04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (2223)

82. mál, landsverslunin

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla ekki að lengja umr. mikið, en jeg vil þó lýsa yfir því, að jeg er samþykkur þeim hv. þm., sem talað hafa og lýst þeirri skoðun, að þessar tillögur væru næsta óþarfar, eins og nú stendur á. Í fyrra kom fram tillaga frá nokkrum hv. þm., sem fór nokkuð í sömu átt, og virtist mjer hún á þeim tíma heldur líklegri en nú. Það er sem sje öllum kunnugt, að í fyrra voru menn óánægðir með landsversk og forstjóra hennar, en nú eru komnir nýir forstjórar, og er svo til ætlast, að þeir verði eins óháðir landsstjórninni og tök eru á. Jeg er meðal þeirra, sem bera fullkomið traust til þessara manna, sem forstjórar eru, og veit jeg, að valið hefir í þetta skiftið tekist sæmilega, og jeg býst við, að hv. Alþingi geti ekki bætt þar mikið um, þó, að það fari að sletta sjer fram, í gerðir þeirra.

Þetta er svo mikið og vandasamt mál, að jeg tel það ekki rjett að fara að gera tillögur til stjórnarinnar um eitthvert visst fyrirkomulag á rekstri þess, nema því að eins, að forstjórarnir sjeu með í ráðum.

Þá er það líka óþarft að samþykkja þessa till. frá hv. bjargráðanefnd, því að sumt af því, sem hún fer fram á, mun þegar komið á. Þá er síðari liður tillögunnar svo vaxinn, að við erum ekki að neinu leyti nær því að fá góð lán, þó að hann verði samþyktur, því að jeg vona, hvort sem er, að hæstv. landsstjórn takist betur við næstu lántöku en þá, er síðast fór fram, svo að jeg segi ekki meira.

Mjer finst ástæða til að athuga nánar það, sem hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði í ræðu sinni. Mjer skildist sem sje svo, að hann benti á nýtt atriði í þessu máli, sem vert er að betur sje athugað, en það kemur ekki fram í tillögunni, og kemur því henni ekki við, og jeg tel það að vísu miður. Till. hljóðar að eins um það, að koma á þeirri reglu, að kaupmenn og kaupfjelög hafi með höndum afhending og útsölu á vörum frá landsversluninni, en þar er alls ekki ætlast til, að landsverslunin selji kaupmönnum eða kaupfjelögum vöruna, og þeir selji svo alþýðu manná. Það á með öðrum orðum að eins að láta kaupmenn og kaupfjelög annast úthlutun á þeirri vöru, sem til er og landið hefir útvegað.

Mjer skildist, að það, sem hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) vildi láta komast inn í tillöguna, en ekki er í henni, væri að kaupmenn og kaupfjelög keyptu vöruna, sem landsverslunin útvegaði, og mundi á þann hátt vera hægt að ná í það veltufje, sem verslunarstjettin á yfir að ráða; sömuleiðis mundu m. a. þeir hæfileikar, sem æfðir hafa verið í þarfir verslunarinnar, fá notið sín, og loks mundi landsstjórnin á þennan hátt losna við að taka lán erlendis til verslunarrekstrarins. Þetta atriði á bjargráðanefnd í samráði við forstjóra landsverslunar að athuga gaumgæfilega, því að það er þess vert, En það á ekkert erindi inn á þingið. En er við tölum um tillöguna eins og hún er nú, þá er þetta því miður alls ekki í henni, því hún talar, eins og jeg hefi tekið fram, að eins um afhending og útsölu á vörum landsverslunarinnar, en ekki kaupmanna.