02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Hákon Kristófersson:

Jeg hygg, að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafi misskilið nokkuð af orðum þeim, er jeg sagði í gær. Hv. þm. (E. A.) fór þannig með mín orð, að jeg hefði sagt, að þeir þm., sem búsettir eru í Reykjavík, þyrftu engu að sleppa niður af störfum sínum. Þetta voru ekki mín orð, en jeg sagði einungis allra helst ef þeir ekki þyrftu að fella niður önnur störf, og það hygg jeg vera, í flestum tilfellum. Hefði hv. þm. (E. A.) því eins getað sparað sjer sumt af ummælum sínum. Einnig er það staðleysa, að jeg hafi haldið því fram, að þeir þm., sem eru búsettir í Reykjavík, væru síður vel vinnandi en þm. utan af landi. Síður en svo. Það er t. d. alkunna um hv. 2. þm. Árn. (E. A.), hvílíkur afkasta- og vinnumaður hann er. En hitt er annað mál, að þeir standa ólíku betur að vígi að sinna þingstörfum heldur en þm. utan af landi, og þeir eru betur haldnir með 8 kr. í dagpeninga heldur en hinir með 10 kr. Um það er óþarfi að fara mörgum orðum; það segir sig sjálft.

Þá sagði hv. þm. (E. A.), að jeg myndi ekki geta leitt rök að því eða líkur, að hann hefði ekki getað unnið sjer neitt til gagns og þarfa á þessum tíma, hefði hann ekki orðið að sinna þingstörfum. Jeg fór alls ekki inn á það svið, og hefði hv. þm. (E. A.) því getað sparað sjer þau ummæli, er hann viðhafði í sambandi við þetta. En því hefir þó verið haldið fram, að kennarar þyrftu sumartímann til þess að búa sig undir kensluna næsta vetur, og ef þeir gætu ekki sint því sakir anna, kæmi það ef til vill niður á nemendum þeirra. — Eftir því mundu það verða lærisveinar hv. þm. (E. A.), er yrðu fyrir halla af þingsetu hans, en hann ekki.

Jeg verð að taka undir með hv. þm. N.-Ísf. (S. St), að besta dýrtíðaruppbótin til þingmanna utan af landi hefði verið að fresta þinginu fyrir löngu. En aðalmótstaðan gegn því mun hafa komið frá þingmönnum í Reykjavík, og getur verið, að það sje af þeirri ástæðu, að þeir sjeu þeim mun glöggskygnari en aðrir þm. Mæli jeg þetta þó ekki til hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), enda telst hann ekki lengur til Reykjavíkurþingmanna. En hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði við mig í „privat“samtali í vor, að ef þinginu yrði frestað, myndi hann krefjast þingfararkaups síns eins og það sæti. Sú krafa hefði þó að minsta kosti ekki stuðst við neina sanngirni, hefði hann getað aflað sjer tekna á annan hátt!

Það eitt lá í orðum mínum, að þm. þeir, sem búsettir væru í bænum, gætu jafnt annast um störf sín sem fyr, þó að þingið sæti, en ekki hitt, að þeir ynnu þingstörf sín ver en aðrir. það var útúrsnúningur, og er leitt til þess að vita, að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) skuli vera búinn þeim eiginlegleika að fara rangt með orð annara og snúa út úr þeim, eins og svo oft hefir sýnt sig.

Það má geta þess í þessu sambandi, að engum þm. utan af landi kom til hugar, að þingið sæti lengur en 5—6 vikur. En nú hefir það þegar setið í 11 vikur, og enginn veit, hve langt muni til þingloka. Af þessu leiðir, að þm. utan af landi verða enn ver úti heldur en hefðu þeir vitað þetta fyrirfram.

Jeg hygg, að jeg hafi ekki fleira að segja að þessu sinni. Jeg ann hv. 2. þm. Árn. (E. A.) þeirrar sæmdar, sem hann hefir aflað sjer með því að snúa út úr orðum mínum, og mun ekki mæla til hans fleiri orðum, nema hann gefi mjer sjerstakt tilefni til þess.