01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (2191)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg ætla ekki að flytja neina framsöguræðu fyrir nefndarinnar hönd, því að nefndin hefir að eins látið þessa till. koma í deildina til þess, að hún geti ráðið ráðum sínum. En eftir því, sem þessu máli hefir reitt af hjer í deildinni, þá þótti nefndinni nauðsyn á að bæta kjör lækna. Sumir hafa lýst yfir því, að þeir sjeu ekki ánægðir með þá uppbót, sem gert er ráð fyrir í launauppbótarfrv. embættismanna. Og meiri hl. nefndarinnar taldi þá 500 kr. uppbót allsendis ófullnægjandi; jafnvel má telja líklegt, að hún nægi ekki til þess að halda þessum embættismönnum í embættinu. Þetta vil jeg biðja hv. deildarm. að athuga. Jeg er sannfærður um, að ef læknar fá ekki hærri bætur á þessu þingi, þá fara þeir að leita fyrir sjer um betri embætti, og eftir því, sem jeg veit best, mun engin skotaskuld fyrir lækna að afla sjer betri starfa, því eftirspurn er mikil eftir þeim í öðrum löndum. En jeg hygg, að deildin mundi þá álíta ver farið.

Jeg skal ekki fjölyrða frekar um till. þessa. Jeg býst við, að aðalflutningsmaður hennar taki til máls og mæli með henni. Jeg skal að eins geta þess, að í till. felst sú stefna, sem hreyft hefir verið, að öll uppbótin sje goldin úr landssjóði.