01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Bjarni Jónsson:

Menn hafa verið hjer svo þungorðir og reiðir, að jeg á bágt með að stilla orð mín svo í hóf, að vel fari. Þó mun jeg reyna, og mun jeg koma sem minst inn á almenna hlið málsins. En þó get jeg ekki slept henni með öllu, en reyna skal jeg að viðhafa svo vingjarnleg og hlýleg orð, að enginn þurfi að reiðast þeim. Það er þá þetta, sem jeg enn þá einu sinni vildi sagt hafa, að síðan peningar fjellu svo mjög í verði, að menn hafa orðið að bæta upp hinn svikna gjaldeyri, sem greitt hefir verið með, þá hefir það komið fram, að skort hefir mjög á rjettlætistilfinningu þm. og rjetta hugsun, en menn munu vilja nú ef til vill segja, að það væri ekki mikill skortur, en svona er það nú samt. Minst bar á þessu árið 1916, en þó kom þegar inn þetta rangláta, sem enginn rjetthugsandi maður getur felt sig við og gerir þessa sjálfsögðu uppbót að fátækrastyrk, að gjalda þeim ógiftu minna kaup fyrir jafnvel unnið verk heldur en giftum manni. Eða hvaða vinnuveitandi eða húsbóndi mundi leyfa sjer að hafa slíkt í frammi við sína heimamenn. En hjer á hv. Alþingi er þetta haft í frammi við þessa stjett vinnumanna, af því að þeir sitja svo fastir í skuldum og rótgrónir, að þeir geta eki losað sig úr ánauðinni. Lausast er um peningana við læknana, sem allir vita að geta tekið þann kostinn að hætta að þjóna landinu, þar sem bæði er mikil eftirspurn eftir þeim erlendis, og svo þar sem alþýða manna skilur það best, að hún geti ekki án þeirra lifað, og vill því vinna alt til að njóta kunnáttu þeirra. Laust er og um símamenn og verkfræðinga, sem nóg geta fengið að gera og alstaðar fá atvinnu, bæði hjer og erlendis. Þessum mönnum eru og veitt 6.000 kr. laun, þar sem öllum öðrum er að jafnaði veitt 3.000 kr. laun. Mönnum finst það sjálfsagt að bjóða slíkum mönnum 6.000 kr. laun, en enginn talar um að hækka laun háskólakennaranna, sem hafa nokkuð yfir og undir 3.000 kr. í laun, og er þó þessum mönnum trúað fyrir að ala upp mentamenn landsins. Þetta er hin almenna meðferð á málinu, og þeir menn, er svo haga sjer, vonast eftir að fá hrós kjósenda sinna. Menn kunna að segja, að þeim sje vorkunn, þessum hv. þm., þar sem þingið hafi ekki fundið nein þau ráð, sem dygðu. En þessu verð jeg að neita, því jeg hefi sjálfur gefið því fullgóð ráð þessu viðvíkjandi. Jeg hefi sem sje hvað eftir annað borið fram frv. þess efnis, að greiða laun embættismanna eftir verðlagsskrá. Auðvitað hefði þetta orðið til þess, að á 1. ári hefði landssjóður tapað allmikilli upphæð, það ár, sem launin voru fyrst greidd í landaurum, en tollar og aðrar tekjur teknar í peningum, en hitt er þá ráð, að taka tekjurnar líka í landaurum. Ef þessu væri þann veg farið, þá þyrftu menn ekki að sitja dögum saman á þingi og rífast um jafnauðvelt mál og það, hvort landssjóður skuli borga verkamönnum sínum uppbót á verðfalli peninganna.

Jeg ætla að leyfa mjer, úr því að það barst upp í hendur mínar bók eftir mætan og merkan mann, sem allir viðurkenna, og munu því ef til vill trúa betur en mjer, að lesa upp, með leyfi forseta, nokkrar línur. Þetta er skrifað árið 1839, af ekki ómerkari manni en Tómasi Sæmundssyni.

„Landaurar eru máttarstólpi undir öllu bjargræði voru; þeir standa ætíð stöðugir, þegar einn eyrir er lagður á móti öðrum. Án þeirra getur maður síst verið, því á þeim þarf að halda til helstu nauðsynja, fæðis og klæðnaðar, og eftir þeim verður hjer á landi jafnan hollast að setja afgjald og tekjur, laun embættismanna og annað því líkt“.

Þessi orð voru sönn 1839, og þau eru jafnsönn í dag, eða öllu heldur sannari, vegna þess, að þá þektist ekki það verðfall peninganna, sem nú er. Jeg hefi áður nefnt, hvað það í eðli sínu er lítið smáræði að láta t. d. mann hafa 3.000 kr. laun, því það, sem fyrir stríðið fjekst fyrir 3.000 kr., fæst nú fyrir 8.000 kr., í fyrra fyrir 7.300 kr., nákvæmlega útreiknað. Þar sem því landssjóður veitir 3.000 kr. í laun, þá leggur hann á þá upphæð skatt, sem nemur 4.000 kr., því að tilætlunin er sú, að menn geti dregið fram lífið á laununum. Nú er því miður svo, að langt er frá því, að nokkuð sómasamlegt hafi komið fram á þinginu í þessu máli. Má t. d. nefna lögin um dýrtíðaruppbótina, sem samþykt voru í fyrra, því að þau eru dæmalausustu lögin, sem spurst hefir til um víða veröld. Þar er t. d. svo ákveðið, að sjeu verkamenn landssjóðs einhleypir, þá skuli þeir enga uppbót fá, en ef þeir aftur á móti eiga eitthvað af krökkum, þá skuli þeir fá svolitla slettu, þó ekki sem uppbót, heldur sem fátækrastyrk og meðgjöf með börnum sínum. Með öðrum orðum, þar er ekki nokkurt orð eða ákvæði, sem ekki er blóðmóðgandi fyrir þá, sem vinna fyrir þetta land. Mjer er það mikil ánægja, að jeg skuli vera sammála sessunaut mínum (S. St.), sem talinn er maður sparsamur á fje landssjóðs,og verð jeg að játa, að rjett sje það hjá honum, að ef vel ætti að vera, þyrfti að breyta þessu frv. mikið, til þess að koma því í samræmi. Rjetta orsökin til þess, að fjárveitinganefnd leyfði sjer ekki að koma með fullkomnara frv., mun vera sú, að hún hafi ekki búist við, að það mundi finna náð fyrir sanngjörnum(!) augum hv. deildarmanna, því það er margreynt, að ekki er það hugsanlegt, að neitt það geti gengið fram í þessu máli, sem sje rjett eða sanngjarnt.

Þetta vildi jeg nú sagt hafa um almenna hlið málsins, og jeg vona, að jeg hafi sagt það svo mildilega, að enginn hafi þurft að reiðast, enda hefi jeg valið þau mýkstu orð, er tunga vor á til. Nú vildi jeg að eins gera nokkrar athugasemdir við einstaka brtt. það kom fram í ræðu hv. þm. Barð. (H. K.), að hann hugsaði, að dýralæknirinn í Reykjavík fengi sömu dýrtíðaruppbót og dýralæknirinn á Akureyri. Þessi misskilningur er því fólginn, að allir, sem tilnefndir eru í 4. gr., skulu fá 500 kr. upp bót, en nú er þess að gæta, að dýralæknirinn í Reykjavík heyrir undir þann flokk frv., sem nefndur er í 5. gr., en þar eru þeir taldir, er eiga að fá þá uppbót, að laun þeirra verði 2.000 kr. Ef mig minnir rjett, hefir dýralæknirinn hjer nú orðið 1.900 kr., svo að launaviðbót hans verður 100 kr. Jeg vil taka undir það með honum (H.K.), sem hann sagði um laun póstþjóna, og mun jeg því greiða þeirri till. atkv. mitt. Því hana tel jeg rjetta. Líka mun jeg greiða atkvæði með tillögunni á þingskj. 431, þar sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) leggur það til, að sú breyting verði á þgskj. 423, 1. tölulið, að í stað 1.500 kr. komi 2.000 kr. og að 500 kr. launaviðbót verði veitt skrásetjaranum við landsbókasafnið. Jeg skal ekki fara að endurtaka vel sögð og sönn orð, er höfð hafa verið um þennan mann hjer í deildinni, því jeg er þeim alveg samþykkur, enda hefi jeg áður haft tækifæri til þess að láta álit mitt í ljós um hann. Svo var líka tillaga á þingskj. 422, sem jeg hefi borið fram. Það stendur svo á, að sjerstakur kennari í gotnesku og engilsaxnesku hjer við háskólann hefir 1.000 kr. laun í fjárlögunum. Jeg sje enga ástæðu til þess að undanskilja þennan mann þessari uppbót, því þó hann hefði jafnvel 2.000 kr., þá væri þó engin ástæða til þess að sjá ofsjónum yfir þessum 500 kr., sem jeg ætla honum. Þessi maður er að vísu einhleypur, en hann á sjúka móður, sem hann verður að ala önn fyrir, og svo systur, sem að vísu mun að einhverju leyti vinna fyrir sjer sjálf. Annars er jeg ekki neitt nákvæmlega kunnugur heimilishögum, og skal því ekki vera orðmargur um það atriði. En jeg vil sjerstaklega mæla með því, að tillagan verði samþykt, sökum þess, að maðurinn er mjög efnilegur málfræðingur. Hann hefir sjerstaklega ráðist í að rekja íslenska málfræði saman við indogermönsk mál, og er það verk mjög vandasamt og seinlegt, og væri það mikill skaði, ef hann þyrfti að hætta við það starf, og þætti mjer vel unnið, ef þessi upphæð yrði til þess, að hann þyrfti ekki að taka aukatíma. Auk þess fæ jeg ekki skilið, að nokkur geti haft nokkuð að athuga við þessa tillögu, og skoða jeg það því af gleymsku orðið, að hann var ekki þegar tekinn með öðrum kennurum háskólans.