27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (2136)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Fjárveitinganefndinni þótti sem margt kæmi til athugunar í þessu máli. En aðallega voru það þrjú atriði, sem hún vildi taka hið mesta tillit til:

1) Þörf hlutaðeigandi embættismanna á launabótum nú í dýrtíðinni.

2) Fjárhagsástæður landssjóðs, og

3) síðast en ekki síst, líkindin fyrir því, hvort málið gengi gegn um deildina eða ekki.

Nefndin var nú öll á einu máli um það, að óhjákvæmilegt væri að bæta kjör embættismanna eitthvað. En þá gat og komið til umtals, hvort slíks skyldu njóta embættismenn einir, eða einnig aðrir þeir, er störf eða sýslur hafa fyrir landið. En nefndin gat ekki sjeð, að til mála gæti komið að taka hjer til greina aðra en þá, sem landið hefir brýnastar skyldur við, og vitanlega eru það embættismenn þess, sem eingöngu vinna fyrir það. Varð því ofan á í nefndinni að halda sjer eingöngu við það. Enda munu og aðrir starfsmenn hafa meiri og minni störf utan hjá, sem þeir geta dregið fram lífið á.

Að því er fjárhaginn snertir, og þegar litið er til hans, þá er það ljóst, að ekki er unt að verða við fylstu kröfum. Til þess hefir landssjóður engin efni. En nefndin vildi ráða einhverja bót á kjörum embættismanna, og það helst sem flestra. Og það er spursmál, hvort hún hefði ekki gengið heldur lengra, ef hún hefði haft nokkra von um, að slíkt gæti fengist samþ. í hv. deild.

Það sýnist nú ekki sjerstaklega auðvelt fyrir embættismenn að sækja launabætur undir þetta þing. Varð nefndin því að taka mjög mikið tillit til þess, hvað líklegt væri að hv. deild vildi ganga langt.

En auk þessa varð nefndin og að athuga, hvaða aðferð hún skyldi hafa í málinu; hvort hún skyldi leggja til að auka dýrtíðaruppbótina, eða bæta launin. Ef sú aðferð hefði verið upp tekin að auka dýrtíðaruppbótina, þá eru líkur til, að þurft hefði að hrófla við fleiru en þessum mönnum, og auk þess hafði sú aðferð þann mikla ókost, að ómögulegt er að segja, hve mikilli upphæð slík launabót mundi nema. Menn hafa rekið sig á, að áætlaður útgjaldaauki af dýrtíðaruppbótum hefir reynst allfjarri sanni. Og það er altaf leitt að koma fram með till., sem maður getur ekki gert sjer nokkurn veginn í hugarlund útkomuna af. Það varð því ofan á í allri nefndinni að leggja til, að viss upphæð væri greidd hverjum embættismanni, og sem allra jöfnust.

Fyrir nefndinni lá frv. til laga um laun lækna, og enn fremur frv. frá stjórninni um launabætur handa skrifstofustjórum stjórnarráðsins o. fl. Nefndin leit svo á, að þessi frv. mundu ekki ná samþykki hv. deildar, og rjeð því af að taka þessa menn upp í frv. sitt. Er það tilætlun nefndarinnar, að dýrtíðaruppbótin breytist alls ekki við þetta; það verði ekki goldin dýrtíðaruppbót af þessari launaviðbót, heldur verði hún söm og óbreytt. Eins og jeg gat áður, vildi nefndin ekki hrófla við dýrtíðaruppbótinni, því að hún taldi, að þá mundi margt geta fram komið, sem ekki yrði sjeð fyrirfram.

Að því er snertir skrifstofustjórana, þá þorði nefndin ekki að ganga eins langt og stjórnarfrv., en fanst um leið ástæða til að taka upp landsskjalavörð, landsbókavörð og þjóðmenjavörð. Virtist henni rjett að taka alla þessa menn saman, því að þeir eru taldir jafnir að tign og fá jöfn laun.

Sama er að segja um dómara landsyfirdómsins. Nefndin þorði ekki heldur þar að halda fast við till. stjórnarinnar, enda þótt meiri hl. hennar liti svo á, sem þær væru ekki um of. Nefndarmenn líta svo á, að launakjör dómaranna sjeu alls ekki við sæmandi á venjulegum tímum, hvað þá heldur nú. Enda ætlast nefndin til, að þetta gildi ekki lengur en til ófriðarloka. Þá verður launum embættismanna væntanlega komið fyrir nokkuð á annan veg.

Eins og menn vita, hafði verið feld í þessari hv. deild till., sem hafði verið borin hjer fram að ósk læknastjettarinnar, um leyfi til þess að hækka gjaldskrána. það virtist því svo, sem fara yrði einhverjar aðrar leiðir, og því tók nefndin einmitt læknana upp í þetta frv. með 500 kr. launaviðbót á ári, enda þótt hún telji þetta ekki nægilega uppbót handa þeim, og ef svo fer, sem nú liggur við borð, að þetta verði felt, þá hefir meiri hl. fjárveitinganefndar áskilið sjer rjett til að koma með brtt. um þetta. Það þótti ekki rjett að skilja landlækninn eftir, með því að laun hans geta ekki heitið að vera há, þegar tekið er tillit til þess, að hann er æðsti maður læknastjettarinnar. Hann hefir nú 5.000 kr. á ári og enga dýrtíðaruppbót nje heldur ómagaframfæri; fyrir því leggur nefndin til, að hann fái 500 kr. viðbót, því að við álítum, að þessi laun, sem hann hefir, megi heita sultarlaun. Þá hefir holdsveikralæknirinn óskað eftir launaviðbót, og höfum við tekið hann með öðrum læknum og látið hann fá 500 króna hækkun, sem virðist vera það minsta sem hægt er, og þrátt fyrir það verður hann ver settur en læknarnir á Vífilsstöðum og Kleppi, því að hann hefir hvorki húsnæði, ljós nje hita frítt. — Það er svo ráð fyrir gert, að læknarnir fái með þessari uppbót til jafnaðar 2.000 kr. laun fyrst um sinn, þar til öðruvísi verður ákveðið, en nú stendur svo á, að nokkrir læknar hafa haft hærri laun undanfarið en þessar 1.500 kr., og eru þeir taldir upp í 5. gr. þessa frv.; það eru læknarnir í Keflavíkur-, Patreksfjarðar-, Blönduóss-, Seyðisfjarðar- og Reykjarfjarðarhjeruðum. Læknirinn á Blönduósi hefir 1.700 kr. í laun, læknirinn á Seyðisfirði 1.900 kr. og læknirinn í Reykjarfjarðarhjeraði 1.800 krónur, þótt hann sje nýr embættismaður, og stendur svo á því, að íbúum þess hjeraðs hefir verið veittur styrkur til læknishjálpar. Nefndin hefir lagt til, að bætt yrði við laun þessara lækna því, sem upp á vantaði til þess að þeir hefðu 2.000 krónur í árslaun, svo að allir yrðu jafnir að launum; það eina, sem þá gerir mismuninn, er þá ómagaframfærið.

Þá hafa nefndinni borist erindi frá nokkrum kennurum við háskólann og mentaskólann, um að bæta við laun þeirra, og virtist henni það sanngjörn málaleitun, því að hún leit svo á, að þeir gætu ekki komist af með þau laun, sem þeir hefðu; hefir hún því lagt til, að hver þeirra fái 500 króna viðbót á ári. Þá hefir nefndin lagt til, að kennarar við mentaskólann, gagnfræðaskólann á Akureyri, stýrimannaskólann og vjelstjóraskólann fái 500 kr. launauppbót, og eru aukakennarar bæði við mentaskólann og gagnfræðaskólann teknir með. Þá hefir nefndin lagt til, að vegamálastjóri og vitamálastjóri fái sömu uppbót. Enn fremur leggur hún til, að biskup landsins fái 500 króna launaviðbót; hann hefir nú eins og stendur sömu laun og landlæknir og enga dýrtíðaruppbót; koma laun hans þá til að verða 5.500 kr., og hygg jeg, að naumast muni hægt að segja, að það sje of hátt. Þá hefir fangavörður farið fram á launaviðbót, og fanst nefndinni öll sanngirni mæla með hans kröfu; hann hafði áður lág laun, 1.400 kr., en fór fram á 400 króna viðbót, og lagði nefndin til, að honum væri veitt það.

Frá prestastjettinni höfðu ekki komið neinar verulegar beiðnir um launahækkun, nema frá einum hjeraðsfundi, í Snæfellsnessýslu, en þessi beiðni virðist nefndinni svo frek, að hún gat ekki með nokkru móti tekið neitt tillit til hennar; þar var farið fram á, að laun sveitapresta yrðu hækkuð upp í 2.600 krónur og laun presta í kaupstöðum upp í 3.000 krónur.

Þá eru sýslumennirnir. Það hefir nú verið svo með þá, að þeir hafa um nokkur undanfarin ár haft talsverðar tekjur af landsversluninni; þeir hafa haft ýms störf á hendi fyrir hana og fengið talsvert mikla þóknun fyrir það; að vísu hafa tekjur þeirra rýrnað mjög mikið upp á síðkastið, ekki að eins vegna verðfalls á peningum, heldur líka tollar horfið, því að þeir eru eingöngu heimtir þar, sem skipin leggja upp vörurnar, en það er nú mestmegnis hjer í Reykjavík. Nefndinni virtist því, að komið gæti til mála, að bæta þyrfti kjör þeirra, og leitaði því upplýsinga um, að hve miklu leyti þeir myndu hafa störf með höndum fyrir landsverslunina, en nefndin hafði ekki fengið nægilega glöggar upplýsingar um þetta, er hún varð að láta frá frá sjer fara, en býst hins vegar við, að einhver ákveðin upphæð verði fengin stjórninni, til þess að bæta sýslumönnum upp tekjutap sitt, og að þeir komi til að hafa lítið sem ekkert að gera fyrir landsverslunina eftirleiðis, en að þeir muni aftur, þegar frá líður, hafa þó nokkrar tekjur af að innheimta tolla, þó að það verði auðvitað mjög litið eða jafnvel ekki neitt nú í ár. Nefndin hefir því búist við að þurfa að leggja það til, að stjórninni verði heimiluð einhver upphæð til þess að ráða bót á kjörum þeirra.

Nú vil jeg leyfa mjer að fara örfáum orðum um það, hvernig launakjör þessara embættismanna líta út, ef frv. þetta nær fram að ganga, og vil jeg þá fyrst nefna skrifstofustjórana. Það verður að álíta, eins og nú stendur, að þeir hafi sáralitla uppbót, og þó að jeg sje ekki í nokkrum minsta vafa um það, að laun þeirra fyrir stríðið, 3.500 krónur, hefðu mátt heita nægtalaun, þá verður það ekki talið mikið nú. Þá verða allar tekjur háyfirdómarans 6.000 kr. og meðdómendanna rúmar 5.000 kr. með öllu og öllu, enda hafa þeir líka dýrtíðaruppbót, en það hefir háyfirdómarinn ekki. Þá er lagt til um laun hagstofustjóra og þeirra, sem standa fyrir landsbókasafninu, þjóðskjalasafninu og þjóðmenjasafninu, að þau verði sem næst 4.500 krónum. Landlæknir, sem ætlast er til að fái 5.500 krónur, fær enga dýrtíðaruppbót; holdsveikralæknirinn er ætlast til að fái rúm 4.200 kr. í laun, en allir hjeraðslæknar eru taldir í einni heild; þeir höfðu fyrir stríðið í föst laun 64.500 krónur, en nú er lagt til, að þeir fái með öllu og öllu, dýrtíðaruppbót og ómagaframfæri, 120.550 krónur; verða það að meðaltali 2.800 kr. á hvern, en auðvitað eru aukatekjur allir þar fyrir utan, en þær hafa verið gefnar upp til þess að reikna af þeim dýrtíðaruppbót, og mætti því ætla, að þær væru ekki of lágt taldar, en þær eru, eins og kunnugt er, frá 50 krónum og upp í 2.500 kr. Þó er þess að gæta, að aukatekjur, sem náð hafa 2.000 krónum og þar yfir, munu hafa stafað af, að margir útlendingar hafa leitað sjer læknishjálpar, en það var, ef jeg man rjett, læknirinn í Vestmannaeyjum, sem var hæstur að aukatekjum. En nú mun mega gera ráð fyrir, að aukatekjur lækna sjeu ekki stórt yfir 1.000 krónur á ári að meðaltali, og verða þá laun þeirra til jafnaðar 3.800 krónur, en læknar þeir, sem eru kennarar við háskólann, munu hafa frá 4.300 til 4.600 krónur, en þeir læknar, sem hæst komast, eru, fyrir utan landlækni, sem hefir 5.500 krónur, þeir, sem mestar hafa aukatekjurnar, og hafa þeir, sem allra hæstir eru, sem næst 4.900 krónur. En það eru sem sagt, auk landlæknis og biskupsins, sem nær 5.000 krónum — hann á að fá 5.500 kr., — eftir þessari til!.. ekki aðrir en kennararnir við háskólann, sem allir saman komast eitthvað, meira eða minna, á 5. þúsundið. Fyrir utan aukakennara við háskólann eru tveir aðrir aukakennarar, sem nefndin hefir lagt til áð fái launauppbót; það eru þeir Páll Sveinsson og Jón Ófeigsson. Allar tekjur þeirra eru að eins 2.000 krónur, en eftir till. nefndarinnar verða nú tekjur Jóns Ófeigssonar alls 3.315 kr., og ætti það að vera auðsjeð öllum, að það eru ekki miklar tekjur fyrir mann, sem gegnir einu af þýðingarmestu kenslustörfum í Mentaskólanum, sem er kensla í nýju málunum, enda mun það ljósasti votturinn, að annar kennari þar, sem þó hafði betri laun en Jón Ófeigsson, hefir þegar sagt upp starfi sínu og fengið betur launaða stöðu hjá „privat“mönnum, og eru meira að segja líkindi til, að Jón Ófeigsson fari sömu leið, og hefir Mentaskólinn þá mist tvo af bestu kennurum sínum og þá, er síst má án vera, en það eru einmitt kennararnir í nýju málunum.

Nefndin vildi líka taka nokkurt tillit til kjara prestanna, en sá þegar í stað, að það var ekki hægt að fara nærri eins hátt, vegna þess, að þeir eru svo margir, yfir 100 á öllu landinu. Það hefði því orðið afskapleg upphæð með hinu, því að þótt ekki hefði verið farið hærra en að veita hverjum 300 kr., þá hefði það eitt orðið yfir 30.000 kr., og býst jeg ekki við, þótt nefndin hefði lagt það til, að það hefði náð fram að ganga hjer í þessari hv. deild. En nefndin gat ekki heldur sjeð, að það væri eins ástatt fyrir prestastjettinni eins og hinum stjettunum; þess er nefnilega að gæta, að prestum þeim, sem bú hafa, eru metnar jarðirnar svo lágt, að það verður þeim margfalt betra en peningarnir, enda býst jeg ekki við, að nokkur þeirra vildi selja ábúðarrjett sinn fyrir það verð, ef hann á annað borð ætlaði sjer að halda áfram að búa, en aðrar tekjur sínar fá þeir annaðhvort af handahófi eða þá eftir verðlagsskrá, svo að þeir hafa á engan hátt orðið fyrir jafnmeinlegu verðfalli peninganna, og eru því talsvert betur settir en aðrir embættismenn, enda þótt þeir hafi lág laun að öllum jafnaði. En því má þó ekki gleyma, að sumir þeirra verða hart úti, einkum þeir, sem í kaupstöðum búa og verða að lifa af launum sínum að öllu, og enn fremur þeir, sem búa á mjög dýrum jörðum, og þá helst hlunnindajörðum, til dæmis þar, sem æðarvarp er, með því að vinnulaun eru nú afskaplega há, en dúnn í lágu verði. Hefir því nefndin lagt til, að stjórninni verði heimilað að verja alt að 8.000 kr. til þess að bæta upp laun presta, og eftir till. þess manns, sem best þekkir til efnahags þeirrar stjettar, nefnilega biskupsins. Vil jeg svo að endingu geta þess, að enginn ætlast til þess, að lög þessi gildi um aldur og æfi, heldur að eins á meðan ófriðurinn stendur.

Þá skal jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. þær, sem fram eru komnar, og nefni jeg þær í röð.

Fyrsta brtt., frá hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra, er á þgskj. 400, um hækkun á kaupi þm. um 50%. Nefndin hefir athugað þessa brtt., en ekki gert neina ályktun um hana, og eru því atkv. nefndarmanna óbundin um hana, en meiri hl. nefndarinnar er þó hlyntur till. í sambandi við þessa brtt. vil jeg geta brtt. á þgskj. 406; fer hún í þá átt, að þessi hækkun á þingfararkaupinu, 50%, komi að eins niður á þeim þm., er búa utan Reykjavíkur, en Reykjavíkurbúar fái ekki neitt af henni. Veit jeg ekki, hvort þessi brtt. er komin fram af því, að þeir sjeu taldir svo miklu ljelegri þm., eða geri minna gagn hjer en hinir, en annars mun það alment álitið, að verður sje verkamaðurinn launanna, og sýnist það þá nokkuð hart að vilja láta þá gjalda þess, að þeir eiga hjer heima. Gæta verður þess líka, að þeir þurfa að ferðast í kjördæmi sín, því að þeir munu naumast ná þar kosningu nema því að eins, að þeir láti sjá sig þar og heyra til sín. Hefir það oft mikinn kostnað í för með sjer; t. d. vissi jeg til þess, að fyrir síðustu kosningar ferðaðist einn þm. hjeðan úr Reykjavík í kjördæmi sitt, og eyddi hann meiru fje í þeirri ferð en þingfararkaup hans nam það ár. En að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um þetta, því að mjer er svo hjartanlega sama hvernig fer um það.

Þá er brtt. á þgskj. 404. Ef ljeki á tveim tungum um það, hvort hv. flm. till. (Sv. Ó.) væri undirhyggjumaður eða ekki, þá mætti ætla, að till. væri tilraun til þess að „plata“ deildina, vegna þess að hún kemur fram sem umbætur á því, sem frv. þetta fer fram á, en dregur í rauninni úr því, svo að ef hún gengi fram, myndi dýrtíðaruppbót sumra embættismanna stórum lækka, og jafnvel alveg hverfa hjá sumum þeirra, nefnilega hjá þeim, sem hafa yfir 4.000 kr. að launum, — en nú er það alkunna, að hv. flm. (Sv. Ó.) er algerlega laus við það að vera undirhyggjumaður; hann er víst einmitt talinn vera gersneyddur þeim eiginlegleika, sem kölluð er slægviska, — þarf því alls ekki að efa, að hann hefir komið fram með þetta í þeim tilgangi að bæta frv., en ekki til þess að draga úr því. Það lítur því helst út fyrir, að hv. þm. (Sv. Ó.) hafi ekki verið búinn að hugsa þessa till. sína til enda, nje heldur að athuga, hverjar afleiðingarnar yrðu, ef hún gengi fram. Þó er það gert vísvitandi, að hann vill fella í burtu aukakennarann við kennaraskólann og skólastjórann við sama skóla. Jeg get í rauninni ekki skilið, hvers vegna hv. þm. (Sv. Ó.) vill þetta, en það er nú sama. En það er þó það samræmi hjá hv. þm. (Sv. Ó.), að hann vill ekki heldur, að fræðslumálastjórinn fái neitt.

Þá er síðasta gr. í þessum brtt., og ef litið er á hana út af fyrir sig, þá virðist það ekki vera nein frágangssök að samþykkja hana, því að það er auðvitaður hlutur, að þessi launaviðbót kemur ekki til greina fyr en um næsta nýár. Að öðru leyti eru ákvæðin söm og í 13. gr. frv.

Jeg verð að endingu að lýsa yfir því fyrir nefndarinnar hönd, að hún getur ekki með nokkru móti fallist á aðalatriði þessara brtt., því að nefndin telur það sannarlega ekki fært, að dregið sje úr till. hennar.

Þá er loks brtt. á þgskj. 405. Það þarf ekki segja um hana, að þar sje neinni lævísi beitt. Þessi till. gengur í þá átt, að launaviðbót háyfirdómarans sje færð úr 1.200 krónum niður í 700 og meðdómendanna úr 1.000 kr. sömuleiðis niður í 700; það er með öðrum orðum að spara 1.100 kr. á landsyfirdóminum á ári, frá því sem nefndin leggur til. Jeg hefi ekkert annað um þetta að segja en að nefndin getur ekki með nokkru móti fallist á þetta og vonar, að hv. deild geri það ekki heldur. Nefndin álítur þessar stöður svo mikilsverðar, að sjálfsagt sje að borga þœr sæmilega, og að ekki sje rjett að borga betur aðrar fastar stöður í þarfir lands og þjóðar, og verður nefndin að halda fast við, að betra sje að sleppa því að hafa háyfirdómara, ef þeir eiga ekki að fá eithvað, sem þeir geta lifað af. Nefndin mun því óhikað greiða atkvæði á móti þessari till. og vœntir þess fastlega, að sama verði ofan á hjá hv. deild. — En með því að það er orðið nokkuð áliðið dagsins, ætla jeg ekki að tala lengur um þetta að sinni.