lengra út í þetta, og frv. þarf ekki frekar að minnast á. Við flutningsmenn lítum svo á, að starfsvið það, sem verðlagsnefndinni var upphaflega ætlað, sje nú komið í hendur stjórnarinnar, að því er útlendu vöruna snertir, en reynslan hefir aftur á móti þegar sýnt, að afskifti verðlagsnefndar af innlendum framleiðsluvörum hafa engan veginn náð tilgangi sínum og eru þýðingarlaus. — Jeg vona því, að hv. deild lofi frv. að ganga fram hindrunarlaust og ljetti með því af einni af þessum nefndum, sem virðist vera alveg ofaukið.