16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

37. mál, hækkun á vörutolli

Fjármálaráðherra (S. E):

Jeg vil að eins gera þá athugasemd, að það væri sjálfsagt heppilegast, að teknar væru út úr og tollaðar gull- og silfurvörur, silki og annar slíkur dýrindis varningur, sem þolir vel skatt. En stjórnin hafði ekki tíma til þess nú, að endurskoða alla tolllöggjöfina, og auk þess er jeg hræddur um, að vegna þess, hversu tolleftirlit er hjer ófullkomið, þá hefði verið erfitt að gera þetta „effektivt“. Hjer er lítið tolleftirlit til, en annarsstaðar er strangt tolleftirlit og margir tollþjónar. (E. A.: Má jeg gera stutta athugasemd, af því að jeg er dauður? Þessar vörur flytjast, að minsta kosti nú, að heita má einvörðungu til Reykjavíkur, og hjer er þó tolleftirlit). Það er enn ekki komið svo fullkomið eftirlit, að á því verði bygt.