01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg ætlaði mjer að láta þetta mál afskiftalaust og taka ekki til máls um það, en nú hefir hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) sagt svo margt, sem jeg get ekki látið ómótmælt. Ef nokkur vafi hefði leikið á um það, áður en hann tók til máls, að tillagan yrði ekki drepin, þá skil jeg ekki, að sá vafi geti verið enn þá til, því að mjer finst hv. þm. (J. J.) hafa með ræðu sinni kveðið upp dauðadóm yfir tillögunni. Hann lýsti að vísu yfir því, að hann mundi fylgja tillögunni, en röksemdir hans voru alt annað en vel fallnar til þess að auka henni fylgi.

Hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) drap á það, að þeir hefðu ekki fallist á að hækka taxtann; hefðu vikið frá þeirri rjettu stefnu, að almenningur borgaði nokkuð af launauppbót lækna. Jeg skil ekki í því, hvernig hv. þm. (J. J.) getur slegið fram þessari staðhæfingu órökstuddri, þar sem það stendur óhaggað, að slík hækkun á taxta mundi helst koma niður á sjúklingunum, og afleiðing þess mundi verða sú, að fátæklingarnir mundu fremur hliðra sjer hjá því að sækja lækninn. Og þó ekki hefði verið nema þessi ástæða ein, þá hefði hún verið nægilega mikilsverð til þess að fella taxtahækkunarfrv.

Þá gat hv. sami þm. (J. J.) þess, að við, sem felt hefðum taxtahækkunina, hefðum látið það í ljós, að við vildum bæta úr kjörum lækna. Það er rjett hermt hjá hv. þm. (J. J.), enda höfum við sýnt það með atkvæðagreiðslunni fum launahækkun lækna, og er því óþarft að draga það í efa. Það eru talsverðar bætur fólgnar í launafrv. fyrir lækna, þó þær sjeu ekki alveg eins háar og æskilegt er. En mjer er það óskiljanlegt, að þeir skuli helst ekki vilja telja þetta launabætur, sem voru með taxtafrv., þar sem það er sannað, að 14 hluti lækna hefir minna en 500 kr. í aukatekjur; þó að gjaldskráin hefði verið hækkuð, mundi hækkunin aldrei hafa orðið meiri en 500 kr. hjá þessum (4 hluta, svo að þeir verða ekki fyrir neinum skaða, þó að þeir fengju ekki meiri uppbót; það væru þá helst þeir, sem tekjuríkari væru. Svo er það og hálfu hjákátlegra að vera altaf að stagast á þessari gjaldskrárhækkun, þar sem því hefir verið lýst yfir, í Læknablaðinu, að læknar taki tvöfalt meiragjald fyrir störf sín en gjaldskráin heimilar. Þessar röksemdir eru ærið ljettar á metunum og standa á völtum fótum.

Þá gat hv. þm. (J. J.) þess, að það væri ekki þeirra skylda, er með taxtahækkuninni hefðu verið, að bæta kjör lækna, heldur væri það þeirra, er felt hefðu gjaldskrárhækkunina. Það er nú ekkert vafamál, að hollara er að greiða þessa hækkun til lækna úr landssjóði heldur en að taka fjeð af sjúklingunum, og hálf leiðinlegt er, hve fast sumir hv. þm. halda í það.

Það virðist því vera rjett, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að það væri að gera sjúklingana að gjaldstofni. Jeg get ekki sjeð nokkra ástæðu til þess að fara þá leið, jafnvel þó nokkrir læknar yrðu fyrir það að bera skarðan hlut frá borði.

Hv. þm. (J. J.) drap á, að það væri ilt ef læknar tækju illa upp fyrir þingmönnum, að taxtahækkunin hefði verið feld. En jeg hygg, að þó að svo yrði, þá væri erfitt að benda á ástæðurnar til þess með rökum. Jeg get ekki sjeð, af hvaða ástæðu þeir eiga að reiðast, því að þeir segjast taka hærra gjald af sjúklingum heldur en gjaldskráin leyfir, og það hefir maður svart á hvítu, í blaði læknafjelagsins. Þeir um það, hvort það er rjett; það er ekki á mína ábyrgð. Hitt efast enginn um, að læknar eru alls góðs maklegir, og jeg þykist hafa sýnt, og býst við hv. þm. yfirleitt, að þeir sjeu alls góðs maklegir. Það er alls ekki rjett að draga það inn í umr., að þm. vilji ekki sinna kröfum lækna.

Það má geta þess hjer,að margir hjeraðslæknar hafa látið þá skoðun í ljós, að þeir vildu einna síst kjósa það, að fá launauppbótina af sjúklingum.

Þá drap hv. þm. (J. J.) á það, að læknar hefðu sýnt mikla hæversku og hógværð í þessu máli. Ó já, það fer nú eftir því, á hvaða mælikvarða það er mælt. Það sem þeir hafa látið til sín heyra, hefir ekki borið vott um neina sjerstaka hógværð. Þá mintist sami hv. þm. (J. J.) á það, að rjett hefði verið hjá læknum að hafa einmitt farið fram á taxtahækkun, þar sem þeir hafi vitað, að fjárhagur landssjóðs var þröngur. Þeir hafa vitað, að nóg fje var í kistuhandraða sjúklinganna! Þetta hefði ekki átt að koma fram, því það er ekki læknum til lofs, því það hefði ekki átt að vera aðalkapp lækna að taka sem mest fje úr vasa sjúklinganna. Enda ætti það að vera læknum ljóst, að þeir eru ekki eingöngu til vegna launanna, heldur jafnframt þó að minsta kosti til þess að gæta heilbrigði manna.

Jeg ætla nú ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Jeg hefði ekki sagt eitt einasta orð um till., sem jeg er meðflm. að, ef hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) hefði ekki haldið þessari gjaldskrárhækkun enn fram.

Jeg segi ekkert um það, hvort jeg greiði atkv. með eða móti till., þó jeg hafi nú þegar ráðið við mig, hvernig jeg muni láta atkv. mitt falla.