04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

82. mál, landsverslunin

Þorsteinn Jónsson:

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) taldi þessa till. marka nýja stefnu í rekstri landsverslunarinnar. Jeg get ekki sjeð, að hjer sje um neina nýja stefnu að ræða, því að jeg hygg, að kaupmenn hafi fengið vörur frá landsversluninni þegar þeir hafa beðið um þær, og þess vegna verði engin breyting á rekstrinum, þótt þessi till. verði samþykt. Jeg varð heldur ekki var við það, að sá hluti bjargráðanefndar, sem bar þessa till. fram, vildi láta útiloka sveitarfjelögin. Þrátt fyrir það, þótt þessi till. yrði ekki samþykt, er hin rökstudda dagskrá frá hv. 2. þm. Eyf. (E. Arna.), og ef hún verður samþykt, er ekki þar með útilokað, að kaupmenn fengju vörur frá landsversluninni. Mjer hefir fundist, að allir teldu það sjálfsagt, að kaupmenn og kaupfjelög fengju vörur frá landsversluninni til úthlutunar, þegar ekki væru sjerstakar ástæður fyrir hendi, að sveitarfjelögin fengju þær. Hv. þm. (B. K.) komst þannig að orði, að þingið hefði lýst yfir því, að það vildi ekkert með verslunarstjettina hafa, ef þessi till. yrði samþykt, en jeg vona, að menn sjái, að það felst ekki í þeim umræðum, sem hjer hafa farið fram í deildinni. Hv. þm. (B. K.) virðist sem það lýsi sjer einhver stjettapólitík í versluninni, hjá þeim mönnum, sem álíta þessa till. óheppilega, en jeg verð að segja það, að mjer virðist stjettapólitik koma fram hjá þeim mönnum, sem álíta, að þessi till. bjargráðanefndar verði mikil lífsnauðsyn fyrir landið, og að hana yrði að samþykkja, því að annars verði sparkað í verslunarstjettina. Sú skoðun lýsti sjer hjá hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að honum virtist fjárhagsvoðinn miklu meiri, ef þessi till. næði ekki fram að ganga. Það er svo að sjá, sem hv. þm. (B. K.) virðist það fjárhagsvoði, ef sveitarfjelögin fá vörur til úthlutunar. Jeg get ekki sjeð það, því að vitanlega þarf verslunarstjórnin ekki að lána sveitarfjelögunum þessar vörur, frekar en kaupmönnum og kaupfjelögum. Jeg geri heldur ekki ráð fyrir því, að kaupmenn eða kaupfjelög fari að leggja út fje fyrir vörurnar fyr en þau fá þær afgreiddar, og sama mun vera um sveitarfjelögin, svo að sama hættan verður þá fyrir landsverslunina, hverjir sem hafa vörumar til úthlutunar. Jeg bið hv. deild að athuga, að engin breyting verður á verslunarrekstrinum hvort sem till. verður samþ. eða ekki. Mjer finst þetta því óþörf, að vísu meinlaus, till., sem engin ástæða sje til að samþykkja.

Mjer virðist, að verslunarstjórnin eigi að hafa óskorað vald til að úthluta vörunum, eftir því sem haganlegast þykir fyrir hjeruðin og sveitarfjelögin, sem eiga að taka á móti þeim, og það er alls ekki rjett hjá hv. þm. (B.K.), að við, sem töldum þessa till. óþarfa, viljum láta ganga fram hjá verslunarstjettinni; því að við skoðum það sjálfsagt, þó að þessi till. verði ekki samþykt, að kaupmenn fái vörurnar til úthlutunar, þegar ekkert mælir á móti því. En eins og jeg tók fram áðan, væri hart,ef sveitarstjórnir, sem vildu útvega sveitungum sínum vörurnar ódýrari, gætu ekki fengið þær, og það jafnvel þó að þær borguðu út í hönd. Þess er líka að gæta, að sveitarfjelög geta oft haft mjög hagstæð skilyrði til þess að taka á móti vörum, svo sem nóg húsrúm til að geyma þær í, og þess vegna oft eins heppilegt, að þau taki við þeim, eins og kaupmenn. Undir flestum kringumstæðum geta sveitarfjelögin selt vörurnar ódýrari en kaupmenn eða kaupfjelög. Það er kostnaðarminna að taka að sjer að úthluta fáeinum vörutegundum en að þurfa að sitja með allskonar vörur, sem verslanir þurfa að gera, og fasta starfsmenn.