01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 432, sem fer fram á, að landsstjórninni sje heimilað að verja nokkru fje til uppbótar á launum póstmanna. Við 2. umr. þessa máls ljet jeg þá von í ljós, að hv. fjárveitinganefnd tæki málið til íhugunar og legði síðan til, að póstmönnum væri ætluð nokkur upphæð til uppbótar á launum sínum. Hv. frsm. (M. Ó.) svaraði mjer því, að þá lægi ekki fyrir nein ósk frá póstmönnum um launabætur. En jeg hjelt samt sem áður, að þar sem nefndin hefir nú tekið fyrir launakjör embættismanna, til þess að koma með till. til endurbóta, þá myndi hún líka vilja taka þennan flokk til íhugunar. Jeg veit, og það er öllum kunnugt, að margir þeirra embættismanna, er nefndin ætlar launabætur, hafa ekki farið til nefndarinnar með neinar óskir um slíkt, en hafa þó hins vegar mörgum sinnum meiri laun en þessir starfsmenn, póstmennirnir. Má vera, að stöður þeirra megi kalla ábyrgðarmeiri, en víst er um það, að þeir vinna margir ekki meira en þessir starfsmenn.

Jeg hefði nú komið með brtt. mínar fyr, og borið þær undir nefndina, ef jeg hefði haft tækifæri til þess. En jeg veit ekki betur en að fjárveitinganefndin hafi átt fundi með sjer þegar eftir 2. umr. og þá ákveðið brtt. sínar. En jeg bjóst ekki við því svo skjótt, og var því ekki tilbúinn, enda stóð jeg í þeirri trú, að fjárveitinganefndin mundi ekki skilja svo við þetta mál, að hún tæki ekki upp einhverja till. um launabætur handa póstmönnum, þegar litið er á till. hennar um aðra embættismenn. En síðan málið var til 2. umr. hefir nefndinni borist erindi frá póstmeistara, þar sem hann leggur til, að nefndin heimili stjórninni 15.000 kr. til póstmanna, sem úthlutað sje eftir till. póstmeistara. Þessar till. verð jeg að telja mjög sanngjarnar, því að launabótin eftir þeim nemur ekki meiru en sem svarar 25% af laununum. Eins og allir vita, hefir póstmeistari jafnan farið manna hóflegast í sakirnar í málaleitunum sínum við Alþingi. Þarf í því tilliti ekki annað en benda á laun þau, er póstmenn hafa. Það hefir líka sjaldan verið, að þingið hafi ekki getað fallist á óskir hans, a. m. k. að nokkru leyti. Reyndar mun í fyrra ekki hafa verið veitt alveg eins mikið fje og hann óskaði, og mun þess þó hafa verið mikil þörf. Nú skyldu menn ætla, eftir því, sem fjárveitinganefnd lítur á, að póstmenn búi við sæmileg kjör og lifi þolanlegu lífi. En því verð jeg að mótmæla. Laun þessara manna, sem verða að vinna jafnt helga daga sem virka, eru þetta 1.000—1.200 kr. með þeirri viðbót, sem veitt var í fyrra, og með dýrtíðaruppbót verða það þá um 1.680 kr. hjá þeim, er hafa 1.200 kr. laun. Og sumir þessara manna hafa þó heimili og ómaga fram að færa. Auðvitað njóta þeir þeirrar uppbótar, sem ætluð er til framfærslu barna á ómagaaldri, en þær bætur ná skamt. Verð jeg því að segja, að mig undrar stórlega að heyra þau ummæli hv. frsm. (M. Ó.), að nokkrir nefndarmanna hefðu komið sjer saman um að greiða atkv. á móti brtt. minni. Og einkum undrar mann þetta, þegar litið er til þess, hvernig nefndin hefir annars sniðið till. sínar í launamálinu yfirleitt. Og jeg ætla ekki að öfunda nefndina af samkvæmninni og rjettlætinu í vinnubrögðum hennar, ef hún lætur fella þessa till. mína.

Til frekari skýringar því, sem jeg hefi sagt, skal jeg benda á, hvernig póstafgreiðslumenn okkar eiga að lifa á launum sínum. Póstafgreiðslumaðurinn á Akureyri hefir t. d. 2.000 kr. í laun, og auk þess til skrifstofukostnaðar 1.900 kr. og húsaleigu 600 kr. Af þessu verður hann svo að greiða manni, er hann heldur sjer til aðstoðar, 1.200 kr. Svo hefir hann líka stúlku til aðstoðar, er hann greiðir um 400 kr. árlega. Þá hefir hann eftir 1.000 kr. til húsnæðis, ljóss og hita, ritfanga o. s. frv. Hann hefir því ekki líkt því óskertar þær 2.000 kr., sem honum eru ætlaðar til að lifa af. Sama upphæð er ætluð póstafgreiðslumanninum á Ísafirði, og mun mega segja svipað um hann, en þó getur verið, að hann hafi eitthvað betri afkomu, því að hann hefir bóksölu á hendi, jafnframt póstafgreiðslunni. Og eins og jeg drap á, eru þess dæmi hjer á pósthúsinu, að starfsmenn, sem eiga fyrir heimili og börnum að sjá, hafi einar 1.000 kr. í árslaun.

Jeg vænti nú þess, að þegar hv. fjárveitinganefnd heyrir, hvernig hagar til hjá þessum mönnum, þá hugsi hún sig um tvisvar áður en hún greiðir atkv. móti till. minni. Jeg skal geta þess út af því, sem 2 ræðumenn hafa sagt, að þeim þætti þessi upphæð, 15.000 kr., of há, og því mundu þeir greiða atkv. á móti till., að þá er til einföld leið að bæta úr því. Það er að samþykkja till. mína, og er þá betra og rjettara að lækka upphæðina um nokkur þúsund í Ed., í stað þess að slátra till. þegar, fyrir það eitt, að hún er nokkrum þús. of há. Jeg hefi enga tryggingu fyrir því, að hv. fjárveitinganefnd Ed. hafi meiri vilja til að bæta inn í lögin þessum flokki, en hv. Nd. Ef nefndin hefir góðan vilja, getur hún athugað þessa till. og lækkað hana, ef svo sýnist, en vilji hún ekki líta við henni, sýnir það, að þeim liggur í ljettu rúmi, hvort þessir menn fá nokkuð eða ekkert. En þess skal jeg geta, til lofs sumum hv. fjárveitinganefndarmönnum, að þeir fylgja þessari till. minni, og telja hana jafnvel sjálfsagðari en till. nefndarinnar sjálfrar. Og það er rjettmætt, því að þessir menn eru bundnir allan daginn og hafa jafnvel ekkert „frí“ á helgidögum, og þegar annríki er mikið, vinna þeir langt fram á nætur, og geta því ekki tekið að sjer neina aukavinnu. Hygg jeg, að öðruvísi sje háttað um suma þá menn, er hv. fjárveitinganefnd vill bæta upp. Þeir hafa þetta 2—5 þús. kr. í föst laun og auk þess aukatekjur, sumir jafnvel alt að 7—8.000 kr. laun, þegar allar aukatekjur eru taldar. Það má líka líta á þetta. (M. P.: Hverjir eru það?). Jeg ætla, að þessi hv. fjárveitinganefndarmaður viti um það, því jeg býst við, að nefndin hafi kynt sjer málið vel áður en hún neitar vissum mönnum um launabætur, svo að hún sje viss í sinni sök, að skapa ekki hróplegt misrjetti með till. sínum.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þessa till. En þess vil jeg láta getið, að jeg hefði komið til nefndarinnar, ef jeg hefði verið búinn að ákveða upphæðina. En satt að segja átti jeg ekki kost á því, því að jeg hygg það rjett hermt, að nefndin hafi ekki haldið fund síðan á laugardag, enda býst jeg ekki við, að viðtal mitt við hana hefði borið meiri árangur en erindi póstmeistara hefir gert.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. (M. Ó.) drap á, að þessir menn hefðu fengið launabót í fyrra, þá skal jeg geta þess, að það kemur málinu ekki skapaðan hlut við. Þótt þeir hefðu fengið uppbót fyrir mánuði síðan, kæmi það ekki lifandi vitund við málið. Hjer á að líta á þörfina og hvað landinu er sæmilegt.

Verð jeg því í lengstu lög að vænta þess, að allflestir, ef ekki allir, fjárveitinganefndarmenn fallist á þessa ósk póstmeistara og fylgi till. Þeir geta þá snúið sjer til Ed. og fengið upphæðina færða niður, ef þeim þykir hún of rífleg. Reyndar má ekki höggva stórt skarð í þessa upphæð, ef hún á að koma að nokkru gagni. Enda hygg jeg, að þessi upphæð fari mjög nærri rjettu hófi, og treysti jeg þeim vel til úthlutunarinnar, sem ætlað er að framkvæma hana. Tel jeg víst, að till. póstmeistara megi og eigi að ráða einhverju um það, hvernig fjenu er úthlutað.

Jeg býst nú ekki við að taka oftar til máls, nema sjerstakt tilefni gefist til. En jeg verð að segja, að ef þessi till. verður „hundsuð“, þá skal þetta frv. ekki hafa mitt atkvæði út úr þessari hv. deild. Þetta er engin hótun, því að jeg býst við, að svo sjeu netin nú úr garði gerð, að þetta frv. nái samt fram að ganga. En því skal jeg þá lofa að reyna síðar, ef tækifæri gefst, að gera nánari grein fyrir því, á hvern hátt tillögur hv. fjárveitinganefndar eru nú gerðar í þessu launamáli.