01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg hjelt, að búið væri að ræða þetta mál svo mikið fram og aftur, að ekki væri nein ástæða til að fara að ræða læknataxtana enn einu sinni. Mjer þykir því ekki eiga við að svara neinu í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og skal alveg leiða hana hjá mjer. En það voru nokkur orð í ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem gáfu mjer tilefni til þess að kveðja mjer hljóðs. Það var þessi dæmafáa kurteisi og nærgætni gagnvart mjer, sem komu fram í þeim ummælum hv. þm. (Sv. Ó.), að hann gæti ekki verið með till., af því hann væri svo hræddur um að móðga mig með þv. Mjer þykir auðvitað mjög vænt um þessa kurteisi, og jeg vona, að það verði ekki í eina skiftið, sem hv. þm. (Sv. Ó.) tekur slíkt tillit til mín og minna skoðana og hagar sannfæringu sinni eftir því, sem hann heldur að mjer líki best. Að hann heldur, að það mundi móðga mig, ef hann yrði með till., byggir hann á því, að jeg lýsti yfir því um daginn, að jeg mundi greiða atkv. á móti frv. um bráðabirgðalaunauppbót embættismanna, ef brtt. þessa hv. þm. (Sv. Ó.) yrðu samþyktar, en þær brtt. ætluðu læknum 75 kr. aukna hækkun. Jeg hjelt nú, að hv. þm. (Sv. Ó.) gæti gert sjer grein fyrir, hvers vegna jeg tók þessa afstöðu til þess, sem þá var á seiði. Það var ekki af því, að jeg vildi forsmá þessa hækkun okkar læknanna í sjálfu sjer, heldur var það hitt, að jeg vildi ekki þiggja þessar 75 kr. læknum til handa, þegar um leið átti að draga fleiri hundruð af flestum öðrum embættismönnum. Jeg þykist vita, að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafi ekki getað sett sig inn í þennan hugsanagang, og jeg gat ekki heldur búist við því af honum. Hann gat að sjálfsögðu ekki skilið, að mjer stæði ekki á sama um það, þó verið væri að gera annara kjör lakari um leið og mín væru bætt. En það kemur ekki að sök, því flestir hv. deildarmenn munu kunna að meta þessa aðstöðu mína, aðrir en þessi hv. þm. (Sv. Ó.).

Hv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að hjá sumum læknum næmi dýrtíðaruppbót af aukatekjunum ekki nema 20 kr. Það er alveg rjett, að einn læknir hefir gefið upp, að hann hafi ekki nema 50 kr. í aukatekjur. Af þeim aukatekjum ber honum ekki meiri dýrtíðaruppbót en 20 kr. Jeg skal líka viðurkenna það, viðvíkjandi orðum hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að fjórði hluti læknanna er þegar búinn að fá eins mikla uppbót eða meiri en þó taxtarnir hefðu verið hækkaðir um helming. En hinn hluti læknanna er ekki búinn að fá nándarnærri eins mikla uppbót. — Eins og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hagaði orðum sínum, var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo, að það væri 20 kr. á hvern lækni í landinu, sem þessi dýrtíðaruppbót næmi. Jeg veit, að hvorki honum nje öðrum dettur þetta í hug. Ef svo væri, er jeg ekki viss um, að hann væri tillögunni eins andvígur og hann er. En hann hefir þóst þurfa þess með, til að rökstyðja sitt mál, að haga orðum sínum á þessa leið.

Það er alveg rjett athugað hjá hv. þm. (Sv. Ó.), að þessi dýrtíðaruppbót útilokar það ekki, að hjeraðslæknar segi upp embættum sínum. En því meiri ástæða er fyrir þá að gera það, sem minna er sint rjettmætum kröfum þeirra hjer á þingi.

Út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) skal jeg að eins leyfa mjer að minnast á eitt atriði. Hann sagði, að læknar hlytu að vita það manna best, hve hættulegt það væri fyrir heilbrigði í landinu, ef sjúklingar þyrftu að borga mikið fyrir læknishjálp. Læknarnir verða að sjálfsögðu, eins og aðrir menn, að byggja ályktanir sínar um þetta efni á þeirri reynslu, sem þeir hafa fyrir sjer. Og jeg vil þá leyfa mjer að leggja eina spurningu fyrir hv. þm. (J. B.). Hver breyting hefir orðið á heilbrigði manna hjer í Reykjavík síðan læknarnir hækkuðu taxta sína? Hefir borið á því, að fólk hafi vitjað minna læknis eftir en áður? Jeg býst ekki við að reynsla læknanna sje sú, að heilbrigði sje neitt lakara en áður. En það er þegar búið að tala svo mikið um taxtahækkunina, að jeg ætla ekki að blanda henni meira inn í umr. nú.

Jeg býst við því, að þeir, sem á annað borð vilja bæta kjör læknanna fremur en orðið er, tryggi sjer, að brtt., sem tekin var aftur við 2. umr. launabótafrv., nái fram að ganga áður en þeir fella þessa till. Ef jeg væri viss um það, að sú brtt. yrði samþykt, þá skyldi jeg vera á móti þessari till. En jeg hefi nokkuð miklar líkur fyrir því, að sú brtt. fái ekki að ganga gegnum þessa hv. deild.