15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í C-deild Alþingistíðinda. (2103)

96. mál, verðlag á vörum

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi ekki mikið að segja um þetta mál að svo stöddu. Það er ekki ástæða til að ætla annað en að frv. fái slindrulaust að ganga gegnum deildina, og þarf því ekki frekar með að mæla en gert hefir verið. Alt, sem hv. flm. (P. O.) hefir sagt, stendur óhaggað, enda munu orð hans töluð fyrir munn flestra deildarmanna. En út af ummælum hæstv. forsætisráðherra finn jeg mig knúðan til að segja nokkur orð. Jeg get hugsað mjer, að þingmenn kunni því ekki allir vel að fá snuprur fyrir að hreyfa ummælum um mál, sem fyrir liggja og þeim ekki einungis ætti að vera fullheimilt að tala um, heldur ber blátt áfram að tala um, fyrst þeir eru hjer saman komnir á annað borð. Og hvað það atriði snertir, sem hv. flm. (P. O.) drap á, og var í eðli sínu skylt því máli, sem hann var að tala um, mál er gæti verið ein af þeim bendingum, sem stjórnin virðist vera svo þurfandi fyrir og hún ætti að geta hagnýtt sjer síðar meir, þá verð jeg að segja það, að það ætti að vera hverjum þingmanni leyfilegt að drepa á slík atriði, án þess að stjórnin, sem ekki virðist hafa miklu fyrir sig að svara, nú fremur en endrarnær, fari að snupra þá fyrir þetta. Það er líka einkennilegt að heyra hæstv. forsætisráðherra vera að tala um það, að þó að þetta atriði sje dregið fram til samanburðar í umræðum um annað mál, þá sje það vanræksla af flm. (P. O.) að láta eki stjórnina vita, að það stæði til. Veit ekki hæstv. forsætisráðherra, að þetta mál hlaut að koma fram í umræðum í þinginu? Fylgist hann ekki betur með því, sem á góma ber meðal þingmanna, en það, að honum gæti verið ókunnugt um, að þetta mál væri komið inn í þingið? Það hefir meira að segja verið nefnt hjer í deild áður, í sambandi við annað mál, og um það talað í blöðum; og meðal þingmanna er nú einna mest um það rætt allra kostnaðarmála. Svo getur hæstv. forsætisráðherra staðið upp og kvartað undan því, að stjórnin hafi ekki verið látin vita, að á það ætti að minnast! Mjer þykir það nokkuð hart, ef ekki ætti að mega ympra á neinum athugasemdum við gerðir stjórnarinnar, nema henni sje tilkynt það formlega, að slík athugasemd muni koma fyrir í umræðum um eitthvert mál.

Það atriði, sem hjer um ræðir, er svo mikilvægt, að stjórnin ætti að vera búin að gefa einhverja skýrslu um það.

Það er svo hneykslanlegt atriði, ef því er varið eins og flestir nú hyggja, að stjórninni ætti að vera umhugað um að leiða í ljós nýjar upplýsingar eða skýringar, ef hún skyldi búa yfir einhverju, sem ekki er öllum kunnugt. Og þetta er líka viðtækt atriði, sem hefir miklu dýpri og alvarlegri þýðingu en það, hvort á það er drepið í umræðum á þingi á einn eða annan veg. — það getur varðað því, hvort það muni teljast fært að senda út menn, til að fara með erindi landsins hjá öðrum þjóðum. Ef verslunaragentar, sem ekki hafa nein „diplomatisk“ erindi með höndum, verða landinu svona kostnaðarsamir, eins og maður sá, sem hjer um ræðir, hr. Jón Sivertsen, er fær nálega 60 þús. kr. í 10 mánuði, hvað á þá að segja um það, ef landið skyldi þurfa að að hafa erindreka — ekki að eins verslunarerindreka, heldur „diplomatiska“ erindreka hjer og þar úti um heiminn? — Þetta er því víðtækara atriði og þýðingarmeira fyrir sjálfstæði landsins en þingmenn ef til vill gera sjer grein fyrir, þegar þeir hugsa um kostnaðarreikning þessa sendimanns. Og sýnilegt er á öllu, að stjórnin gerir sjer enga hugmynd um þetta.

Svo er eitt atriði, sem jeg get ekki leitt hjá mjer að nefna. Ef hreyft er einhverjum athugasemdum, eða leitað skýringa hjá hæstv. stjórn, þá er eins og jafnan sje seilst til þess, að sá ráðherrann, sem hlut á að máli, sje ekki viðstaddur. Hinn, sem viðstaddur er, getur þá sagt, — sjálfsagt með góðum rökum, — að það sje ekki hann, sem geti haldið uppi svörum fyrir stjórnina! En hvernig stendur á því, að hæstv. atvinnumálaráðherra er ekki hjer viðstaddur, þegar þetta frv. er á dagskrá, sem þó að sjálfsögðu og ótvírætt heyrir undir hans verkahring? Jeg býst við, að mjer verði svarað því, að hann sitji í sæti sínu í hv. Ed. þar er nú fyrst á dagskránni frv. til laga um breyting á lögum um heimild til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum. Það má nú segja, að það mál snerti hann líka, en jeg vil álíta, að hann hefði átt að vera hjer í deildinni, en hæstv. forsætisráðherra aftur í Ed. Það mál, sem þar er á dagskrá, mun heyra fult svo mikið undir verksvið forsætisráðherra, a. m. k. í framkvæmdinni. Þeir hefðu því átt að skifta, svo að sá, ef nokkur er, sem gat svarað fyrir sig í því máli, er hjer var á dagskrá, hefði getað verið hjer viðstaddur.