16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

96. mál, verðlag á vörum

Bjarni Jónsson:

Mjer þykir það undarlegt, að svona frv. skuli vera fram borið. Lög þau, sem á að afnema, eru ekki annað en heimildarlög, sem landsstjórnin getur látið vera að nota, ef hún álítur þess ekki þörf. Þetta frv. verður því ekki skilið á annan veg en að það sje árás, og það jafnvel ærumeiðandi árás, á þá verðlagsnefnd, sem setið hefir á rökstólum. Ef til vill er það gert til að hefna sín á þeim tveimur mönnum úr nefndinni, sem eru hjer í deildinni. Jeg get játað það, sem jeg við einstök tækifæri hefi gefið í skyn áður, að jeg álít, að þessari nefnd hafi í ýmsu yfirsjest, en um það er ekki svo mikið að segja, og jeg get ekki talið það þess vert, að hægt sje að sjá eftir því litla fje, sem til hennar hefir gengið. En ef hv. deild ætlar að fara að leggja það í vana sinn að ofsækja hverja nefnd, sem sett er til þess að vinna að opinberum málum, eins og hrekkjóttir drengir, sem kasta köglum í hvern sem er, þótt ekkert hafi til saka unnið, þá mun fljótt fækka þeim mönnum, sem fást til að gefa sig í þjónustu landsins eða starfa að opinberum málum.

Til þess að spara hv. Ed. að gefa sig í slátrunarverk enn á ný ætti þessi hv. deild að sjá sóma sinn og slátra þessu frv. nú þegar.