04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

82. mál, landsverslunin

Þorsteinn Jónsson:

Þótt það heiti svo, að bjargráðanefndin flytji þessa till. á þgskj. 275, þá er það eigi svo, að öll bjargráðanefndin væri ásátt um að bera till. fram. Jeg var á því að telja till. óþarfa.

Jeg álít, að landsverslunarstjórnin eigi að hafa sem mest óbundnar hendur um það, hverjum hún fær landsverslunarvörurnar til af hendingar. Raunar bindur þessi till. það ekki alveg einskorðað, hverjir fái vörurnar til afhendingar. Svo langt var líka ómögulegt að ganga með till., því að hugsast getur, að sumstaðar fáist hvorki kaupmenn nje kaupfjelög til að taka vörurnar til afhendingar, gegn þeim kostum, er settir kunna að verða. Á þeim stöðum verður því að sjá um afhendingu varanna á annan hátt, og liggur þá næst að leita til sveitarstjórna.

Jeg býst við því, að till. verði skilin svo, að þar sem kaupmenn eða kaupfjelög sjeu fús til að taka vörurnar til úthlutunar, þá fái engir aðrir þær til úthlutunar. Sveitarfjelög hafa mörg undanfarin ár fengið talsvert af vörum frá landsversluninni til afhendingar. Þau hafa getað selt vörurnar lægra verði en kaupmenn og kaupfjelög. Þetta hefir orðið mörgum fátækum manni dýrtíðarhjálp. Tel jeg því rangt, að þeim sveitarfjelögum, sem kaupa vildu landsverslunarvörur, væri neitað um þær. Jeg tel það rangt að þeim væri þar með meinað að láta fátæka menn fá ódýrari vörur en þeir geta fengið ella. Jeg er sömu skoðunar og hv. flm. brttt. á þgskj. 281 (P. O.), að kaupmenn, kaupfjelög og sveitarfjelög fái vörurnar til afhendingar jöfnum höndum. Víðast myndi það verða svo, að sveitarfjelögin kærðu sig alls ekki um vörurnar til afhendingar, bæði vegna tímaskorts og annara erfiðleika. Svo að meginreglan myndi verða sú, að kaupmenn og kaupfjelög fengju vörurnar, þótt alls ekki yrði samþykt till. á þgskj. 275. Svo að þá ber að sama brunni, að till. er óþörf hvað það snertir.

Hvað seinni lið till. snertir, þá tel jeg það víst, að landsstjórnin álíti það sjálfsagða skyldu sína að afla landinu nægilegs rekstrarfjár, bæði til að reka verslunina og til annara þarfa.

Enn fremur álít jeg það sjálfsagða skyldu stjórnarinnar, þótt engin till. komi fram, að hún reyni að hafa láns- og vaxtakjörin sem hagkvæmust, og sömuleiðis tel jeg sjálfsagt, að hún reyni að hafa greiðslufrestinn nægilega langan, ef hún getur. En á þessu getur skiljanlega orðið misbrestur, hvort sem till. gengur fram eða eigi, því að eins og hv. deild veit, er það ekki þægilegt að fá peninga á þessum tímum. Jeg tel sem sagt óþarft að minna stjórnina á þetta. það er svo sjálfsagt, og hún hefir það í huga hvort sem er. Álít jeg því till. allsendis óþarfa, þótt hún geri hins vegar hvorki til nje frá, og get jeg því gengið inn á að samþykkja þá rökstuddu dagskrá, sem fram er komin frá hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.).