04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í C-deild Alþingistíðinda. (2212)

82. mál, landsverslunin

Einar Árnason:

Jeg á erfitt með að fella mig við þessa till., ekki af þeirri ástæðu, að jeg telji það hættulegt, þó að hún verði samþykt, heldur vegna þess, að jeg tel tæplega rjett, að þingið blandi sjer í hin smærri framkvæmdaratriði landsverslunarinnar. Jeg hygg, að þm. sjeu yfirleitt ekki svo fróðir í verslunarmálum, að heppilegt sje,að þeir geri ályktanir um, hvernig innbyrðis framkvæmdum verslunarinnar sje hagað.

Jeg veit ekki betur en að bæði þing og stjórn beri fullkomið traust til þeirra manna, er nú veita versluninni forstöðu. Er þá því síður ástæða til að binda hendur þeirra á nokkurn þann hátt, er geri þeim erfiðara fyrir um framkvæmdirnar. Jeg lít einnig svo á, að á þeim hvíli svo mikil ábyrgð, að var hugavert sje að taka fram fyrir hendurnar á þeim.

Verslunarráðið hefir þegar í öllum aðaldráttunum ímyndað sjer fasta skoðun um það, hvernig best er að haga starfrækslunni. En reynslan hefir sýnt, að ekki er hentugt að binda hin smærri atriði föstu formi, einkum þar, sem aðstaða er svo ólík í hinum ýmsu hjeruðum landsins, að varla verður sömu meginreglunni beitt alstaðar.

Ef þingið ætti að setja reglur um framkvæmdir verslunarinnar, býst jeg ekki við því, að menn gætu orðið á eitt sáttir um þær. Finst mjer þegar bóla á því í þessum umr. Það væri því heppilegast, að þingið leiddi þetta atriði alveg hjá sjer, en fæli forstjórum verslunarinnar allar innri framkvæmdir.

Um síðari lið till. hefi jeg lítið að segja. Sjálfsagt er, að landsstjórnin sjái fyrir því fje, sem þarf til rekstrar verslunarinnar. En orðalag liðsins get jeg ekki felt mig við.

Það er skorað á landsstjórnina að sjá fyrir lánum með nægilegum greiðslufresti. Það kemur auðvitað öllum saman um, að gott sje ef hægt væri að fá lán með nægum greiðslufresti. En um hitt geta orðið skiftar skoðanir, hvað sje nægur greiðslufrestur. Býst jeg við, að stjórnin verði að gera sjer grein fyrir því í hvert skifti. En ef hún getur ekki fengið lán með þeim greiðslufresti, er teljast megi nægilegur — hvað þá? Er þá meiningin að hætta við lántökuna og stöðva með því landsverslunina? Vitanlega getur slíkt ekki komið til mála. Get jeg þá ekki sjeð, að till. sje heppilega orðuð að þessu leyti.

Mjer hefir nú dottið í hug, að rjett væri af hv. deild að afgreiða þetta mál með rökstuddri dagskrá, sem jeg skal nú lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að landsstjórnin útvegi nægilegt fje til rekstrar landsverslunarinnar og annara nauðsynlegra framkvæmda, með sem bestum kjörum, og að stjórn landsverslunarinnar skipi úthlutun nauðsynjavara á þann hátt, er hagkvæmast er á hverjum stað, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“