28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla að eins að gera örstutta athugasemd við svar hv. frsm. (M. Ó.) til mín. Hann gekk nú að vísu lítið inn á athugasemdir þær, sem jeg gerði við frv., og hrakti ekkert af því, sem jeg sagði, og þarf jeg því ekki að fara út í það frekar. Það tel jeg lofsvert, að hann reynir að draga fjöður yfir sletturnar, sem hann ætlaði að flekka hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) með, og tel jeg hann meiri mann eftir en áður fyrir þá tilraun. En þó virtist hann þurfa að þjóna lund sinni dálítið frekar í þessa átt, því hann viðhafði þau ummæli um mig, að jeg legði það í vana minn að ráðast hjer á ýmsa þm. fyrir það, sem þeir hefðu aldrei hugsað og aldrei sagt. Jeg get nú að vísu ekkert um það sagt, hvort þessi hv. þm. (M. Ó.) er svo mikill spekingur, að hann geti lesið hugsanir manna, en jeg vil vísa þessum ummælum aftur heim á sinn fæðingarhrepp, því jeg tel litlar líkur til, að þau vinni sjer nokkurn tíma sveit annarsstaðar.

Hvað það snertir, að jeg segi meiningu mína fullum hálsi við hvern sem er, þá má hv. frsm. (M. Ó.) hneykslast á því, ef hann vill, en það er alkunnugt um þann hv. þm. (M. Ó.), að hann er frakkastur að beina skeytum sínum í vissar áttir.

Þá sagði hann enn fremur, að jeg hefði ráðist hjer á mann, sem ekki gæti borið hönd fyrir höfuð sjer. Það leikur víst enginn vafi á því, við hvaða mann hjer er átt, en það get jeg sagt hv. þm. (M. Ó.), að jeg get flett enn betur ofan af því hneyksli, og það svo, að jafnvel hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mundi ekki gefasig í það skítverk, að bera í bætifláka fyrir þetta hneyksli.