28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í C-deild Alþingistíðinda. (2150)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi skotið hjer inn lítilli brtt. við till. hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra um hækkun á þingfararkaupi. Það hefir komið fram brtt. um að fara þessa uppbót úr 50% niður í 30%. En mjer þótti rjett að þræða hjer milliveginn. Í fjárveitinganefnd var til meðferðar till. frá forsætisráðh., að veita þm. dýrtíðaruppbót, og var þá meiri hl. nefndarinnar með því að hafa hana 40%. og geri jeg ráð fyrir, að hún hallist nú að þeirri hækkun, en síður hærri.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fann að því að prestar skyldu eigi vera teknir með í hóp þeirra embættismanna, sem nefndin hefir lagt til að fengju launauppbót. Jeg skal ekki leggja neina áherslu á þetta atriði. En eins og hv. frsm. (M. Ó.) tók skýrlega fram, er öðruvísi háttað um presta, sem hafa bújarðir, heldur en þá embættismenn, sem búsettir eru í kaupstað og hafa ekki aðrar tekjur en fastakaup sitt. Vjer getum sagt, að þau hlunnindi, að hafa jörð til þess að reka atvinnu á, sje nokkur hluti af launum presta; annars væru laun þeirra ómaklega lág. Það er ekki auðvelt að reikna þau hlunnindi, en þau eru veruleg eins fyrir því.

Þá skal jeg minnast lauslega á sýslumennina. Hv. frsm. (M. Ó.) skýrði frá, að nefndin ætti þar eftir óunnið starf, sem hún ætlaðist til að stjórnin ynni með henni. Það þýðir ekki að skírskota til forstjóra landsverslunarinnar um ómakslaun sýslumanna frá henni, því að stjórnin ákveður, hve sýslumenn skuli vinna mikið fyrir verslunina, og mjer virðist sennilegast, að stjórnin hafi hugsað sjer, að þeir hefðu einhver laun frá landsversluninni sjálfri, og að það verði ekki undir forstöðumönnum hennar komið, nema að litlu leyti. En nefndinni er vel ljóst, að fáir embættismenn eru ver settir en sýslumenn, ef þeir missa tolltekjurnar og fá enga uppbót nje ómakslaun í staðinn.

Þá vil jeg minnast ofurlítið á málið í heild. Jeg álít, að umr. hafi of mjög miðað að því að andmæla gerðum nefndarinnar; því að jeg hygg, að niðurstaða flestra þm. sje sú í reyndinni, að nauðsynlegt sje að gera embættismönnum einhverja úrlausn. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir líka talað í þessa átt — stutt mál nefndarinnar — og tekið ýmislegt fram, sem nefndinni hafði yfirsjest. Og mundi það verða nefndinni til styrktar, ef menn sneru sjer á sama hátt til hennar með þau atriði, sem þeir kynnu að hafa í huga, en nefndin hefir gleymt.

Nefndin hefir mestmegnis bundið till. sínar við þá, sem hafa föst laun eftir launalögunum. En hún hefir orðið að hafa starf þetta í hjáverkum; hún hefir haft öðrum störfum að sinna; enda kom málið seint til nefndarinnar.

Það hefir bólað á því hjá sumum hv. þm., að heppilegra hefði verið, að nefndin hefði hækkað sjálfa dýrtíðaruppbótina. Þetta tók nefndin til athugunar, en þá rak hún sig á þetta, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir tekið fram, að ef miðað væri við þann grundvöll, sem lagður er með dýrtíðaruppbótarlögunum, þá mundu sumir embættismenn, er þörfnuðust uppbótar, eigi fá neina uppbót og aðrir svo lága, að engu mundi nema. En hins vegar treysti nefndin sjer ekki til að breyta lögunum frá grundvelli; hjelt hún, að slíkar breytingar yrðu enn meira þrætuepli.

Nefndin hefir ekki verið svo heppin að hafa haft á að skipa kröftugum skoðunum í þessu máli, sem hafa verið alveg samrýmanlegar. En þó hefir það tekist að bræða þessar skoðanir svo saman, að nefndarmenn hafa orðið sammála. Og jeg lít svo á, að þetta sje trygging fyrir því, að þetta frv. fái áheyrn og finni náð fyrir augum hv. deildar, að við 7, sem þó erum úr mismunandi flokkum, skyldum geta orðið svona á eitt sáttir. Og þó þetta frv. sje nú ekki ,sem allra best, þá ættu menn þó að geta sætt sig við það, úr því sem komið er. En ef við hefðum nú farið að ganga inn á mjög viðtækar breytingar á málinu, þá hefði það getað orðið til þess, að málið hefði farið í mola, og þá álít jeg, að ver hafi verið farið en heima setið. Þá álít jeg og, að ilt hefði verið að mæta ákúrum sanngjarnra manna utan þings og svara spurningunni um það, hvers vegna þetta mál hefði farist fyrir.

Jeg vona því, að hv. þm. muni fallast á till. nefndarinnar.