04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í C-deild Alþingistíðinda. (2217)

82. mál, landsverslunin

Benedikt Sveinsson:

Mjer þykir tillaga sú, sem hv. bjargráðanefnd, eða rjettara sagt meiri hl. hennar, ber fram, á þgskj. 275, vera nokkuð kynleg. Eins og kunnugt er, þá var það vilji þingsins í fyrra, að landsstjórnin fengi sjerstaka menn til þess að standa fyrir versluninni og hafa allan veg og vanda af henni. Nú var skipuð þriggja manna nefnd um nýárið til þess að hafa stjórn verslunarinnar á hendi, og eru í þeirri forstöðunefnd tveir kaupmenn og forstjóri samvinnufjelaganna.Er því líklegt, að þessir þrír menn muni kunna glögg skil á því, hvernig eigi að koma landsversluninni fyrir; þess vegna hafa þeir líka verið teknir til að stjórna henni, og hafa allan veg og vanda af vöruverðinu og útbýtingu varanna. En mjer þykir nú undarlega við bregða, ef þessi hv. deild vill fara að hlaupa undir bagga með þessum mönnum og segja þeim fyrir, hvernig þeir eigi að stjórna versluninni.

Stefnan er einkennileg, ef hún á, eins og hv. þm. S.-Þ. (P. J.) tók fram, að draga úr því, að landsverslunin hafi viðskifti við sveitarfjelögin, en hann kallaði það að vísu áð gera viðskiftin beinni en áður. Jeg get nú ekki sje annað en að verslunin sje með þessu gerð í sjálfu sjer óbeinni, því að hjer er beinlínis verið að koma lið inn á milli sveitarfjelaganna og landsverslunarinnar. Jeg sje ekki heldur betur en að þessi rekistefna þingsins sje alveg óþörf, af því að það megi fullkomlega treysta þessum tveim kaupmönnum og forstjóra samvinnufjelaganna, sem eru í stjórn landsverslunarinnar, til þess að sjá um, að rjettur kaupmanna og kaupfjelaganna verði ekki fyrir borð borinn. Ef þeir vilja taka upp einhverja nýja stefnu í þessu málir þykir mjer líklegast, að þeir hafi besta þekkingu á því, enda beri þeir alla ábyrgð á því. En aftur á móti þætti mjer það harðara, ef þingið færi að svifta samtök einstakra manna í sveitum þeim rjetti, að skifta beint við landsverslunina, og taka fram fyrir hendur hennar með að mega selja þeim. Það myndi mælast mjög illa fyrir, og gæti jeg þá farið að skilja, að forstjórarnir vildu koma ábyrgðinni af slíkum tiltekjum yfir á hendur þingsins, en jeg vil ekki taka á mig ábyrgðina af því að hafa átt hlut í slíku og taka óvinsældir af því. Vona jeg, að forstjórarnir fari vel með vald sitt, og því betur, ef þeir eiga sjálfir að bera ábyrgð á gerðum sínum, en hitt er skiljanlegt, að þeir vilji heldur unna öðrum ábyrgðarinnar á þeim breytingum, sem illa mundu mælast fyrir í landinu. Jeg ímynda mjer nú, að hjá þeim, sem forstjórn landsverslunarinnar skipa og jeg gat um áður, muni höfuðreglan í framkvæmdunum verða sú, að það verði kaupmenn og kaupfjelög, sem annast þessa verslun, en mjer finst það algerlega rangt að vilja útiloka sveitarfjelögin, eða fjelög og samtök einstakra sveitarhluta, frá því að skifta við landsverslunina, ef þau sjá sjer hag í því.

Um kaupmenn og kaupfjelög er þess að geta, að þau mega ekki, samkvæmt því sem til er ætlast, setja verð vörunnar upp nema um vissa hundraðstölu, en það gæti þó svo farið, að þau segðu: Við viljum ekki hafa neitt með þetta að gera, nema við fáum hærri laun en ákveðin eru, og ættu þau þá hægri aðstöðu að krefjast hærri ómakslauna, er búið væri að útiloka sveitarfjelögin. (B. K.: Þau eru ekki útilokuð.) Ef þau eru ekki útilokuð, þá er tillagan yfir höfuð alveg tilgangslaus. Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að ekki væri gengið nógu langt í því, sem hann vildi, að hlynna að þessari nauðsynlegu stjett manna, verslunarstjettinni, en jeg get vikið að því síðar, hversu alt, sem hv. þm. (B. K.) sagði um þetta efni, var talað út í hött, og jeg get tekið það fram strax, að hjer er alls ekki verið að tala um að taka af kaupmönnum verslunina við útlönd; hjer er verið að tala um úthlutun á vörum, sem þegar eru komnar til landsins; hjer er því alt annað um að ræða en að verið sje að keppa við kaupmenn um vörukaup frá útlöndum, og því er alt, sem hv. 1. þm. G. K. (B. K.) sagði, talað út í hött. (B. K.: En þarf ekki að borga vörurnar?). Það er alls ekki verið að tala um að fá vörur ókeypis. Annars þótti mjer gaman að heyra þær kenningar, sein þessi forvörður kaupmannastjettarinnar var að halda fram, og þykir mjer það talsverð nýung, hvernig hann og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) fylgjast nú að áhugamálum kaupmannastjettarinnar, en jeg ætla að leiða hjá mjer að koma saman „principum“ þeirra, þar ræða er um kaupfjelagsskap hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og kaupmannastefnu hv. 1. þm. G.-K. (B. K.). það, sem hjer er verið að ræða um, er ekki annað en það, hvernig útbýta og verja skuli meðal landsmanna þeirri vöru, sem landsverslunin fær í hendur, hversu haga skuli innheimtu og öðru, sem því kemur við; og sje jeg ekki betur en að þeim hlutum sje vel fyrir komið í höndum þeirra manna sem nú veita landsversluninni forstöðu, og því engin ástæða til fyrir þessa hv. deild að fara að skipa þeim að ganga lengra í því að útiloka einstök sveitarfjelög frá að skifta við landsverslunina, þegar þau álíta sjer það hagkvæmt. Jeg hefði getað skilið í því, að hv. deild hefði farið að hlutast til um það, ef landsverslunin væri farin að misbeita valdi sínu, ef hún vildi t. d. ekki skifta við aðra en kaupmenn og kaupfjelög, en vildi útiloka sveitarfjelög og aðra frá viðskiftum. Þá væri tími til að taka fram fyrir hendurnar á stjórn verslunarinnar, en það er einmitt alveg þveröfug leið, sem þessi hv. bjargráðanefnd hefir farið. Það kemur líka í ljós við umr., að nefndin hefir klofnað um þetta mál, og er jeg viss um, að ef hinn góðkunni frsm. nefndarinnar (P. J.) áttaði sig ögn betur á málinu, þá mundi hann ekki beita sjer hart gegn því, að sveitarfjelög og smærri fjelög fengju að hafa óbundnar hendur um skifti sín við landsverslunina.

Hv. frsm. (P. J.) sagði það að vísu ekki útilokað, að þau gætu fengið vörur, en hann sagði, að þetta ætti að verða „meginregla“, að selja kaupmönnum og kaupfjelögum; hvað það orð þýðir hjer veit jeg ekki vel, en held, að það verði líkt og „princip“ eða allsherjarregla, og verður þá undantekningin frá þeirri reglu það, sem kallað er „princip“brot. En jeg hygg, að það geti ekki verið vilji Alþingis að torvelda landsmönnum svo viðskifti við landsverslunina, að gera þau að „princip“broti.

Jeg vona því, að hv. 2. þm. Eyf. (E. Arna.) verði gott til liðs um þá rökstuddu dagskrá, sem hann ber hjer fram og jeg veit að mun mælast vel fyrir í landinu.