01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Gísli Sveinsson:

Jeg vildi að eins segja eitt orð í tilefni af ummælum hv. frsm. (M. Ó.) um skrásetjarann við landsbókasafnið. Jeg skil þó orð hans á þá leið, sem hann hafi fremur mælt þau í gamni heldur en sem mótmæli gegn brtt. minni, sem hann var áður búinn að lýsa sig fremur hlyntan, að því er mjer skildist.

Hv. frsm. (M. Ó.) gat þess, að ekki gæti skrásetningarstarfið talist aðalstarf mannsins, þar sem hann hefði tekið lögfræðipróf. En svo stóð á, að ekki var hægt að vinna jafnmikið á landsbókasafninu í vetur er leið og ella hefði verið gert, sökum kolaskorts. Þessi maður, er hafði áður stundað lögfræðinám um nokkur ár, en hætt við það og horfið að öðrum rannsóknum, er hugur hans hneigðist meir að, notaði nú þennan tíma til þess að ljúka lögfræðiprófinu. Jeg veit ekki,nema fleiri sjeu þeir en jeg, sem vilja meta þetta meira og álíta það meira „frægðarstrik“ en þótt hann hefði notað þennan tíma til þess að leita sjer annarar atvinnu, t. d. við skriftir. En auðvitað á starf hans við safnið að vera aðalstarf mannsins í öllum eðlilegum tilfellum, og er það líka fyllilega.

Þegar talað er um að bæta kjör starfsmanna landsins, verður ekki komist hjá því að bæta upp þessum manni og öðrum, er stendur líkt á fyrir. Og mæli jeg þetta ekki af því, að jeg viti ekki, að aðrir hv. þm., og þar á meðal hv. frsm. (M. Ó.), eru mjer að sjálfsögðu sammála í þessu efni.