01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í C-deild Alþingistíðinda. (2161)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram örlitla brtt., á þgskj. 431, við þær till., sem hv. fjárveitinganefnd hefir lagt fram. Vil jeg skoða þessa brtt. mína sem leiðrjetting á vangá, sem jeg býst við að hv. fjárveitinganefnd hafi orðið á, er hún bar fram brtt. við 2. gr. frv.

Það var tekið fram við síðustu umr. málsins af mjer og öðrum, að ef rjettlæti væri að nokkru fylgt, yrði að ganga svo frá þessu máli, að ekki einungis forstjórar stofnana, heldur og undirmenn þeirra, og yfirleitt starfsmenn við stofnanir landsins, fengju nokkra launabót. Nefndin hefir nú tekið þetta til athugunar, sem ekki er að kynja, því að eftir stefnu þessa þings í dýrtíðaruppbótarmálum, virðist fyrst þurfa að taka tillit til launahæðar og efnahags starfsmanna, án tillits til þess, sem rjett væri, sem sje að gjalda öllum ákveðna uppbót á því kaupi, er þeim er greitt fyrir starfa sinn. Býst jeg því við, þegar bygt er á þessum grundvelli, að öllum komi saman um, að lægri starfsmenn stofnana eigi ekki síður skilið að fá bætt kjör sín en forstjórar þeirra. Þeir eru vanalega ver staddir, eru yngri menn að vísu, en hafa oft fyrir fleirum að sjá en forstjórarnir og eldri starfsmennirnir, sem hafa lengi þjónað og fengið meiri laun í lengri tíma.

Hvað nú snertir þessa aðstoðarmenn við söfnin, landsbókasafn og þjóðskjalasafn, þá er nú með till. fjárveitinganefndar úr þessu bætt um 1. og 2. bókavörð. Þeim er þar, ásamt aðstoðarskjalaverði, ákveðin 500 kr. viðbót. En hjer hefir gleymst að taka með einn mann, sem að vísu er ekki talinn til aðstoðarbókavarðanna, en þó einn af helstu starfsmönnum landsbókasafnsins. En það er sá maður, sem nú er skrásetjari við safnið og allir hjer inni munu kannast við. Þarf ekki að taka það fram, að þessi maður hefir með höndum eitthvert vandasamasta starfið við safnið, starf, sem engum er mögulegt að leysa af hendi nema þeim, sem lærður er og fróður um sögu þessa lands og annara, og auk þess sjerstaklega duglegur og ábyggilegur maður. Nú er það öllum kunnugt, að þessi maður hefir getið sjer það orð, að hann væri frábærlega vel til þessa starfs fallinn, eins og reyndar allra þeirra starfa, er hann tekur að sjer. Ætti það þá og því um síður að vera keppikefli Alþingis, að þessi maður hyrfi frá starfinu, til þess að leita sjer lífvænlegri atvinnu. Landsbókasafnið og hvaða slíkt safn sem er verður aldrei safn í lagi, ef þess er ekki gætt að halda við það góðum mönnum. Verðum vjer því að sjá um, að safnið missi ekki svona mann, úr því til er vel hæfur. Öllum, sem vit hafa á, ber saman um það, að hjer er sá maður, sem allra manna er líklegastur til að geta staðið fyrir bókasafnsstörfum í framtíðinni, þ. e. a. s. allra þeirra, er vjer höfum á að skipa innanlands.

Jeg skal jafnframt geta þess, að þessi maður, sem þegar hefir getið sjer orð, bæði sem fræðimaður og ágætur starfsmaður, hefir nú nýlega leyst af hendi loflegt próf í lögfræði, þótt ekki sje það nauðsynlegt til hans starfa. Þetta ber vott um, hvernig hjer er ástatt um manninn og þau störf, er hann snýr sjer að. Og jeg get þessa líka til þess að láta hv. þm. vita, að þessi maður á margs úrkosta og mun ekki geta sætt sig við að vera settur hjá, þegar laun annara starfsmanna safnsins eru bætt. Honum hafa, býst jeg við, þegar staðið ýmsir vegir opnir, og mun eðlilega ekki verða minni eftirspurn eftir færum andlegum starfsmönnum eftirleiðis. Jeg vil ekki taka á mig þá ábyrgð, að þeir menn, sem að allra áliti eru hinir nýtustu, hverfi frá opinberum þjóðnytjastörfum, sakir ljelegrar meðferðar.

Það kom fram hjá hv. frsm. (M. Ó.), að nefndin myndi ekki snúast móti þessari till., enda mun það stafa, eins og jeg tók fram í upphafi, fremur af vangá en ásetningi, að nefndin hefir ekki tekið þenna mann með. Vona jeg, að hv. þm. muni ekki bregðast illa við, heldur samþykkja þessa upphæð, sem ekkert munar um í allri þessari súpu, en hins vegar lítur þó allajafna betur út að setja þá menn ekki hjá, sem eiga að vera með.

Annars mun jeg leiða hjá mjer umræður um frv. að þessu sinni, en sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg tek í till. þær, sem fram eru komnar. En þó skal jeg geta þess, að mjer sýnast till. nefndarinnar allar miða að því að koma á meira rjettlæti og sanngirni, og virðist því sjálfsagt, að þær nái fram að ganga.