01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Það eru að eins nokkur orð út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Hann virtist álasa nefndinni, eða öllu heldur þessum fáu mönnum úr henni, sem hann hefði minst á þetta við, fyrir það, að þeir hefðu ekki getað gengið inn á brtt. hans og að þeir hafi lýst yfir því, að þeim þætti upphæð þessi heldur há. Þetta virðist hv. þm. (J. B.) áfellisvert, en hann gleymir því, að það hefir svo oft verið tekið fram, að nefndin hefir haft svo margs að gæta, að nú er einmitt svo ástatt, að það verður líka sjerlega að gæta að hag landssjóðs. Á síðasta þingi var ákveðin þóknun einmitt handa þessum starfsmönnum landsins, og verður maður þá að líta svo á, að það hafi áreiðanlega verið mjög ósanngjörn viðbót, sem þeim var veitt í fyrra, ef hún getur ekki dugað til næsta reglulegs þings. Nefndin hefir vænst þess, að þeir, sem hafa fengið bætt launakjör sín, gætu beðið til næsta reglulegs fjárlagaþings. Það er ekki verið með þessu, sem hjer er gert, að bæta launakjör eins einasta manns svo, að fullnægjandi sje, þrátt fyrir það, þó að svo sje að heyra á hv. þm., sem þeim hafi þótt hún helst til ríf á stykkjunum við suma menn. En ef þetta atriði verður tekið til athugunar í Ed., þá treysti jeg nefndinni þar fullkomlega til þess að taka málið þar til samviskusamlegrar athugunar, og jeg býst ekki við, að það hafi nein áhrif á nefndina í hv. Ed., þótt hún frjetti það, að einhver undirnefnd hjer í Nd. teldi þessa upphæð helst til háa. — Annars munu ýmsir úr nefndinni hjer greiða atkvæði með þessari brtt., því að þeir hafa alveg óbundnar hendur um það.

Annars finst mjer það einkennilegt, að mennirnir skuli vera við starfann áfram, því að þeir eru ekki svo ófærir til annars, enda hygg jeg, að þeir myndu leita sjer annarar atvinnu, ef þetta væri með öllu óbærileg laun, og þess vegna held jeg líka, að þeir hljóti að fá eitthvað meira til að lifa af, því að þeir gætu ekki lifað af þessum launum einum. Jeg veit að vísu ekki, hvað þeir fá í laun, en það eitt veit jeg, að ef þeir fá ekki nema 1.000 kr. þá getur enginn lifað af því, ef hann hefir fjölskyldu.

Hvað snertir brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þá skal jeg geta þess, að hann tók það fram, að það mundi hafa verið af vangá, að þessi maður var ekki tekinn með, en jeg held, að það hafi verið svo, að hans var alls ekki minst. Jeg get ekkert um það sagt, hvernig nefndin myndi hafa litið á það, ef um hann hefði verið rætt, en jeg get hugsað mjer, að henni hefði ekki þótt það nema eðlilegt að bæta eitthvað kjör hans. Jeg get nú ekkert sagt um, hvað hann muni hafa alls og alls með uppbótinni, en geri þó ráð fyrir um 3.000 krónum. Hv. þm. (G. Sv.) hefir heldur ekkert sagt um það, hvort hann hefði annað starf, en þó gat hann þess, að hann hefði gert það þrekvirki að taka próf í lögfræði. Að vísu er maðurinn duglegur, og þó að námsgreinin sje ekkert sjerstaklega erfið, þá myndi þó hver meðalmaður hafa þurft að eyða miklum tíma í þetta. Þegar litið er á það að taka próf á mjög stuttum tíma, þá verður maður að álíta, að hann geti ekki síður, eftir að hann er búinn að afla sjer aukinnar þekkingar, náð inn talsverðum aukatekjum. En jeg býst nú við, að jeg muni greiða atkv. með þessari till., ekki síst vegna þess, hve maðurinn hefir sýnt mikinn dugnað af sjer.

Jeg skal þá að endingu geta þess, að það eru með öllu óbundin atkv. um þessa till., og það er langt frá mjer að vilja leggja nokkuð á móti henni. Það munar ekki heldur svo mikið um það, að í það ætti að horfa, ef um það væri að ræða að missa slíkan mann að öðrum kosti.