15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

96. mál, verðlag á vörum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Hæstv. forsætisráðherra virðist taka það óstint upp, að jeg skyldi minnast á reikning Jóns Sivertsens í sambandi við þetta mál. En jeg kippi mjer ekki mikið upp við það. Jeg er ófeiminn að segja sannleikann og klípa þar ekkert utan úr, og það þótt jeg sje hjer við hliðina á hæstv. forsætisráðherra. Það má vel vera, að sumum finnist, að jeg hefði átt að tilkynna stjórninni það áður, að jeg ætlaði að minnast á þetta; það má hver líta svo á það sem vill; jeg finn að því, sem mjer þykir aðfinsluvert, þegar mjer býður svo við að horfa, hvort það er nú hæstv. stjórn, sem á í hlut, eða hver sem það nú er. En mjer þótti ekkert illa við eiga, að einmitt í þessu sambandi hvernig hagað er borgun til verðlagsnefndarinnar, væri bent á kostnaðarreikning Jóns Sivertsens; sem virðist helst ekki mega nefna á nafn. En viðvíkjandi því, að jeg hefi ekki tilkynt hæstv. atvinnumálaráðherra að vera við þessa umr., þá get jeg tekið undir það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir sagt, að hæstv. atvinnumálaráðherra hljóti að hafa sjeð, að þetta mál, um afnám verðlagsnefndar, var á dagskrá, og honum var það að sjálfsögðu ljóst, að málið heyrir undir hann, en hann er ekki viðstaddur samt. Enda heyrist mjer hæstv. forsætisráðherra vanta síst viljann til að bera blak af stjórninni, þó ekkert hafi hann hrakið af því, sem jeg sagði, og það hefði atvinnumálaráðherra trauðla fremur getað.

Mjer fanst ekki nein ástæða til að fara að hrópa það upp við stjórnina, þó mjer dytti í hug að drepa á þetta atriði í umr. En hitt verð jeg að segja, að mjer kom það undarlega fyrir, að hæstv. forsætisráðherra skuli vera að fárast yfir því, að stjórnin væri varbúin að gefa svör við þessu atriði, af því henni, eða viðkomandi ráðherra, hefði ekki fyrirfram verið tilkynt um það, að á það yrði minst, og þar af leiðandi ekki kynt sjer það til hlítar. Jeg verð að álíta næsta lítils virði þessa viðbáru, þar sem hæstv. stjórn hefir úrskurðað þennan reikning áður en honum var ávísað til greiðslu í landsversluninni. Hæstv. stjórn eða viðkomandi ráðherra hefir þá að öllum líkindum kynt sjer reikninginn áður en honum var ávísað, svo hún ætti að vita, hvernig hann var. Eins og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir tekið fram, var þetta atriði nefnt hjer í deildinni, í sambandi við annað mál, fyrir nokkru. Þótt hæstv. stjórn hefði ekki fundist ástæða til að athuga reikninginn þegar hún úrskurðaði hann til ávísunar, þá hefði þó verið fullkomin ástæða til að gera það eftir að þetta hafði komið fram hjer í deildinni, því mál þetta hefir, sem vonlegt er, vakið alment umtal og gremju, bæði utan þings og innan. Jeg verð því að vísa frá mjer öllum ávítunum hæstv. forsætisráðherra fyrir það, að jeg ekki aðvaraði stjórnina um, að jeg ætlaði að nefna þetta. Jeg bið engrar velvirðingar á því, síður en svo. Það var engin ástæða til að ætla, að stjórnin væri þess var búin að heyra því hreyft.

Þá þótti hæstv. forsætisráðherra jeg ganga of nærri Jóni Sivertsen, með því að nefna þetta. Jeg nefndi bara hans eigin tölur. En á frammistöðu hans í erindrekastarfinu, mintist jeg ekki einu orði. Mjer var hún ekki svo kunn, að jeg hefði ástæðu til þess, og jeg þykist ekki heldur hafa gert það. Það er ekki að neita því, að það leikur mjög á tveim tungum, að hvað miklu liði hann hafi orðið okkur vestur þar. En jeg dró ekki dul á það, að áminstur reikningur þessa manns er þannig vaxinn, að það er ómögulegt að komast hjá því, að átelja stjórnina fyrir að borga út slíkan reikning athugasemdalaust.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að svara fleiru að sinni.