01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í C-deild Alþingistíðinda. (2200)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Einar Árnason:

Af því að jeg var á sínum tíma meðflm. að þessari till., þá finst mjer ástæða til að gera grein fyrir atkv. mínu. Það er nú langur tími síðan till. kom fram. Þá var hjer á ferðinni frv. til laga um að hækka laun lækna um 1000 kr. Það var nú ekki ætlun mín nje heldur annara flm. till., að þetta hvorttveggja ætti fram að ganga, heldur ætluðumst við til, að dýrtíðaruppbótin af aukatekjunum kæmi í staðinn fyrir þessa 1.000 kr. launauppbót. Þetta var nú hvorttveggja sent til fjárveitinganefndar og kom aftur frá henni í þeirri mynd, að farið var fram á 500 kr. launahækkun handa læknunum. Nú leit jeg svo á, að nefndin ætlaði ekki að sinna till., heldur að eins hækka launin. Gat jeg fyrir mitt leyti vel unað þeim málalokum og greiddi því atkv. með frv. En þar með áleit jeg að ætti að vera lokið launabótum til læknanna. Þess vegna kemur mjer það á óvart, að till. skuli nú koma frá nefndinni, í viðbót við þá launahækkun, sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Jeg skal að vísu játa það, að kröfum læknanna er ekki fullnægt með þeirri uppbót, sem frv. ætlar þeim. En þar sem nú sakir standa svo, að engum þeim kröfum er fullnægt, sem komið hafa fram í þá átt að hækka laun embættismanna, þá get jeg ekki sjeð, að fært sje að fullnægja kröfum læknanna að öllu, einkum þar sem það veldur mikilli óánægju og misrjetti, ef kröfum einnar stjettar er fullnægt að öllu leyti, en annara ekki nema að nokkru. Jeg mun því greiða atkv. á móti till. Jeg sje mjer ekki fært að ganga lengra gagnvart kröfum læknanna en að veita þeim þessa 500 kr. launauppbót, sem þegar hefir verið samþykt hjer í deildinni. Ekki af því, að jeg telji þá ekki alls góðs maklega, heldur af því, að nú þrengir að á svo mörgum sviðum, sem ekki er hægt úr að bæta til fulls. Enda vona jeg, að læknarnir muni sætta sig við þessa úrlausn og uni sæmilega við.