28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í C-deild Alþingistíðinda. (2149)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Einar Arnórsson:

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagðist nú sem fyr hafa komið fram með brtt. til þess að gera meiri jöfnuð og rjettlæti. Því að hinir láglaunuðu yrðu betur settir, ef hans till. næði fram að ganga.

Þetta hygg jeg vera misskilning, því að ef hans till. verða samþyktar, verður munurinn millum þeirra láglaunuðu, sem slept er, og hinna, sem teknir eru, meiri en áður. Það liggur í augum uppi, að ef á að bæta hinum láglaunuðu dálítið, verður mismunur millum þeirra og hinna, sem enga fá uppbótina, meiri.

Þetta hefði átt að leiða til þess, að hv. þm. (Sv. Ó.) kæmi með viðaukatill. um að taka þessa menn með. Það var eina ráðið til þess að skapa dálítinn jöfnuð. (Sv. Ó.: Því kemur hv. 2. þm. Arn. (E. A.) ekki með hana?). Jeg hafði hugsað mjer að barna sem minst till. En ef til vill kem jeg með hana við 3. umr., er jeg hefi sjeð, hvað fjárveitinganefnd gerir og hver verða afdrif málsins við þessa umr. En úr því að hv. l. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fór í róður, hefði jeg kunnað betur við, að hann hefði dregið þessa menn með. Annars gleður það mig, að hv. þm. (Sv. Ó.) hefir samþykt mitt mál, enda er það ofureinfalt og auðvelt að sanna það með tölum.

Jeg verð að fara ofurlítið fleiri orðum um till. hans, en það, sem jeg ætla mjer að segja, verður hvorki svo að formi eða efni, að hægt verði að segja, að jeg níðist á þm. dauðum.

Þegar till. hans eru bornar saman við núgildandi lög og ákvæði, eru þær til bóta þar, sem launin eru lág, en þeir, sem hafa hærri launin, eru litlu eða engu bættari. Jeg skal nefna eitt dæmi. Jeg tek til dæmis mann, sem hefir 3.500 kr. tekjur og 3 barnaómögum fyrir að sjá. Eftir launalögunum og dýrtíðaruppbótarlögunum fengi þessi maður 3.500 kr. laun + 525 kr. dýrtíðaruppbót + 210 kr. ómagameðlagi. Þetta yrði samtals 4.235 kr. Eftir till. nefndarinnar, í sambandi við till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), fær hann 4.000 kr. + 350 kr. = 4.350. Hann fengi því eftir frv. 115 kr. Og þetta felst í því, að dýrtíðaruppbótin yrði lægri eftir því, sem stofninn hækkar, og barnaframlögin dregin frá. Þess vegna væri miklu sæmilegra af þinginu að taka þá alls ekki með, sem svo er ástatt um, því að jeg kalla það fyrir neðan virðingu þingsins að bjóða mönnum í virðulegri stöðu 115 — segi og skrifa 115 kr. — launaviðbót á ári.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tók til dæmis vitamálastjórann og aðstoðarmann hans. Hann virtist álíta, að ef hans till. yrði samþyktar, minkaði það ginnungagap, sem fest væri millum þeirra. Jeg veit, að sá munur yrði dálitlu minni ef hans till. yrðu samþyktar. Þessi mismunur yrði aftur 1.163kr., ef till. fjárveitinganefndar yrðu samþyktar óbreyttar. En ef till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) næðu fram að ganga, yrði munurinn 1.005 kr. Hann færðist þá nær vitamálastjóranum um 158 kr. á ári. (Sv. Ó.: Þetta er ekki rjett. Munurinn verður 1.451 kr., ef mínar till. ganga fram). Þetta hlýtur þá að stafa af mismunandi grundvelli. Jeg legg til grundvallar 2.500 kr. laun + 500 kr. dýrtíðaruppbót. (Sv. Ó.: Hann fær ekki þessa dýrtíðaruppbót.) Jeg geng að því vísu, að hann fái hana þegar málið verður til 3. umr. Jeg skoða þetta gleymsku hjá nefndinni. Jeg skil ekki, að þingið afgreiði frv. með slíkum ójöfnuði. Ef frv. verður ekki drepið að þessari umr. lokinni, vænti jeg, að nefndin lagfæri það, sem henni hefir yfirsjest, enda hefi jeg ekki heyrt hv. frsm. (M.Ó.) neita að taka þau atriði til greina, sem jeg og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) höfum bent nefndinni á, nema þá ef vera skyldi einn mann, sem hún vill vísa frá. Annars er ekkert órjettlæti í því fólgið, þó að mismunur sje á launum manns, sem stendur fyrir einhverri starfsgrein, og hins, sem er undirmaður hans. Formaðurinn ber alla ábyrgð á starfinu gagnvart stjórninni, og stjórnin snýr sjer til hans. Það, sem aflaga kann að fara, kemur á hans bak, en ekki hins, sem er undir hans stjórn, nema þá að litlum hluta.

Jeg hefi eigi ástæðu til að tefja málið með fleiri orðum, enda mun hv. frsm. (M. Ó.) víkja að því,sem jeg hefi gleymt, ef hann er sammála mjer.