01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg vildi gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli, því að jeg hefi líklega sjerstöðu í því. Að sumu leyti get jeg látið mjer lynda umsögn hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). En áður en jeg kem að greinargerðinni vildi jeg minnast lítillega þriggja hv. þgdm., sem hjeldu yfir mjer líkræður við 2. umr. þessa máls. Jeg byrja þá á hv. frsm. fjárveitinganefndar (M. Ó.), en ætla þó ekki að vanda mjög til þeirra svara, því að flest af því, sem hann sagði, eða af því, sem jeg heyrði, var ekki annað en hártoganir á orðum mínum. En það var þó eitt atriði, sem jeg heyrði hjá honum og mig furðaði mjög á; það var að hann skyldi skorta einurð til þess að viðurkenna, að við hefðum talað saman um brtt. mína á þgskj. 414, um aukakennara landsskólanna. En það var nú samt svo, að formaður nefndarinnar bar ekki við að mótmæla því fyrir sitt leyti. Vissi jeg áður, að hann var drengurinn meiri og vildi eigi mótmæla því, er satt var. Mælikvarði þessi á drengslund þeirra, sem mælt er við undir 4 augu, er harla glöggur.

Þá er hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Hann tók það strax fram í upphafi ræðu sinnar, að hann ætlaði ekki að leggjast á náinn. Hv. þm. (E. A.) var ógnarlega hóglátur, eins og fyrverandi ráðherra sæmir, en það var dálítið grunsamleg meðferð hans á sumum tölunum, og getur verið, að það hafi haft nokkur áhrif á atkvgr. Hann tók t. d. mann, sem hefði 3.500 krónur í laun og eftir frv. átti að fá 500 króna viðbót, en dýrtíðaruppbótin þó að reiknast eftir 3.500 kr. Eftir till. minni átti hún að greiðast af nýju laununum, 4.000 kr., og hlaut því að lækka úr 525 kr. í 350 kr. Hann sagði, að sú raunverulega uppbót, sem þeir fengju, yrði 115 kr., ef till. mín yrði samþykt, og að það væri svo lítilfjörleg uppbót, að þingið stæði sig ekki við að bjóða hana, sóma síns vegna. Þetta hefði mátt segja, ef rjett hefði verið með tölurnar farið. En sannleikurinn í þessu er sá, að hin raunverulega uppbót, sem hefði fengist eftir minni till., er 325 kr., en ekki 115 kr. Af 3.500 kr. er dýrtíðaruppbótin 525 kr., og af 4.000 kr. er hún 350 kr. þessi maður hafði því áður 3500 + 525 = 4.025 kr., en hefði nú eftir till. minni með dýrtíðaruppbótinni fengið 4.000 + 350 = 4.350 kr. En þetta hefir ekki neina þýðingu hjeðan af, úr því að till. mínar eru feldar, og má mjer því á sama standa, en mjer fanst rjett að leiðrjetta þennan misskilning hv. þm. (E.A.).

Þá kem jeg að hv. þm. Stranda. (M. P.). En jeg get þó slept að athuga sumt í líkræðu hans. Einu vil jeg þó ekki sleppa. Hann lagði áherslu á það atriði í ræðu minni, þar sem jeg hafði tekið það fram, að embættismannafjöldinn væri orðinn svo mikill hjer á landi, að ef embættum yrði eigi fækkað, yrði nauðsynlegt, að hinir lægra launuðu embættismenn gætu haft einhverja aðra atvinnu utan hjá opinbera starfanum. Jeg lagðist á móti þeirri skoðun, að allir embættismenn yrðu að vera svo launaðir, að þeir þyrftu ekki öðru að sinna en embættisverkum sínum. Þetta taldi bann mestu skaðræðiskenningu, og þá skaðræðismenn þjóðfjelaginu, er kæmu með slíkar till., og beinir hann því eðlilega þessu skeyti til mín.

Hvorki finst mjer nú þetta góðgjarnlega mælt nje viturlega hjá honum, hvað sem öðrum kann að finnast.

Þau 900 ár, sem kristni hefir verið í landi hjer, hafa embættisstörf verið rækt í sambandi við búnað. Allan þann tíma hafa flestir prestar haft búskap með höndum, og þó rækt störf sín vel og sumir leyst af hendi bókmentaleg þrekvirki. Og í öllum embættastjettum hafa verið til menn, sem hafa haft öðrum störfum að sinna en aðalstörfum sínum, jafnvel í læknastjettinni, og þó hafa þeir líklega síst allra embættismanna tækifæri til aukastarfa.

Jeg tek þetta fram af því, að mjer fanst, að á mig væri gerð óvingjarnleg og óviðkunnanleg árás, svo að jeg viðhafi sömu orð og hæstv. forsætisráðherra hafði um till. mínar um daginn, að þær væru árásir á fjárveitinganefndina. Jeg skal nefna, þm. til athugunar, menn úr öllum eldri embættisstjettum, sem auk embættanna og búnaðarins hafa leyst af hendi bókmentaleg þrekvirki. Til þeirra tel jeg Hallgrím Pjetursson, Ara fróða, Jón Espólin og Odd Hjaltalín. Telja mætti aðra tugum saman, sem stundað hafa búskap og rækt þó vel embættisstörf. Og það er í raun og veru svo, að mikill hluti þessara starfsmanna hefir nú svo lítið að gera mikinn hluta ársins, eins og t. d. kennarar og prestar, að þeir gætu að ósekju lagt jafnframt á sig önnur störf.

Þá skal jeg víkja snöggvast að frv. eins og það liggur fyrir nú. Jeg skal taka það þegar fram, að jeg mun greiða atkv. móti frv., af því að það er kák og nær ekki tilgangi sínum, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók fram, af því að hjer er ekki gengið að verki eins og við átti, og hækkuð dýrtíðaruppbótin eftir þörfum þeirra, sem hnekki bíða mestan af dýrtíðinni. En þessi tilraun hefir mishepnast svo hrapallega, að jeg get ekki ljeð henni fylgi mitt. T. d. skal jeg nefna það, að rektor mentaskólans, sem hefir 3.600 kr. árslaun og 395 kr. dýrtíðaruppbót og auk þess ókeypis húsnæði, ljós og hita, sem nemur að minsta kosti 2.500 kr., á að fá 500 kr. viðbót eða jafnháa og þeir, sem hafa 2.000 kr. árslaun. Laun rektors verða þá samtals um 6.995 kr. Jeg segi ekki, að þetta sjeu of há laun, en jeg segi, að hjer sje engin samkvæmni í eða jöfnuður.

Hjer um bil sama máli er að gegna um rektor gagnfræðaskólans á Akureyri. Hann hefir 3.000 kr. árslaun, 672 kr. dýrtíðaruppbót, ókeypis húsnæði, ljós og hita, sem nemur 2.500 kr., og hann á líka að fá 500 kr. viðbót. Laun hans mundu þá nema samtals 6.672 kr.

Jeg skal ekki nefna fleiri einstök dæmi; jeg vildi að eins láta þess getið, hvers vegna jeg gæti ekki stutt frv. Úr því er nú orðin sú ómynd, sem jeg vil engan þátt eiga í, og þótt með því sje fengin sú bót á kjörum lækna, sem jeg vildi styðja, þá tjáir ekki að kaupa þeim þau hlunnindi með þessu handahófsverki. Þeim má líka auðveldlega bjarga með einfaldri þingsályktunartill., ef frv. fellur, því fremur, sem allir betur stæðir læknar hafa nú fengið dýrtíðaruppbót að mun af aukatekjum, eftir þingsályktunartill., sem samþykt var hjer í dag.

Inn í frv. hefir nú verið fljettað að óþörfu ákvæði um 40% dýrtíðaruppbót til þingmanna, og mun þessi gerhygli hafa átt að seiða að því atkvæði. En ekki skal þessi fleygur freista mín, og má frv. fara veg allrar veraldar mín vegna, þótt sú uppbót týnist. Hún er mjer ekki svo hjartfólgin.